ÁSDÍS Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, var kjörin í embætti formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, til næstu tveggja ára, á þingi sambandsins í Reykjanesbæ um helgina. Hún er þar með fyrsta konan til að gegna þessu embætti í 67 ára sögu SUS. Sjálfkjörið var í formannsembættið og það sama átti við um stjórn SUS. Hins vegar var gengið til kosninga í varastjórn.
Ásdís Halla kjörin formaður SUS fyrst kvenna

"Vona að mitt framboð verði

hvatning fyrir aðrar konur"

ÁSDÍS Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, var kjörin í embætti formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, til næstu tveggja ára, á þingi sambandsins í Reykjanesbæ um helgina. Hún er þar með fyrsta konan til að gegna þessu embætti í 67 ára sögu SUS. Sjálfkjörið var í formannsembættið og það sama átti við um stjórn SUS. Hins vegar var gengið til kosninga í varastjórn. Um 120 ungir sjálfstæðismenn tóku þátt í þingstörfum og voru fjölmargar ályktanir samþykktar í lok þingsins. Í þeim kemur m.a. fram vilji ungra sjálfstæðismanna til að jafna atkvæðisrétt til dæmis með einmenningskjördæmum, að háskólanemar greiði aukinn hluta af kostnaði við nám sitt, að Háskóli Íslands verði gerður að sjálfseignarstofnun og að fjárhæð barnabóta verði óháð tekjum framfærenda.

Í samtali við Morgunblaðið segist Ásdís Halla, aðspurð hvort kjör hennar í embætti formanns SUS komi til með að þýða einhverjar breytingar á starfinu á næstunni, telja mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn og SUS leggi meiri áherslu á frjálslyndi heldur en íhaldssemina og vonast hún til að SUS geti beitt sér í þá veru á næstu tveimur árum.

Ásdís Halla bendir ennfremur á að á næstu tveimur árum verði annars vegar sveitarstjórnarkosningar og hins vegar alþingiskosningar. "Ungir sjálfstæðismenn ætla sér að koma ferskir inn í þá umræðu sem verður fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor og gera sitt besta til þess að stjórnmálaumræðan verði spennandi og áhugaverð, ekki síst fyrir ungt fólk," segir hún.

Ekki hlynnt kynjakvóta

Þegar Ásdís Halla er spurð að því hvort það hafi einhverja þýðingu að hún sé fyrsta konan sem sé kjörin í formannsembætti SUS, segist hún fyrst og fremst hafa gefið kost á sér sem einstaklingur og fengið mjög góðan stuðning, sem sannist m.a. á því að ekki hafi komið mótframboð. "Ég vona hins vegar að mitt kjör sé hvatning fyrir aðrar konur og sérstaklega fyrir yngri stelpur til að gefa sig meira að stjórnmálum bæði í Sjálfstæðisflokknum og í öðrum flokkum," segir hún. Ásdís Halla segir ennfremur að ástæða þess að konur hafi ekki áður verið í formannsembætti SUS endurspegli einfaldlega það að konur hafi ekki verið nægilega áberandi hvorki í Sjálfstæðisflokknum né öðrum flokkum, í atvinnulífinu eða annars staðar í samfélaginu. Þá bendir Ásdís Halla á að hvorki hún né aðrir í SUS leggi áherslu á að konur komi inn á kynjakvóta, hvað þá að konum sé ýtt út í stjórnmál.

Háskólinn verði sjálfseignarstofnun

Í ályktun þingsins um menntamál er m.a. lagt til að leggja beri áherslu á ríkari þátttöku einstaklingsins við fjármögnun menntunar sinnar, eftir því sem ofar dregur í skólakerfinu. Telja ungir sjálfstæðismenn eðlilegt að nemendur greiði sjálfir aukinn hluta af kostnaði við nám sitt, miðað við það sem nú sé, þar sem nemandinn sjálfur fái ábatann af námi sínu.

Þá leggja ungir sjálfstæðismenn til að Háskóli Íslands verði gerður að sjálfseignarstofnun, en með því yrði stigið fyrsta skrefið í átt til markaðsvæðingar skólans. Þeir leggja ennfremur til að fækkað verði í háskólaráði, æðstu yfirstjórn Háskólans, og að deildarforsetar sitji ekki í ráðinu. Þannig verði hægt að tryggja sjálfstæða og skilvirka yfirstjórn Háskólans. Einnig er lagt til að breiðum hópi aðila úr þjóðlífinu verði falið að tilnefna fulltrúa í háskólaráð.

Í skattamálum telja ungir sjálfstæðismenn að huga þurfi að stuðningi við barnafjölskyldur og þá sem séu að kaupa sér húsnæði í fyrsta sinn. "Lagt er til að í stað núverandi barnabóta- og barnabótaaukakerfis verði fjárhæð bóta látin nema fastri tölu fyrir hvert barn án tillits til tekna framfærandans."

Í ályktun um viðskipta- og neytendamál telja ungir sjálfstæðismenn nauðsynlegt að draga úr umsvifum hins opinbera í atvinnulífinu, til dæmis með útboðum á einstökum verkefnum eða sölu opinberra fyrirtækja. Lagt er til að selja hlutafé ríkisins í fyrirtækjum sem þegar hefur verið breytt í hlutafélög til dæmis Pósti og síma hf. og Viðskiptabanka ríkisins.

Veðurstofan einkavædd

Þá er talið mikilvægt að breyta hið fyrsta rekstrarformi ýmissa fyrirtækja og stofnana ríkisins sem enn hefur ekki verið breytt í hlutafélög. Þannig eigi til dæmis að breyta Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins í hlutafélag og selja á almennum markaði. En ungir sjálfstæðismenn segja fulla ástæðu til að efast um að stofnun þessa sjóðs eigi rétt á sér.

Í umhverfismálum leggja ungir sjálfstæðismenn áherslu á ábyrgð einstaklingsins og fyrirtækja í umgengni sinni við umhverfið og telja að einkavæða beri Veðurstofu Íslands, Landmælingar og Skógrækt ríkisins. Þá vilja þeir færa rekstur þjóðgarða til einkaaðila og afnema opinbera styrki til skógræktar.

Í samgöngu- og fjarskiptamálum leggja ungir sjálfstæðismenn áherslu á að frelsi verði aukið og setja sig upp á móti öllum aðgerðum stjórnvalda við hömlum á notkun alnetsins. Þá telja ungir sjálfstæðismenn í ályktun um menningarmál að endurskoða beri útvarpslögin og að í nýjum lögum skuli kveðið á um sameiginlegt öryggishlutverk allra ljósvakamiðla.

Aðalstjórn SUS næstu tvö árin

Eftirfarandi fulltrúar voru kjörnir í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna til næstu tveggja ára: Frá Reykjanesi: Áslaug Hulda Jónsdóttir, Bjarni Þór Eyvindsson, Böðvar Jónsson, Jónas Þór Guðmundsson, Már Másson, Skarphéðinn Orri Björnsson og Þórður Ólafur Þórðarson. Frá Reykjavík: Arnar Þór Ragnarsson, Auður Finnbogadóttir, Ásta Þórarinsdóttir, Hanna Birna Krisjánsdóttir, Haraldur Johannessen, Jóhanna María Eyjólfsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Sigurjón Pálsson og Þorsteinn Davíðsson. Frá Vesturlandi: Halldór Skúlason. Frá Vestfjörðum: Björgvin Arnar Björgvinsson. Frá Norðurlandi vestra: Gunnlaugur Ragnarsson. Frá Norðurlandi eystra: Svanhildur Hólm Valsdóttir og Þórður Rafn Ragnarsson. Frá Austurlandi: Jens Garðar Helgason. Frá Suðurlandi: Einar Örn Arnarsson, Kristín Ólafsdóttir og Sigmundur Sigurgeirsson. Morgunblaðið/Árni Sæberg Frá vinstri: Hörn Hrafnsdóttir, einn af þingriturum, Ásdís Halla Bragadóttir formaður SUS og Jón Kristinn Snæhólm þingforseti.