Halla Einarsdóttir Elsku amma mín.

Síminn hringdi hjá mér á hótelherberginu í Los Angeles. Agnes mín að láta mig vita að þú hefðir dáið fyrr um kvöldið. Ég var búinn að fá fregnir af því að þú værir ekki sem best til heilsunnar, værir fljót að verða þreytt og vildir vera sem mest heima. En samt var Guð svo góður að lofa þér að vera með fjölskyldunni heima í Hjálmholti alla jóladagana og á gamlárskvöld, en fara heim í rúmið þitt á kvöldin.

Guð var líka svo góður að lofa þér að sofna heima, þegar þinn tími var kominn að sofna hinsta sinn. Þess hafðir þú óskað og beðið svo oft.

Á Dalbrautinni leið þér vel, þar var þitt heimili síðustu ár og þar vildir þú helst vera innan um vini þína. En samt er maður jafn óundirbúinn þegar kallið kemur.

Minningarnar streyma fram. Þú ert búin að vera svo stór hluti af lífi mínu, frá því að passa mig sem ungbarn, þegar foreldrar mínir voru erlendis, í það að vera hluti af lífi drengjanna minna, þegar við komum til Íslands.

Eitt af því fyrsta sem við gerðum var að heimsækja Löngu. Alltaf áttir þú hlý orð og eitthvað í lófa, nú síðustu ár voru það peningar, sem drengirnir máttu kaupa fyrir. Oft höfðu þeir orð á því að Langa ætti alltaf peninga. Ég reyndi af vanmætti að útskýra fyrir þeim að ástæðan væri sú, að þú fórst vel með þá, og beygðir þig eftir smáaurunum. Þú varst búin að lifa tímana tvenna, það getur ekki hafa verið auðvelt þegar að þú varst að alast upp, en Guði sé lof að þá bötnuðu tímarnir og þú lifðir fjölbreyttu lífi. Þú komst í heimsókn til okkar í Lúxemborg og ávallt aufúsugestur, og fleiri ferðir fórst þú, þegar við bræður byggðum okkur sumarhús varst þú svo hrifin að þú tókst af okkur loforð um að við byðum þér í heimsókn. Þú komst í Undraland og var slegið upp veislu, þar sem ættingjar okkar í dalnum komu og nutu þess að eyða með þér góðum dögum. Í seinna skiptið fyrir tveimur árum komst þú aftur til að líta á verk okkar, þá orðin háöldruð. Við komum með stól niður á veg til að bera þig upp allar tröppurnar, nei ég þarf ekkert svona, ég kemst þetta sjálf, og af stað raukst þú með þinn staf og máttum við hafa okkur alla við að verða á undan þér upp. Það sem þú ætlaðir að gera það gerðir þú.

Alltaf gladdist þú með okkur þegar vel gekk eða áttir hlý orð og góðar ráðleggingar þegar miður gekk. Þvílík kona.

Ég þakka fyrir að hafa átt þig svona lengi og fjölskyldan mín þakkar fyrir sig.

Hvíl í friði og megi Guð vera með þér.

Magnús og fjölskylda í Lúxemborg.