STÆRSTU breytingarnar sem ný lögreglulög hafa í för með sér eru stofnun ríkislögreglustjóraembættis samfara niðurlagningu Rannsóknarlögreglu ríkisins og færsla rannsókna brotamála til lögreglustjóraembætta landsins. Mest breyting verður hjá lögreglunni í Reykjavík, sem tekur yfir um 80% þeirra verkefna sem RLR hafði með höndum, og hjá lögreglunni í Kópavogi og lögreglunni í Hafnarfirði.
Viðamestu breytingar á löggæslumálum í áratugi með nýjum lögreglulögum Rannsóknir og saksókn færast til embættanna STÆRSTU breytingarnar sem ný lögreglulög hafa í för með sér eru stofnun ríkislögreglustjóraembættis samfara niðurlagningu Rannsóknarlögreglu ríkisins og færsla rannsókna brotamála til lögreglustjóraembætta landsins. Mest breyting verður hjá lögreglunni í Reykjavík, sem tekur yfir um 80% þeirra verkefna sem RLR hafði með höndum, og hjá lögreglunni í Kópavogi og lögreglunni í Hafnarfirði. 26 starfsmanna RLR færast til lögreglunnar í Reykjavík, 2 til lögreglunnar í Kópavogi, 2 til lögreglunnar í Hafnarfirði og 16 verða starfsmenn hins nýja embættis ríkislögreglustjóra. Auk þess að hafa með höndum rannsókn brotamála verður saksókn einnig að mestu í höndum einstakra lögreglustjóraembætta.

Á blaðamannafundi, sem Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra efndi til í gær í tilefni af gildistöku laganna, sagði hann að lagasetning þessi væri umfangsmesta skipulagsbreyting á stjórn löggæslu í landinu í langan tíma. Hann sagði að með breytingunum ætti að nást það markmið laganna að gera feril rannsókna og ákæru hraðari og skilvirkari en verið hefði. Þannig yrði stór hluti mála í höndum sama embættis frá upphafi rannsóknar til málflutnings fyrir dómi. Hann sagði að sú sérþekking sem hefði byggst upp á þeim 20 árum sem RLR hefði starfað myndi flytjast til annarra embætta og nýtast áfram. Yfirstjórn löggæslu styrkist Þorsteinn sagði að með stofnun ríkislögreglustjóraembættisins væri verið að styrkja yfirstjórn lögreglunnar í landinu. Það myndi taka yfir mörg verkefni sem hingað til hefðu verið í dómsmálaráðuneytinu, samræma störf löggæslunnar í landinu og innleiða nýjungar. Skv. lögunum er eitt meginhlutverk ríkislögreglustjóra að miðla upplýsingum innan lögreglunnar og fylgjast með og vinna að því að hinum pólitísku ákvörðunum æðstu handhafa ríkisvaldsins, sem lúta að löggæslu, verði fylgt eftir.

Helstu önnur hlutverk ríkislögreglustjóra eru talin upp í 5. grein laganna. Nefna má miðlun upplýsinga frá lögreglunni til dómsmálaráðherra. Í athugasemdum með frumvarpi til lögreglulaga segir að til þess að geta sinnt því hlutverki verði ríkislögreglustjóri m.a. að halda eða hafa yfirumsjón með og viðhalda miðlægum upplýsingakerfum sem lögreglustjórar beina upplýsingum til með öllu því sem máli skiptir varðandi starfsemi lögreglunnar í landinu. Á blaðamannafundinum í gær kom fram hjá Boga Nilssyni ríkislögreglustjóra að uppbygging upplýsingakerfa gengi vel og um þessar mundir væri verið að nettengja síðustu lögregluembættin. Hann tók upplýsingar um afbrot og afbrotamenn sem dæmi um upplýsingar sem skráðar og varðveittar yrðu með skipulegum hætti.

Lögreglustjórum veittur stuðningur Bogi vakti sérstaka athygli á skýrari ákvæðum um hlutverk lögreglunnar í landinu en verið hefðu í lögum hingað til. Þá nefndi hann að ríkislögreglustjóri myndi hafa eftirlit með því að framkvæmd löggæslu yrði í samræmi við lög og embættið myndi veita lögreglustjórum stuðning. Ríkislögreglustjóri annast einnig alþjóðasamskipti á sviði löggæslu og sinnir yfirstjórn einstakra löggæsluverkefna á landinu. Samkvæmt lögunum skal ríkislögreglustjóri starfrækja sérstaka rannsóknardeild sem rannsakar skatta- og efnahagsbrot. Þá verður við embættið stoðdeild sérhæfðra rannsóknarmanna til að aðstoða einstök lögregluembætti við rannsóknir erfiðra brotamála; rannsóknarstofa til að sinna skjalarannsóknum, fingrafararannsóknum og slíkum tæknilegum rannsóknum. Þá gera lögin ráð fyrir að við embætti lögreglustjórans í Reykjavík verði rekin tæknideild fyrir landið allt til að sinna eða aðstoða við rannsóknir á vettvangi og aðrar slíkar.

Konum auðvelduð innganga Aðrar nýjungar í lögunum eru t.d. lögfesting ákvæða um skyldur lögreglumanna, valdbeitingarheimildir, handtökuheimildir, leit á mönnum og önnur afskipti af borgurunum; lögfesting reglna um meðferð kæra á hendur lögreglumönnum vegna ætlaðra refsiverðra brota við framkvæmd lögreglustarfa og lögfest er hverjir hafi lögregluvald. Þá er gert ráð fyrir breytingum á skipulagi Lögregluskóla ríkisins. Þær fela m.a. í sér að í stað þess að lögreglustjóraembætti sendi nema í skólann er auglýst eftir nemum og valið í skólann af sérstakri valnefnd. Þá eru nokkur nýmæli í lögunum til þess fallin að auðvelda konum inngöngu í lögreglu. 80% verkefna RLR til Reykjavíkur Mjög miklar breytingar verða á embætti lögreglustjórans í Reykjavík í dag. Nýtt embætti varalögreglustjóra hefur verið stofnað og deildaskiptingu hefur verið gjörbreytt. 26 menn færast frá Rannsóknarlögreglu ríkisins til lögreglunnar í Reykjavík og tekur hún yfir um 80% þeirra verkefna sem RLR hefur sinnt. Auk þess færist saksóknari, Egill Stephensen, frá embætti ríkissaksóknara til lögreglunnar í Reykjavík.

Starfsmenn embættisins eru 353. Þeir skiptast þannig að í almennri deild eru 210, á ákæru- og lögfræðisviði eru 11, í rannsóknardeild 70 og 60 á skrifstofu. Þegar embættið tekur við nemum úr Lögregluskólanum í haust bætast u.þ.b. 18 manns við almenna deild. Meðfylgjandi eru skipurit lögreglustjóraembættisins í Reykjavík og skipurit sem sýnir meginviðfangsefnasvið embættis ríkislögreglustjóra. Yfirmenn hjá embætti ríkislögreglustjóri

Bogi Nilsson Þórir Oddsson Hörður Jóhannesson Jón Friðrik Bjart· marz Jón H. Snor· rason Yfirmenn lögreglunnar í Reykjavík

Böðvar Bragason Haraldur Johannessen Jónmundur Kjartansson Egill Stephensen Guðmundur Guðjónsson Stefán Hirst ÞORSTEINN Pálsson dómsmálaráðherra gerði grein fyrir nýjum lögreglulögum á blaðamannafundi í gær.