SÉRKENNILEGUR hópur er samankominn í kjallara á Bergstaðastrætinu, piltar úr ýmsum áttum skeitarar, rokkarar og snyrtilegir skólapiltar. Þeir gantast, segja kímnisögur, tala mál sem enginn skilur nema þeir, eins og vill verða með félaga sem lengi hafa verið saman og margt brallað.
Quarashi Beðið er breiðskífu rappsveitarinnar Quarashi af mikilli óþreyju. Árni Matthíasson sat með liðsmönnum í hljóðverinu Nýjustu tækni og vísindum fram á nótt fyrir skemmstu. SÉRKENNILEGUR hópur er samankominn í kjallara á Bergstaðastrætinu, piltar úr ýmsum áttum skeitarar, rokkarar og snyrtilegir skóla piltar. Þeir gantast, segja kímnisögur, tala mál sem enginn skilur nema þeir, eins og vill verða með félaga sem lengi hafa verið saman og margt brallað. Aldrei fær gesturinn á tilfinninguna að um hljómsveit sé að ræða, til þess eru þeir of ólíkir og ósamstæðir. Samt er þetta hljómsveit, hljómsveitin Quarashi, sem komin er í Nýjustu tækni og vísindi, hljóðver Lhooq-félaga Péturs og Jóhanns. Quarashi sendi frá sér fyrstu skífuna fyrir síðustu jól, 500 eintök af plötunni Switchstance, sem á voru fjögur lög. Platan var gefin út í takmörkuðu upplagi, að sögn til að vera fyrsta hljómsveitin sem gæfi út hipphopplötu á Íslandi, en kannski ekki síður til að gá hvort þeir Steini, afslappaður skeitari, Hössi og Sölvi, uppgjafarokkarar, næðu saman og gætu gert eitthvað nýtt. Sölvi sá um tónlistina, einskonar rokkhopp, og Steini og Hössi rappið. Í útjaðri félagahópsins var Richard, félagi Sölva í hljómsveitinni Stjörnukisa, plötusnúður og skeitari líkt og Steini. Þegar platan stutta var gefin út var ekki til nein hljómsveit, bara áðurgreindur félagsskapur en svo mikill varð hamagangurinn í kringum plötuna að þeir félagar neyddust til að setja saman formlega hljómsveit og fara að spila. Þeir segja sjálfir svo frá að þeir hafi byrjað að spila út um allt og komist inn á vinsældalista "og þá kom fullt af feitum körlum og sögðu: "ahaha, ég skal gera ykkur fræga", en þá kom Stefán Ingólfsson og bjargaði okkur, hann tók þetta að sér og sagði þið gerir þetta svona og svona og við höfum fylgt því plani, enda er hann eini maðurinn í plötubransanum sem við treystum." Þetta kemur upp úr þeim félögun þar sem við sitjum í kjallarahljóðverinu, í þungu lofti og röku. Þeir eru komnir vel á veg með fyrstu breiðskífuna, en ekki búnir að átta sig á því enn hvað gerðist. Ef spurt er um síðustu mánuði koma fjórar mismunandi sögur og því líkast að þeir hafi ekki verið á sömu plánetunni þennan tíma. Kannski var það hamagangurinn og tilboðin sem settu þá úr sambandi, en ýmislegt fleira kom til, það þurfti að semja lag í bíómynd, færa í nýjan búning annað lag á safnplötu, bregða á leik með Tvíhöfða og svo mætti telja. Að lokum gafst tími til að læsa að sér í hljóðverinu og þá tók ekki betra við, enda hafði enginn þeirra kynnst annarri eins vinnu; Sölvi reyndar leikið inn á plötu með hljómsveitum, en það var ekkert mál; bara stilla upp, finna sánd og telja í. Geta ekki unnið nema undir pressu Þegar þeir Quarashi-félagar héldu í hljóðver var ekki úr miklu að moða, sex lög að segja tilbúin og prufukeyrð á tónleikum. Þeir taka því létt í dag að hafa farið svo óundirbúnir í hljóðver, segjast ekki geta unnið hvort eð er nema undir pressu. Vinnan fer þannig fram að Sölvi situr sveittur heima og semur grunna og lög, kemr með allt á bandi og síðan er það fært inn í tölvur og viðeigandi apparöt. Þegar lagið er tilbúið sjá þeir Hössi og Steini um rappið og Richard skrámar plötur ofan í alltsaman til skrauts og fyllingar. Vinnan gengur nokkuð hratt segja þeir, þá þegar þeir koma sér að verki, en félagar Sölva gantast með að hann þurfi tuttugu mix af öllu, geti ekki sleppt hendinni af lagi og heyri á þeim vankanta sem aðrir ekki geta greint. Hvað sem því líður er Sölvi músíkdírektör í þessari hljómsveit, hann leggur línurnar og heyra má á brotum sem berast um hátalara, en verið er að vinna skrám í eitt laganna, að Sölvi er á leið inn í einskonar breikbít eða triphop í bland við rappið; hann er að búa til nútímarapp með félögum sínum. Þeir Steini og Hössi semja textana og þeir eru ekki eins orðmargir og menn halda; Sölvi segir að hann hafi orðið hissa þegar hann sá þá á blaði í fyrsta sinn. Þeir félagar semja ólíka texta; Hössi segir sögur en Steini yrkir um félagana og daglegt líf og pælir oft í yfirnáttúrlegum hlutum. Lífið er texti, segir hann leyndardómsfullur, en skýrir það ekki nánar. Sölvi segir að textarnir á plötunni komi sér þægilega á óvart, þeir séu pældari og kaldhæðnari en hann átti von á. Rappið er tónlist litra allsleysingja vestur í heimalandinu, eða í það minnsta manna sem láta eins og séu þeir allsleysingjar. Textar þar ganga og út á allskyns ömurlegheit, vondar löggur, kynþáttafordóma og fláráða fjandvini. Margir sem taka til við að rappa fara og þá leið að líkja eftir fyrirmyndunum, að rappa sem væru þeir í ævivist í blökkumannahverfi í Kaliforníu. Þeir Quarashitextahöfundar brosa þegar borið er á þá að þeir séu ekki nógu undirokaðir í textum sínum; "við erum bara á Íslandi, þó Vesturbærinn sé eins og Bronx, þá erum við á Íslandi." Opnasta tónlistarform sem til er Sölvi semur tónlistina, en þegar þeir tala um músík hafa þeir allir skoðanir, lifna við þar sem þeir hafa setið eða legið nánast útaf. Þeir félagar hafa reyndar ólíkan tónlistarsmekk, kannski er smekkur þeirra Sölva og Richards líkastur og þá í því að þeir eru opnir fyrir öllu, segjast hlusta á alla tónlist og reyndar meira og meira eftir því sem árin líða. "Það sem heillaði mig við rappið," segir Sölvi, "er að það er hægt að sampla allt saman, eins og áðan var Richard að skratsja gamla Rickshaw plötu." Hann verður hugsi um stund. "Mér finnst aftur á móti svo skrýtið að það séu til hreinlífishipphopparar, því hipphopp er opnasta tónlistarform sem til er, það er allt hægt," segir hann og bætir við brosandi eftir smá þögn, "það er reyndar fyndið að það sé að koma fram kynslóð hreinlífishipphoppara, lokuð og fordómafull." Richard tekur ekki alveg undir orð félaga síns; "Samt eru krakkarnir hérna miklu betur tjúnaðir en krakkar í Danmörku eða Svíþjóð, þeir fylgjast miklu betur með. Það er fullt af talent í gangi og það er fullt af ungum strákum sem eru að byrja, sem eru að spyrja mig hvernig þeir eiga að byrja. Það er fullt af böndum sem eru að rappa eftir instrumental lögum frá öðrum rappsveitum," segir hann og rifjar upp: "Þetta er eins og rappbandið sem ég var í 1992, sem hét Soul Train Party, STP, við byrjuðum á að búa til lögin, en textarnir komu aldrei, á þeim tíma var ég næstum laminn fyrir að vera hipphoppari," segir hann og dregur upp Rickshaw-plötu sem hann ætlar að skráma fyrir lagið. "Ég vona bara að þessi nýju bönd verði ekki þröngsýn," segir Sölvi, "að þau verði opin fyrir öllu sem er í gangi." Hann rifjar upp þegar hann var að vinna í félagsmiðstöð og kom með rappplötur handa strákunum sem voru að pæla í því að verða rapparar. Þá spilaði hann fyrir þá grunninn, Public Enemy, en það var ekki hægt að hlusta á það, það vara bara Old School og ekkert varið í þetta gamla dót. Sölvi semur grunnana eins og getið er og þeir félagar koma með sitt innlegg ef það er eitthvað eða láta sér nægja að semja textana. Reyndar segist Sölvi yfirleitt fara þá leið að henda út úr lögunum megninu þegar hljóðversvinnan hefst; þannig byggðist eitt Switchstance-lagið upprunalega á "að minnsta kosti 33 hljóðum". "Síðan kom Steini með sitt rapp og þegar við Hrannar fórum að hlusta á rappið tókum við út öll eiginlegu hljóðin nema rapp og bít og það virkaði mjög vel," segir Sölvi. Fókusinn er á söngvarann Þeir Quarashi-félagar eru ekki að vinna í milljónahljóðveri með fræga hljóðmenn á tökkunum, eins og "feitu karlarnir" buðu þeim og Sölvi segir að hann hefði ekki getað hugsað sér að vinna plötuna með öðrum en þeim sem komu að stuttskífunni forðum og lítur til Hrannars hljóðmanns sem hefur sig lítt í frammi. "Það eina sem ég lagði upp með var að vinna með öllu því fólki sem við unnum með síðast, ekki að fá eitthvert bransalið til að taka upp eða auglýsingastofu til að gera umslagið. Þetta vinnst hægt en vel, við vorum lengi í gang, það gerðist ekkert fyrstu vikuna og svo þurftum við að gera lögin fyrir Blossa í millitíðinni og Krókódílamanninn. Það er ekkert hægt að flýta sér með þetta, fókusinn er bara á söngvarana og það verður að gera þetta vel, það verður að láta það ganga upp í pottþéttum takti, það þýðir ekki að láta eitthvert bullshit fara frá sér, það verður að gera þetta vel." Eins og getið er vakti stuttskífan góða mikla hrifningu, seldist reyndar upp á skömmum tíma og þar sem þeir félagar neituðu staðfastlega að framleiða fleiri eintök leið ekki á löngu að hún var farin að ganga kaupum og sölum á háu verði. Ekki er langt síðan menn fréttu af því að eintak hefði verið selt á 10.000 krónur og þeir hlæja mikið þegar sú saga er rifjuð upp, enda eiga þeir yfirleitt ekki eintök sjálfir; Steini á reyndar eintak og systir Richards á eitt líka, en Hössi á ekkert, hann seldi sitt fyrir bjórkippu. "Það var freisting að pressa meira," segir Sölvi, "ég er ánægður með að við skyldum ekki hafa látið undan þeirri pressu. Þetta var reyndar á góðum tíma fyrir smáskífur, en sá tími er liðinn, þær eru orðnar of ódýrar til að hægt sé að endurtaka þetta." Íslenskuspursmálið er stóra spurningin Þeir Quarashi-menn fóru af stað í hljóðverinu með þrettán lög í farteskinu. Þeir stefna að því að frumgerð plötunnar verði að minnsta kosti vel á annan klukkutíma hver svo sem endanleg gerð hennar á eftir að vera. "Við getum kannski skorið niður þegar við förum að mixa." Þeir sem ekki eiga smáskífuna margumræddu eða hafa ekki efni á að kaupa hana á svörtu geta glaðst yfir því að lögin af Switchstance eru á plötunni, reyndar allmikð breytt. Það verður því þriðja útgáfan af titillagi plötunnar, því þeir félagar hafa áður "endurbætt" það, léttu það og mýktu. Það hljómaði reyndar afskaplega illa og þeir taka hjartanlega undir það, gretta sig og líta undan; ljúka upp einum rómi um að safnplötuútgáfan af Switchstance hafi verið ömurleg. Íslenskuspursmálið er stóra spurningin þegar íslenska rappsveit ber á góma; er hægt að kalla hana íslenska nema rappað sé á íslensku? Þeir taka undir það, segja reyndar að íslenskan hafi þvælst fyrir þeim þar til þeir tóku til við að semja íslenskan texta og komust að því að það var miklu auðveldara en að semja á ensku. "Auðvitað kunnum við íslensku miklu betur en ensku og því er auðveldara að semja á hana, maður þarf ekki að leita eins lengi að orðum," segir Steini. Sölvi tekur undir það, með þeim varnagla þó að hann hefur ekki heyrt lagið eftir að upptökum lauk; það bíður á bandinu og kannski gefst tími til að hlusta á það seinna um kvöldið. "Upptökurnar á því voru skemmtileg sessíon, við vorum með það á hreinu að þetta myndi aldrei fucking virka, og svo var víbringurinn að þetta væri að verða svolítið flott og svo allt í einu small allt saman og varð ógeðslega flott," segir hann og Steini bætir við: "Þetta er miklu erfiðara en það er ótrúlega skemmtilegt. Það hefur enginn rappað á íslensku undir rapptónlist og við höfum því ekkert til að hlusta á og heyra hvað aðrir eru að gera vitlaust." "Við þurftum líka að passa að þetta væri ekki eitthvert popplag með kórus, völdum eitt þyngsta lagið til þess að engum dytti í hug að við værum að gera eitthvert sellout," segir Sölvi. Eina vandamálið við að semja á íslensku er að það er betra að rappa enskuna, "hún flowar betur en íslenskan". Áreksturinn alvarlegi Hér blandar Hössi sér í umræðurnar: "Það er kannski gömul lumma, en íslenskan er eins og þýskan, ég hef aldrei heyrt gott þýskt rapp, þú þarft að leita lengi að réttu orðunum og þá nærðu kannski ekki merkingunni í því sem þú vilt koma áleiðis. Við höfðum samt að metnaði að hafa að minnsta kosti eitt lag á íslensku og helst tvö." Væntingar eftir plötu þeirra Quarashi-manna eru miklar, meiri reyndar en dæmi eru um íslenska hljómsveit í langan tíma, en þeir segjast reyna að taka því létt, plötuvinnan hafi tekið sinn tíma og verið mikil vinna "en það hvílir samt ekki þungt á okkur. Það hefur allt gengið vel þó það hafi komið árekstrar, sumir alvarlegir," segir Sölvi en þagnar skyndilega, hefur sagt of mikið og félagar hans brosa í kampinn. Ekkert þýðir að ganga á þá hver áreksturinn alvarlegi var, fara undan í flæmingi eða svara út í hött; greinilega viðkvæmt mál. Sölvi segir eins og til að afsaka atburð sem þeir félagar vilja ekki segja frá: "Það er bara geðveikt álag að taka upp plötu, ég hef gert það áður og það var bara pís of keik, bara að spila inn, söngurinn tekinn í einu lockouti og síðan mixuð tólf lög á tólf tímum. Þetta er miklu meiri vinna og erfiðari, en þó við séum lokaðir inni býr fólk í húsinu og við megum ekki vera með læti á nóttunni; neyðumst sem betur fer til að fara heim." Fer ekki á milli mála að menn eru farnir að þreytast, búnir að vera í hljóðverinu frá því seinni partinn og fram á nótt og eftir nokkrar umræður um tónlist, hvort rappið sé pönk og gömlu refirnir búnir að vera dettum við inn í samræður um skeitara, flow og þrísixti, hvor sé betri Tony Hawk eða Neil Hendrix og hversu gríðarlega ólíkan stíl skeitarar hafa, hvernig flowið hjá þeim er ekki ósvipað flowinu hjá röppurum. Eftir að spjallið og vinnan hefur leyst upp í rugl, ákveður Sölvi að nóg sé komið og vill fá að heyra "íslenska lagið". Hrannar setur það í gang og við hlustum af andakt; Bítlarnir koma í heimsókn í upphafsstefinu en síðan er það frumlegt íslenskt rapp; byltingarkennt í þéttri taktsúpu kryddaðri með breikbíti og rokkfrösum. Afbragðs lag og þeir Steini og Hössi fara á kostum. Þegar lagið er búið snýr Sölvi sér að Hössa og segir hugsi: um hvað er þessi texti eiginlega? Hössi yppir öxlum. Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir Þá kom Stefán Ingólfsson og bjargaði okkurÞétt taktsúpa krydduð með breikbíti og rokkfrösum