Eyvör Ingibjörg Þorsteinsdóttir Við viljum minnast hér með fáeinum orðum elskulegrar ömmu okkar, Eyvarar, sem jarðsungin verður frá Dómkirkjunni í dag. Er við hugsum til baka sjáum við fyrir okkur ömmu geislandi af ánægju vegna heimsóknar frá barnabörnum á fallegt heimili þeirra afa Odds á Grenimel 25 og síðar á heimili ömmu á Hjarðarhaga 46, eftir að afi var fallinn frá. Hana varðaði miklu að fylgjast sem allra best með því sem við barnabörnin hefðum fyrir stafni, í námi, starfi og leik. Hún var ávallt góður vinur okkar sem gaf okkur ráð og velti vöngum yfir hlutunum með okkur. Þegar hún amma fann stundaglasið sitt brátt vera að tæmast, nú fyrir skemmstu, skrifaði hún tveimur langömmubörnum sínum, þeim Margréti Erlu og Gunnari Jóni, sendibréf vegna þess að þetta árið komst hún ekki í afmælin þeirra, en örugg vildi hún vera um að afmælisgjafir frá henni kæmust til skila á réttum tíma. Hún hafði alltaf getað samglaðst þeim við slík tækifæri og þótti þetta því afar leitt. Þessi umhyggja hennar fyrir langömmubörnunum, á sama tíma og hún lá sjálf mikið veik á hjúkrunardeildinni á Hrafnistu í Hafnarfirði, sýnir vel hverjum amma vildi helga starfskrafta sína og líf. Fram til þess dags er hún veiktist, fyrir rúmu ári, var hún fær um að sjá um sig sjálf og sinna störfum sínum. Þessi snögga breyting skapaði henni því mikil viðbrigði og okkur hinum reyndist erfitt að upplifa það að geta ekkert gert til að endurheimta heilsu hennar. Amma Eyvör var okkur þó áfram góð fyrirmynd, því hún varðveitti lífsgleði sína og þrótt allt til loka. Við systkinin erum þakklát henni fyrir allt sem hún gerði fyrir okkur. Eftir stendur minningin um góða og fallega ömmu og langömmu sem hafði vakandi auga með velferð sinna barnabarna og langömmubarna. Amma var mikill unnandi ljóðlistar Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og viljum við því enda þessi skrif okkar með kvæði úr ljóðasafninu hans: Hvert lítið orð, sem lífinu fagnar, er ljóð um sönginn, sem aldrei þagnar. Blessuð sé minning hennar.

Kristín Anna og Björgvin.