Eyvör Ingibjörg Þorsteinsdóttir Merk og góð kona hefur kvatt. Tengdamóðir mín, Eyvör Ingibjörg Þorsteinsdóttir, lést á björtu og hlýju sumarkvöldi, þann 21. júní sl. Mildir litir náttúrunnar, bleik slikja yfir fjöllunum, sléttur hafflöturinn, snarpt en mosavaxið hraun og fuglasöngur einkenndu þann dag. Þannig var tengdamóðir mín einnig, hlý og umhyggjusöm. Hún var fremur lágvaxin, með silfurgrátt hár, tignarleg, snögg í hreyfingum og stjórnaði af mildi. Dugnaður, eljusemi og háttvísi einkenndu allar hennar gjörðir. Eyvör ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur og bjó þar alla tíð. Hún var sannur Reykvíkingur. Hún hafði unun af ferðalögum, dáði náttúrufegurð og landafræði og þekkti betur en flestir nöfn fjalla og kennileita. Eyvör var mjög fróð, stálminnug og hafði skemmtilegan frásagnarmáta. Hún var óspör á ferðasögur um óbyggðir Íslands, grónar sveitir og útlönd. Sögurnar af tjaldferðinni í Þjórsárdal með upptrekktan grammifón og postulínsstell, ævintýralegri hestaferð með systrum og vinkonum í Landmannalaugar, utanlandsferðunum, sérstaklega til Englands og Danmerkur á yngri árum, svo og ferðalög með Oddi, manni hennar, ekki síst til Ítalíu, bar oft á góma. Hugðarefni Eyvarar voru mörg. Auk sauma og lestrar hafði hún mikla ánægju af að spila brids í góðum kunningjahópi. Eyvör var góð amma, fylgdist af áhuga með því sem barnabörnin tóku sér fyrir hendur og bar mikla umhyggju fyrir velferð þeirra og framtíð. Sonum mínum reyndist hún einstaklega vel og sóttu þeir mikið til hennar. Alltaf tók hún þeim fagnandi, lagði dúk á borð og hafði til dýrindis krásir um leið og þau spjölluðu um heima og geima. Eftir góðgjörðir var sjálfsagt að þeir fengju sér smálúr í sófanum. Eyja amma fylgdist vel með fréttum innanlands og utan, vissi hvað var að gerast í heimi íþróttanna, stöðu KR og erlendra liða sem ömmubörnin studdu svo og árangri á skákmótum. Hún var listfeng, dáði einkum skáldin Davíð Stefánsson og Guðmund Böðvarsson, tónlist Beethovens og Mozarts, myndlist og bar heimili hennar þess sterk merki og oft var rætt um leiklist. Hún hafði ákveðnar skoðanir á stjórnmálum og kom þeim afdráttarlaust til skila til ungu kynslóðarinnar. Ég minnist heimsóknar Eyvarar fyrir nokkrum árum í sumarbústað okkar í Langholtsfjalli er ég sýndi henni stoltur allar plönturnar, birki, greni, lerki og aspir, sem við höfðum gróðursett. Benti hún mér þá á að það vantaði reynitré. "Mér finnast reynitré fallegust trjáa og þau eiga alltaf að standa tvö og tvö saman," sagði tendamóðir mín ákveðin á svip og bætti síðan við: ,Ég ætla að gefa þér tvö reynitré í afmælisgjöf og þú átt að planta þeim þarna." Hún hafði sitt fram og standa þau nú, beinvaxin og tignarleg og minna á gefandann. Minning um helgarferðar fjölskyldunnar með Eyvöru í sumarbústað okkar 15.-17. júní í fyrra kemur einnig í hugann. Hún lék á als oddi, vildi spila fram á nætur með tíðum ábendingum til mín um betri spilamennsku, ég minnist kaffisopans með henni úti á palli í góða veðrinu og umræðum um skógrækt okkar. Daginn eftir, 18. júní, veiktist Eyvör og nokkrum dögum síðar kom stóra áfallið sem leiddi til þess að hún var bundin hjólastól síðasta árið. Í vetur hefur Eyvör dvalið á Hrafnistu í Hafnarfirði og notið einstakrar umönnunar starfsfólks deildar 2B. Heimsóknir okkar til hennar, í fallega herbergið með útsýni til suðurs, hafa verið tíðar enda áttum við eftir að heyra margar skemmtilegar sögur af vörum hennar. Umhyggja systkinanna, Jóns, Kristínar og Mörtu minnar, fyrir móður sinni var eftirtektarverð og sýndi hversu mikils þau virtu hana. Jón og Marta heimsóttu móður sína daglega og Kristín hringdi oft í viku frá Osló auk nokkurra ferða heim. Þá er komið að kveðjustund og um leið og ég fyrir hönd fjölskyldunnar færi starfsfólki Hrafnistu í Hafnarfirði þakkir fyrir frábæra umönnun og hýlegt viðmót við hana og okkur öll vil ég þakka tengdamóður minni fyrir langa og góða samfylgd. Minningin um mæta konu lifir.

Blessuð sé minning hennar. Þórður Magnússon.