GUNNAR hafði samband við Velvakanda og sagðist hann undrandi á því sem hann hefði lesið í frétt í Morgunblaðinu á aðfangadag. Þar segir frá því að bílaumboð hafi verið dæmt til að greiða stefgjöld því spiluð hafi verið tónlist í húsakynnum þess. Er Gunnar undrandi á hljómplötuframleiðendum og tónskáldum að krefjast gjalda af leikinni tónlist í verslunum, bílasölum o.s.frv.

Um stefgjöld

GUNNAR hafði samband við Velvakanda og sagðist hann undrandi á því sem hann hefði lesið í frétt í Morgunblaðinu á aðfangadag. Þar segir frá því að bílaumboð hafi verið dæmt til að greiða stefgjöld því spiluð hafi verið tónlist í húsakynnum þess. Er Gunnar undrandi á hljómplötuframleiðendum og tónskáldum að krefjast gjalda af leikinni tónlist í verslunum, bílasölum o.s.frv. Hann segist hafa haldið að það kæmi þeim til góða að tónlist þeirra heyrðist sem víðast. Segist Gunnar óttast það að erlend tónlist verði allsráðandi ef ekki megi spila íslenska tónlist á almannafæri án gjalda.

Innheimtuseðlar sendir eftir gjalddaga

LESANDI hafði samband við Velvakanda og sagðist hann hafa fengið sendan innheimtuseðil vegna bifreiðaskatts. Fékk hann innheimtuseðilinn 14. janúar en gjalddagi á seðlinum var 1. janúar. Undrast lesandi það að ekki skuli vera hægt að senda innheimtuseðla fyrir gjalddaga hjá hinu opinbera.

Húmoristar

GEÐVEIKI á sér ekki bara neikvæðar hliðar. Hjá mörgum einstaklingum, sem eiga við geðveiki að stríða, leynist oft mikill húmor og listrænir hæfileikar.

Ég get nefnt nokkur skemmtileg dæmi:

Einu sinni var sjúklingur að ganga um spítalann með tannbursta í bandi. Þá kom læknirinn og sagði: "Hvað segir Snati í dag?" "Hvað er þetta, maður," sagði sjúklingurinn, "sérðu ekki að þetta er tannbursti?" Síðan labbaði hann í burtu. Þegar þeir voru komnir smáspöl sagði maðurinn við tannburstann: "Þarna göbbuðum við hann, Snati."

Þessi saga er nú líklega ekki sönn, en hún er jafn skemmtileg fyrir því.

Önnur saga segir af því þegar einn sjúklingurinn hvarf af deildinni. Það var leitað að honum út um allt sjúkrahús og að lokum fannst hann inni í skáp að lesa bók.

Ég nefni þessar sögur sem dæmi um gott skopskyn hjá mörgum þeim sem eiga við geðræn vandamál að stríða, en tek það fram, að ég er ekki að gera grín að þjáningarsystkinum mínum, heldur vil ég sýna fólki að við erum ekki sem verst.

Gígja Thorarensen Tapað/fundið

GSM-sími týndist

BANG og Olufsen GSM sími týndist sl. föstudag á Bíóbarnum eða Grand Rock. Skilvís finnandi hafi samband í síma 552 1019 eftir kl. 18. Sigurjón.

Gullarmband týndist

GULLARMBAND, smelltur baugur með áletrun inní, týndist í ágúst í austurbæ Reykjavíkur. Skilvís finnandi hafi samband í síma 553 8023.

Kápa týndist

GRÆN þunn kápa týndist á leiðinni Laugavegur - Lækjartorg aðfaranótt 13. desember. Skilvís finnandi hringi í síma 551 5201.

Loðhúfa týndist

SVÖRT húfa úr minkaskinni týndist annað hvort við Safamýri eða Starmýri, eða við Fiskbúðina að Vegamótum á Seltjarnarnesi sl. þriðjudag. Húfan var merkt að innan með nafni og símanúmeri. Hafi einhver fundið húfuna er hann vinsamlega beðinn að hringja í síma 561 4641, en það er númerið sem stendur inni í húfunni.

Dýrahald

Kettlingar

ÞRÍR átta vikna, lítillega skógarkattarblandaðir, kettlingar fást gefins á gott heimili. Kassavanir. Upplýsingar í síma 552 3665.

Kettlingar fást gefins

KETTLINGAR fást gefins. Tveir fress og ein læða, kassavanir. Uppl. í síma 554 0798.

Simbi er týndur

SIMBI, sem var í pössun í Engihlíð 16. desember sl. týndist. Hans er sárt saknað. Þeir sem hafa orðið varir við Simba hafi samband í síma 562 5844. Fundarlaun.