"ÞAÐ er mjög auðvelt að komast hjá því að ljúka bardaganum með því að fylgja ekki reglunum," sagði heimsmeistarinn í hnefaleikum, Evander Holyfield, í kjölfar þess að honum var dæmdur heimsmeistaratitill WBA í þungavigt aðfaranótt sunnudags eftir að áskorandinn, Mike Tyson, beit hann í bæði eyrun.
Tyson skellir skuldinni á Holyfield

"Ég hef börnað sjá fyrir"

"ÞAÐ er mjög auðvelt að komast hjá því að ljúka bardaganum með því að fylgja ekki reglunum," sagði heimsmeistarinn í hnefaleikum, Evander Holyfield, í kjölfar þess að honum var dæmdur heimsmeistaratitill WBA í þungavigt aðfaranótt sunnudags eftir að áskorandinn, Mike Tyson, beit hann í bæði eyrun.

Þetta sýndi heigulshátt hans [Tysons] og ég efast ekki um að hann hafi gripið til þessa ráðs þegar hann fann að ég var að ná undirtökunum. Hann mun örugglega reyna að halda því fram í framtíðinni að hann hafi þó að minnsta kosti ekki tapað á því að vera lakari í hringnum," sagði Holyfield, sem er aðeins annar maðurinn í sögunni ­ á eftir Muhammad Ali ­ til þess að vinna heimsmeistaratitilinn í þungavigt þrisvar sinnum.

Þjálfari Holyfields, Don Turner, tók í sama streng og sagðist þess fullviss að örvænting hafi rekið Tyson til þess að grípa til þessa örþrifaráðs. "Ég tel að Tyson hafi í rauninni aldrei verið neitt sérstaklega spenntur fyrir því að taka þátt í þessum bardaga og hann hafi þarna fundið auðvelda undankomuleið," sagði Turner eftir bardagann.

"Ég sá hann [Tyson] bíta eyrað af Holyfield og þetta var það ótrúlegasta sem ég hef séð síðan ég byrjaði í hnefaleikum. Ég vil að Tyson fái langt keppnisbann og hann þarf augljóslega að leita sér sálfræðilegrar hjálpar. Ég tel einnig að það ætti að veita honum háa sekt því þetta er smánarblettur á íþróttinni," sagði Turner.

Framferði Tysons hefur vakið mikla reiði um heim allan og keppast nú íþróttafréttaritarar vestra um að fordæma hann. Gekk einn þeirra svo langt að lýsa því yfir í beinni útsendingu að atvik þetta væri dauðadómur fyrir hnefaleika almennt, en flestir virðast sammála um að Tyson þurfi á einhvers konar hjálp að halda.

"Líf Tysons hefur verið án tilgangs alla hans ævi og hann hefur mjög margbrotinn persónuleika. Hann þyrfti að fara í einhvers konar meðferð," sagði íþróttafréttaritari sjónvarpsstöðvar einnar í Bandaríkjunum og annar bætti við að Tyson ætti aldrei að fá að stíga inn í hringinn aftur nema það væri á móti hungruðum birni.

Blökkumannaleiðtoginn Jesse Jackson, sem var á meðal áhorfenda aðfaranótt sunnudagsins, lét heldur ekki sitt eftir liggja að draga í efa sálarástand Tysons. "Mike er frábær hnefaleikari svo það hlýtur að vera eitthvað annað sem hrjáir hann og veldur öllum þessum vandræðum. Við verðum því fyrst og fremst að einbeita okkur að því að veita honum einhvers konar hjálp," sagði Jackson.

Tyson sjálfur reynir hins vegar að skella skuldinni á Holyfield, segir hann hafa beitt fólskulegum brögðum í hringnum og notar hann börnin sín óspart sem afsökun fyrir uppátækinu. "Hann skallaði mig stanslaust í einvíginu í fyrra og hélt því svo áfram núna en samt fékk hann hvorki viðvörun né refsistig. Hvað átti ég að gera? Þetta er atvinna mín og ég hef börn að sjá fyrir ­ ég gat ekki látið þetta óáreitt, ég varð að hefna mín," sagði Tyson, sem á þrjú börn og eitt á leiðinni.

"Börnin mín eru mér allt. Allir vita að eiginkonur koma og fara eins og þeim sýnist en börnin eru alltaf á sínum stað. Lítið á mig núna, ég get varla farið heim því börnin mín verða dauðhrædd við mig," sagði Tyson og benti á skurðinn fyrir ofan hægra augað.

Aðspurður um hvort möguleiki væri á öðru einvígi á milli Tysons og Holyfields einhvern tímann í framtíðinni sagði Don Turner, þjálfari heimsmeistarans, að ef Tyson myndi láta fjarlægja úr sér tennurnar væri möguleikinn hugsanlega fyrir hendi.