FÁRRA bíla var beðið með eins mikilli eftirvæntingu á sýningunni eins og nýju Bjöllunnar frá Volkswagen. Bíllinn var kynntur snemma á mánudaginn síðasta frammi fyrir um eitt þúsund blaðamönnum og ef marka má viðbrögð þeirra, hefur nýja Bjallan góða möguleika á að öðlast sama sess í hugum notenda eins og sú gamla.

Nýja Bjallan vekur hrifningu

Alheimskynning á bílasýningunni í Detroit

FÁRRA bíla var beðið með eins mikilli eftirvæntingu á sýningunni eins og nýju Bjöllunnar frá Volkswagen. Bíllinn var kynntur snemma á mánudaginn síðasta frammi fyrir um eitt þúsund blaðamönnum og ef marka má viðbrögð þeirra, hefur nýja Bjallan góða möguleika á að öðlast sama sess í hugum notenda eins og sú gamla.

Hönnun þeirra nýju ber augljósan vott um það takmark Volkswagen að búa til nýja Bjöllu sem þó vekur upp minningar um þá gömlu. En þegar útlitinu sleppir, er fátt sem þessir tveir bílar eiga sameiginlegt. Nýja Bjallan er byggð á grunni Volkswagen Golf bílsins, vélin er nú komin frammí og eins og svo margir aðrir smábílar, er nýja Bjallan framdrifin. Farangursgeymslan er nú komin afturí, og afturglugginn opnast með skottlokinu til að veita góðan aðgang.

Öll nútíma þægindi

Ef gamla Bjallan þótti einföld og fátæk af þægindum, þá er því vandamáli ekki fyrir að fara í nýju útgáfunni. Bjallan sem sett verður á markað í Bandaríkjunum snemma á þessu ári verður með staðalbúnaði eins og loftkælingu, sex hátalara hljómkerfi, samlæsingu með fjarstýringu og þjófavarnarkerfi. Einnig verður hægt að panta ABS bremsur, hraðastýringu, leðursæti og "power windows". En þrátt fyrir nútíma þægindi, hefur hönnuðum nýju Bjöllunnar tekist að halda í ýmis útlitseinkenni þeirrar gömlu. Mælaborðið er keimlíkt því sem var, handfangið fyrir ofan hanskahólfið er enn á sínum stað og eins og í gömlu Bjölluni, þá geta farþegar í aftursæti enn gripið í ólarnar fyrir ofan hliðargluggann. Og alveg eins og þeir muna sem átt hafa Bjöllu, þá fer fremur illa um hávaxið fólk aftur í.

Varð til uppúr hugmyndabíl

Nýja Bjallan varð til upp úr hugmyndabíl Volkswagen, "Concept One", sem kynntur var á bílasýningunni í Detroit fyrir fjórum árum síðan. Að sögn forráðamanna Volkswagen, sem viðstaddir voru kynninguna, stóð aldrei til að sá bíll yrði settur í framleiðslu - viðtökurnar voru hins vegar þvílíkar að fyrirtækið sá sér færi á að endurnýja Bjölluna hér í Bandaríkjunum. Gamla Bjallan er hins vegar enn framleidd í Mexíkó, fyrir markaði í Suður Ameríku. Forráðamenn Volkswagen segja að sala Bjöllunnar muni hefjast í Bandaríkjunum næsta mars. Gert er ráð fyrir því að bílinn komi á markað í Evrópu seint á þessu ári eða snemma á því næsta.MIKILL atgangur var á sýningarsvæði VW þegar nýja Bjallan var afhjúpuð.

NÝJA Bjallan er talsvert stærri en Concept 1 hugmyndabíllinn sem hann er byggður á.

EFST er VW Bjallan gamalkunna, sem enn er framleidd í Mexíkó. Þá kemur Concept 1 hugmyndabíllinn sem sýndur var fyrst í Detroit 1994. Næst neðstur er bíllinn sem var sýndur í Tókíó 1995 og sést að hann hefur tekið nokkrum stakkaskiptum frá hugmyndabílnum. Neðst er síðan bíllinn eins hann mun renna af færiböndum VW.

»Helstu tækniupplýsingar

Vél: 2 lítra, 4 strokka. 115 hestöfl, 1.9 lítra dísil, 4 strokka, 90 hestöfl.

Lengd: 4,09 m.

Breidd: 1,72 m.