Hafþór Vestfjörð Sigurðsson Kveðja frá starfsfélögum

Á hátíðarstund við skólaslitin í vor kvöddumst við starfsfélagarnir og reiknuðum öll með að sjást aftur að hausti. En skjótt skipast veður í lofti, dauðinn kveður dyra og enn erum við minnt á það hversu örstutt er á milli lífs og dauða. Hafþór okkar er horfinn, við fáum ekki að njóta návistar hans og starfa framar. Hann var hrifsaður burt í blóma lífsins.

Hans verður sárt saknað af okkur vinnufélögunum og nemendum sem þótti sérstaklega vænt um hann og töluðu oft um hversu góður kennari hann væri.

Það var ljúft að vera í návist Hafþórs, hæglæti hans og hógværð kallaði á virðingu umhverfisins og alltaf var stutt í kímnina og hláturinn. Störf hans einkenndust af samviskusemi, listrænum hæfileikum, fallegu handbragði og sköpunargleði. Með þessum orðum viljum við heiðra minningu Hafþórs, kveðja hann og þakka fyrir að hafa fengið að njóta starfskrafta hans og návistar. Hlutirnir sem til eru í skólanum eftir hann munu ávallt minna okkur á góðan dreng, kennara og starfsfélaga. Margréti, Sigurði, Helga og öðrum ástvinum Hafþórs sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að styrkja þau.

Fyrir hönd starfsmanna Álftanesskóla,

Erla Guðjónsdóttir.