Þórður Kristleifsson

Er Þórður var að alast upp biðu ekki unglinganna námsbrautirnar, tylftum saman, að hellast yfir menn. Alþýðumenn eins og Þórður urðu að brjótast til mennta, ef þannig stóð um hug þeirra. Þetta gerði hann og lagði stund á tónlistar- og tungumálanám í Reykjavík, Kaupmannahöfn, Dresden, Milano, Berlín. Lengst af starfsævi sinnar kenndi hann við skólana á Laugarvatni, fyrstur manna gegndi hann embætti þýskukennara við Menntaskólann að Laugarvatni. Er hann hafði látið af því embætti fyrir aldurs sakir, fyrir hér um bil mannsaldri, kenndi hann allmörg ár þýsku við Menntaskólann í Reykjavík. Á Laugarvatni kenndi hann mér, nokkrum árum síðar hlotnaðist mér að feta í fótspor hans í embætti, því fæ ég ekki orða bundist í dag.

Við fráfall Þórðar finnst sumum að eik sé fallin, öðrum þykir horfið fjall af sjóndeildarhring. Slíkur var styrkur hans. Ég sá unga mjög málhressa menn fallast í sæti sínu og missa máls, þegar þeir sáu Þórð í fyrsta sinni, svo ægði hann þeim, svo var hann magnþrunginn, og var hann þó þá að hefja sína seinni öld. Um leið var hann siðfágaður svo að af bar og allra manna alúðlegastur. Þar fór vel taminn eldur. Við búum við það, flestir kennarar, að við gleymumst nemendum okkar er árin líða. Ef um stóra skóla er að ræða, þar sem nokkrir kennarar eru í hverri grein, muna brottgengnir nemendur ekki að nokkrum árum liðnum hvort þessi eða hinn kenndi þeim þetta árið eða hitt, eða yfirhöfuð hver kenndi greinina. En Þórður var eftirminnilegur. Marga hef ég hitt úr Menntaskólanum í Reykjavík, sem muna vel að Þórður kenndi þeim fyrsta árið í þýsku, en síðan muna þeir ekki hver kenndi þeim þá góðu grein. Voru það þó vissulega hinir bestu menn. Einn af skólafélögum mínum á Laugarvatni, vel gefinn maður sem vildi þó hafa hóf á námsiðkan sinni, lét svo um mælt, að hann hefði ætlað að taka þýsku eins og hvert annað fag og læra hana ekki allt of vel. Að viku liðinni hefði sér verið ljóst, að það var vonlaus fyrirætlan, hann komst ekki hjá því að læra hana til ágætiseinkunnar. Vel má þess minnast á þessum dögum árangursrannsókna, að Þórði tókst að innprenta það nemendum sínum að eingöngu hin fullkomna lausn var samboðin hinu göfuga viðfangsefni, að mannsins duft nær að fljúga í hæðir, ef það lætur ekki af um æfingu og viðleitni, og nær því þá að verða manns andi. Nú mun andi Þórðar Kristleifssonar fljúga hömlulaus. Hafi hann þökk fyrir viðkynninguna.

Þór Vigfússon.