7. desember 1997 | Sunnudagsblað | 2094 orð

Hverjir eru bestir?

Handboltakappinn Sigurður Sveinsson hefur fyrstur orðið og segir hér frá lyfjaprófi sem Alfreð Gíslason lenti eitt sinn í: Okkur þótti alltaf svolítið fyndið að lenda í dóptesti, hafandi í huga við hvers konar heraga við bjuggum hjá Bogdan.

Hverjir eru

bestir?

Bókaútgáfan Hólar hefur nýverið sent frá sér bókina Hverjir eru bestir? Í henni er að finna fjölmargar gamansögur af íslenskum íþróttamönnum í nánast öllum íþróttagreinum og ættu því allir að geta fundið þar eitthvað við hæfi. Ritstjórar bókarinnar eru Guðjón Ingi Eiríksson og Jón Hjaltason , en þeir stóðu einnig að baki bókanna Þeim varð á í messunni og Þeim varð aldeilis á í messunni.

Handboltakappinn Sigurður Sveinsson hefur fyrstur orðið og segir hér frá lyfjaprófi sem Alfreð Gíslason lenti eitt sinn í :

Okkur þótti alltaf svolítið fyndið að lenda í dóptesti, hafandi í huga við hvers konar heraga við bjuggum hjá Bogdan. Á undirbúningstímanum fyrir mót mátti enginn neyta áfengis, svo ég tali nú ekki um eitthvað annað og verra. Og ekki slaknaði á aganum þegar í mótið sjálft var komið.

Svo var það í B-keppninni '89, eftir leikinn við Sviss, að númerið hans Alla Gísla (Alfreðs Gíslasonar) kom upp úr hatti dóptestaranna, ásamt númeri svissneska markmannsins.

Það er ekki einfalt mál að fara í svona athugun. Maður þarf að pissa glasið fullt í einni bunu. Ef það tekst ekki og glasið fyllist ekki nema að tveimur þriðju þarf að byrja aftur. Þetta er grundvallaratriði að ekki má fylla glasið í tveimur eða fleiri bunum, þetta verður allt að koma úr skinnsokknum í einni buni, annað er ómark. Alli hafði alltaf átt erfitt með þetta og orðið að nýta sér bjórinn sem jafnan var hafður til taks þar sem prófunin fór fram.

Um áttaleytið erum við komnir heim á hótel en ekkert bólar á Alla. Líður svo og bíður. Klukkan ellefu áttu allir að vera komnir í rúmið og enn er Alli ekki kominn. Klukkan langt gengin í eitt eftir miðnætti kemur hann loksins með svissneska markmanninn á öxlunum, steinsofandi. Alli hafði þá drukkið 16 bjóra áður en nokkuð gerðist ­ en síðan var hann kjörinn besti maður mótsins.

Árið 1964 tóku KR-ingar þátt í sinni fyrstu Evrópukeppni í knattspyrnu. Léku þeir gegn enska liðinu Liverpool, sem þá var einnig að stíga sín fyrstu skref í þeirri keppni. Þegar KR-ingarnir voru í Liverpool gistu þeir á sama hóteli, og reyndar á sömu hæð, og stórhljómsveitin Rolling Stones. Fylgdi hljómsveitinni mikill skari áhangenda sem hafðist við fyrir utan hótelið í þeirri von að berja goðin augum. Það var einmitt þá sem einum KR-ingnum, Heimi markverði Guðjónssyni, datt í hug að leika eilítið á þessa æstu aðdáendur. Brá hann fingrum gegnum hár sitt, labbaði því næst vel úfinn út á svalir og rak upp þetta feikna öskur. Trylltist þá lýðurinn fyrir neðan svo um munaði, enda var í fyrstu talið að þarna væri enginn annar en Mick Jagger, aðalmaðurinn í Rolling Stones, á ferð. Á hæla Heimis kom hins vegar Bjarni nokkur Felixson, lítt stórhljómsveitarlegur á að líta, og sló þá algjörri þögn á mannskapinn, en síðan heyrðist frá einni stúlkunni:

"Oj! It's the footballers!"

Hermann Gunnarsson, sem við þekkjum öll sem Hemma Gunn, var um nokkurra ára skeið íþróttafréttamaður ríkisútvarpsins. Hann er manna hressastur og skortir sjaldnast orð þegar lýsa þarf mönnum eða atburðum.

Einhverju sinni var Hemmi að lýsa körfuknattleik og sagði þá meðal annars:

"Það er ótrúlegt að horfa á þessa ungu stráka og engu líkara en að þeir hafi fæðst með boltann í höndunum."

Eftir smáþögn bætti Hemmi við:

"Það hefur ábyggilega verið erfitt fyrir mæðurnar."

Það var í knattspyrnuleik á Vallagerðisvelli í Kópavogi. Blikinn Vignir Baldursson lendir í hörkunávígi við andstæðing sinn sem hefur betur. Hinn landskunni knattspyrnudómari og lögreglumaður, Grétar Norðfjörð, dæmir ekkert á rimmuna og lætur leikinn halda áfram.

Nokkru síðar blæs Grétar hins vegar með látum í flautuna, kallar Vigni til sín og sýnir honum gula spjaldið. Vignir bregst illur við og segir:

"Hvað á þetta að þýða? Ég sagði ekki eitt aukatekið orð!"

"Ég veit það vel," svaraði Grétar Norðfjörð um hæl, "en ég sá augnaráðið."

Akureyringurinn Gunnar Níelsson var eitt sinn að lýsa leik Leifturs við ónefnda andstæðinga í beinni útsendingu á Bylgjunni. Varð honum tíðrætt um að Radko Mladic væri langbesti leikmaður Norðanmanna. Það var ekki fyrr en undir lok leiksins að einhver benti Gunnari á að umræddur maður væri hershöfðingi og eftirlýstur stríðsglæpamaður, sem hefði aldrei til Íslands komið, og vísast aldrei spilað knattspyrnu heldur ­ leikmaðurinn héti hins vegar Slobodan Milisic.

Stefán Hallgrímsson tugþrautarkappi rak um árabil líkamsræktarstöð. Eitt sinn komu til hans frakkaklæddir menn, með skjalatöskur undir hendi og ábúðarmiklir á svip. Þeir kynna sig og segjast vera komnir til að athuga um vaskinn.

"Hann er þarna," svarar Stefán og bendir þeim út í horn þar sem gat að líta slitinn vask. "Og hann lekur."

Hinn eldhressi Lárus H. Jónsson er ávallt kynnir á heimaleikjum Aftureldingar í handbolta. Hann var hér á árum áður nokkuð liðtækur knattspyrnumaður og hefur meðal annars afrekað það að skora mark í öllum fjórum deildum Íslandsmótsins. Lárus, eða Lalli eins og hann er kallaður, glímir nú við MS-sjúkdóminn en hefur þó síður en svo misst skopskynið. Nú að honum:

"Ég fer í nálastungur með reglulegu millibili vegna þess sjúkdóms sem á mig herjar. Vinur minn Örn sér um stungurnar og hefur hann aðsetur á hæðinni fyrir ofan Garðsapótek í Reykjavík. Tröppurnar upp á stofuna til hans eru mér frekar erfiðar og nýt ég því gjarnan aðstoðar dóttur minnar þegar að meðferð kemur.

Svo var það eitt sinn, er við feðginin vorum að feta okkur upp tröppurnar og fórum afar hægt, að séra Pálmi Matthíasson verður á vegi okkar. Prestinum heilsaði ég að sjálfsögðu en sagði síðan:

"Þú sérð það, Pálmi minn, að ég mun aldrei komast á þessum fótum til himna."

Klerkur var ekkert að taka undir þetta, heldur svaraði að bragði:

"Hafðu ekki áhyggjur af því, góði. Það er komin lyfta!"

Og næst að landsliðsþjálfara okkar í handbolta, Þorbirni Jenssyni:

Einhverju sinni á Bogdantímanum var haldinn svokallaður krísufundur til að hreinsa andrúmsloftið í landsliðshópnum. Þungt hafði verið í leikmönnum og áttu þeir nú að segja hug sinn. Enginn vildi þó byrja, en eftir nokkra stund, hrekkur upp úr Alfreð Gíslasyni:

"Ég vil fá annan hornamann í vinstra hornið."

Guðmundur Guðmundsson, góðvinur Alfreðs, hafði spilað í þeirri stöðu og því skildi enginn hvað Alli var að fara, þangað til hann bætti við:

"Það er orðið svo leiðinlegt að gefa niður á Gumma. Hann er svo lítill."

Eftir þetta gátu allir tjáð sig.

Sumarið 1986 lentu þeir upp á kant hvor við annan, hinn góðkunni dómari Eyjólfur Ólafsson og Sigurbjörn Viðarsson, varnarjaxlinn í Þór á Akureyri. Tildrögin voru þau að einhverju sinni var Eyjólfur á línunni er Þór var að spila. Heyrðist honum þá Sigurbjörn uppnefna sig apa. Þetta reyndist þó misskilningur en eitthvað sat þetta í Þórsaranum. Skömmu síðar átti Eyjólfur að dæma einn leikja Þórs. Vindur Sigurbjörn sér þá að honum og spyr:

"Viltu banana?"

Guðbjörn Jónsson, sem lengi lék knattspyrnu með KR og þjálfaði síðan þá röndóttu, á að venju góða spretti. Hér kemur einn:

Meistaraflokkur KR varð bikarmeistari undir minni stjórn 1966. Eftir úrslitaleikinn fögnuðum við eins og vera ber; komum saman og borðuðum og héldum því næst út á lífið. Ég hafði reyndar ætlað heim til konu minnar eftir matinn, en strákarnir tóku það ekki í mál og heimtuðu að ég kæmi með þeim í djammið. Og ég lét undan. Fyrsti viðkomustaðurinn var Mímisbar á þriðju hæð Hótel Sögu, flottur bar með útsýni yfir Vesturbæinn. Eftir dágóða stund þar vildu menn reyna fyrir sér annars staðar og því stigum við nokkrir inn í lyftu, ansi þröngt farartæki að mínu mati, og ýttum á hnappinn. Lyftan lokaðist, fór eilítið niður, en síðan . . . stopp. Rafmagnið var farið af apparatinu. Við æptum og kölluðum en enginn varð okkar var. Skömmu síðar heyrðst hins vegar kallað upp lyftugöngin:

"Fer maturinn ekki bráðum að koma?"

Höfðum við þá troðið okkur inn í matarlyftuna og því engin furða þótt rafmagnið segði til sín. "Matarskammtarnir" voru í þyngra lagi í þetta skiptið.

Knattspyrnumenn í ÍBV fóru nokkrar ferðir til Austur-Evrópu, áður en járntjaldið féll, vegna þátttöku í Evrópukeppnum.

Árið 1982 var farið til Póllands og leikið við Lech Poznan. Að leik loknum söfnuðust leikmenn ÍBV saman á einu hótelherberginu til að sletta úr klaufunum. Ekki voru ísskápar í vistarverunum og var því ákveðið að panta klaka upp á herbergi. Sigurlás Þorleifsson, kunnur markahrókur og síðar knattspyrnuþjálfari, tók það að sér enda þóttist hann kunna eitthvað í þýsku, því tungumáli sem helst var hægt að gera sig skiljanlegan á þar í landi kynnu menn ekki pólsku. Eitthvað hefur tungumálakunnátta Sigurlásar þó verið málum blandin, því skömmu eftir að hann hafði beðið herbergisþjónustuna um klakana, renndu tólf leigubílar upp að hótelinu; leigubílar sem gestirnir frá Íslandi höfðu pantað. Ekkert bólaði hins vegar á heitustu ósk ÍBV- manna . . . klökunum.

Jón Óðinn, Ódi, júdóþjálfari á Akureyri, hefur orðið:

Þegar ég var nýbyrjaður að æfa júdó kom hópur reykvískra júdómanna í heimsókn til Akureyrar. Á fyrstu æfingunni stilltu þeir sér upp fyrir framan okkur og máttum við velja hvern við glímdum við. Mér leist nú ekkert á þetta lið, flestir heljarmenni að sjá, utan einn. Hann var lítill og greinilega elstur. Mér til mikillar gleði valdi enginn þann litla, enda taldi ég félaga mína svo sem vera meiri hetjur en svo að þeir færu að níðast á gamalmennum þegar í boði væru yngri kappar. Ég vatt mér að stubbnum og spurði brattur hvort hann þyrði í mig. Hann tók því vel og við glímdum, eða öllu heldur hann glímdi og ég reyndi að halda lífi og fór nú að skilja hvers vegna þessi hafði orðið út undan í valinu. Þetta reyndist vera Halldór Guðbjörnsson, einhver allra mesti nagli sem í júdógalla hefur komið. Ég hef aldrei glímt við hann aftur.

Bogdan Kowalczyk þjálfaði handboltalið Víkings á árunum 1978­1983. Hann var stundvís mjög og krafðist þess sama af leikmönnum sínum. Þó kom það einu sinni fyrir að Bogdan var of seinn á æfingu. Bensíngjöfin á gamla, græna, litla og forljóta Fíatbílnum var því stigin í botn og hvers kyns umferðarmerki virt að vettugi. Á gatnamótum Höfðabakka og Vesturlandsvegar ætlaði Bogdan að lauma sér yfir á rauðu ljósi. Það tekst þó ekki betur en svo að stór trukkur með tengivagn aftan í ekur í bókstaflegri merkingu yfir Fíatinn. Ökumanni trukksins var að sjálfsögðu brugðið og taldi að þarna hefði orðið banaslys. Greip hann strax talstöðina og hugðist kalla á sjúkrabíl, en einmitt í þeim svifum skríður Bogdan út úr flakinu, gengur hratt að trukknum og segir á hálfgerðu símskeytamáli:

"Má ekki vera að þessu. Kallaðu á lögguna. Segðu að Víkingur eigi bílinn."

Og þar með var Bogdan rokinn.

Guðjón Guðmundsson, Gaupi, var liðsstjóri hjá Bogdan þegar sá síðarnefndi þjálfaði landsliðið. Segir Gaupi nú frá:

Bogdan reiddist einhverju sinni við mig á landsliðsæfingu í Hafnarfirði. Var karlinn ekkert að tvínóna við hlutina frekar en fyrri daginn, heldur gekk hreint til verks og rak mig. Ég tók þetta alvarlega, fór heim og taldi að þar með væri afskiptum mínum af landsliðinu lokið.

Daginn eftir hringir Bogdan í mig og spyr hvort ég ætli ekki að mæta á æfingu. Ég varð fremur hissa sem vonlegt var og svaraði:

"Nú, var ég ekki rekinn í gær?"

Þá heyrðist í Bogdan:

"Jú, en það þýðir ekki að þú hafir verið rekinn í dag."

Því má svo bæta við að alls rak Bogdan mig sautján sinnum.

Margar skemmtilegar sögur hafa verið sagðar um hinn kunna markvörð Skagaliðsins og landsliðsins hér áður fyrr, Helga Daníelsson og eru þær eflaust bæði sannar og lognar. Hér kemur ein og mega menn geta sér til um sannleiksgildi hennar:

Það var eftir leik Skagamanna, sem tapaðist, að ókunnur maður vatt sér inn í búningsherbergi ÍA og sagði við Helga Daníelsson:

"Ég hef áhuga á þér."

Helgi spyr að bragði:

"Frá hvaða félagi ert þú?"

"Ég?" stundi maðurinn. "Nei, þú misskilur þetta. Ég er augnlæknir."

Og nú slær knattspyrnuþjálfarinn Logi Ólafsson botn í þetta:

Leikmenn ÍA dvöldu eitt sinn á Hótel Örk fyrir Evrópuleik. Þar nutu Skagamenn hinna mestu þæginda og komust meðal annars í greipar nuddkonu sem sá um að mýkja vöðva þeirra fyrir komandi átök.

Þegar Ólafur Þórðarson mætti í nuddið var hann á stuttbuxum einum fata. Nuddkonan biður hann að fara úr þeim og leggjast síðan á bekkinn. Óli verður í fyrstu klumsa en segir svo:

"Ég er ekki í neinu innanundir, ekki einu sinni sundskýlu."

"Það er allt í lagi," svaraði konan, "við nuddum bara hér."

Bókarheiti er Hverjir eru bestir. Ritstjórar Guðjón Ingi Eiríksson og Jón Hjaltason en útgefandi er Hólar. Bókin er alls 187 bls.

ALFREÐ Gíslason í úrslitaleiknum í B-keppninni '89 - kjörinn besti maður mótsins þrátt fyrir að hafa innbyrt 16 bjóra.BOGDAN og Guðjón Guðmundsson á góðri stund sem Pólverjinn rak 17 sinnum.HEMMI Gunn. að störfum.

Hverjir eru bestir?

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.