KRISTÍN G. ÍSFELD

Kristín Guðmundína Ísfeld fæddist í Grjótárgerði í Fnjóskadal 28. júlí 1909. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Hvammstanga 18. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Andrés G. Ísfeld og Sigurbjörg Indriðadóttir, lengst af búsett á Akureyri. Þau eignuðust þrjú börn. Sigríður Ísfeld, elsta barnið, lést á fyrsta aldursári. Yngri bróðir Kristínar er Indriði Ísfeld, f. 30. apríl 1913 á Veturliðastöðum í Hálshreppi. Kristín eignaðist einn son, Kristján Ísfeld, f. 21. júní 1941. Kona hans er Hólmfríður Hjördís Sigurðardóttir, f. 24. febrúar 1936. Börn þeirra eru þrjú. Kristín, f. 18. júní 1970, gift Einari Bjarka Sigurjónssyni. Sigurður Óli, f. 2. nóvember 1973, og Guðmundur Hjörtur, f. 28. júlí 1976. Kristín átti tvo langömmudrengi og eru þeir synir Kristínar og Einars. Kristín starfaði lengst af við hjúkrunarstörf. Fyrst á Kleppsspítala en síðar á Sjúkrahúsi Akureyrar. Síðustu starfsárin vann hún á Elliheimili Akureyrar þar til hún lét af störfum sökum aldurs. Kristín flutti frá Akureyri 1979 að Jaðri til sonar síns en hafði aðsetur í þjónustuíbúðum aldraðra í Nestúni 6 á Hvammstanga til æviloka. Jarðarför Kristínar fer fram frá Staðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.