Kvikmyndafréttir Pierce Brosnan ætlar að feta í fótspor Steve McQueen og leika í endurgerð á "The Thomas Crown Affair". Cameron Diaz verður ein af föngulegu konunum í lífi aðalpersónunnar, ríks ræningja sem hefur gaman af skák.

Kvikmyndafréttir

Pierce Brosnan ætlar að feta í fótspor Steve McQueen og leika í endurgerð á "The Thomas Crown Affair". Cameron Diaz verður ein af föngulegu konunum í lífi aðalpersónunnar, ríks ræningja sem hefur gaman af skák.

Jeff Daniels hefur tekið að sér hlutverk í Disney-myndinni "My Favorite Martian". Myndin er byggð á sjónvarpsþáttum sem nutu nokkura vinsælda í Bandaríkjunum á sínum tíma.

Dustin Hoffman, Robert DeNiro, Woody Harrelson, Anne Heche og Denis Leary ætla öll að leika í pólitísku satírunni "Wag the Dog". Barry Levinson sér um leikstjórnina.

Joe Dante ætlar að leikstýra "Small Soldiers" fyrir DreamWorks. Myndin segir frá ævintýrum drengs þegar tindátarnir hans lifna við.

Roger Moore hefur samþykkt að leika í væntanlegri kvikmynd Spice Girls "Five". Gamli Bondarinn fer með hlutverk ríkisbubba í tónlistariðnaðinum í myndinni.

Kvikmyndaleikstjórinn Penny Marshall hefur skrifað undir að leikstýra tveimur myndum, "Saving Grace" og "Wild Oats". Fyrri myndin segir frá lausgirtum plötuframleiðanda sem uppgötvar að hann hefur eignast afkomendur fyrir tuttugu árum. Síðarnefnda myndin fjallar um samband tveggja rokksöngvara í gegnum þykkt og þunnt.

Tommy Lee Jones vill prófa leikstjórn. Hann ætlar bæði að stýra og leika aðalhlutverkið í "Dixie City Jam". Myndin er byggð á bók James Lee Burke um fyrrverandi löggu sem rekur verslun fyrir veiðimenn.

Anjelica Huston ætlar líka að setjast í leikstjórastólinn. Hún ætlar að stjórna og leika á móti Sharon Stone og Kristin Scott Thomas í "A Cup of Tea". Myndin fjallar um ólík kjör ríkra og fátækra kvenna í New York á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Marisa Tomei og Alan Arkin verða fátæklingar í "The Slums of Beverly Hills". Myndin á að gefa aðra mynd af lífinu á hæðunum en sjónvarpsþættirnir "Beverly Hills 90210".

Steve Martin og Eddie Murphy leika saman í "Bofinger", gamanmynd sem Martin skrifaði. Martin fer með hlutverk framleiðanda sem hefur skrifað kvikmyndahandrit og finnst aðeins ein stjarna (Murphy) koma til greina í aðalhlutverkið.

MARISA Tomei verður fátæklingur í kvikmyndaborginni í sinni næstu mynd.

DUSTIN Hoffman fer með hlutverk í pólitísku satírunni "Wag the Dog".