FYRR á öldum tíðkuðust lækningaaðferðir sem fólust í því að taka fólki blóð. Tilgangurinn var sá að losa menn við slæma vessa og óhreinindi í blóðinu. Lækningin mun þó hafa látið á sér standa þar sem læknisfræðin var skammt á veg komin og blóðrannsóknir ekki komnar til sögunnar. Fólki er ennþá tekið blóð, en í öðrum tilgangi en áður fyrr.
Meinatækni ­ lykill að lækningu

Margar orsakir geta verið fyrir blóðleysi, segja þær Sigríður Claessen og Bergljót Halldórsdóttir . Greining blóðkorna í smásjá gefur oft vísbendingar þar um.

FYRR á öldum tíðkuðust lækningaaðferðir sem fólust í því að taka fólki blóð. Tilgangurinn var sá að losa menn við slæma vessa og óhreinindi í blóðinu. Lækningin mun þó hafa látið á sér standa þar sem læknisfræðin var skammt á veg komin og blóðrannsóknir ekki komnar til sögunnar. Fólki er ennþá tekið blóð, en í öðrum tilgangi en áður fyrr. Nú er blóðið rannsakað til þess að greina sjúkdóma en það er einmitt oft hægt að gera með því að rannsaka ýmsa þætti í blóðinu. Í blóði eru mörg hundruð efni sem hægt er að mæla, einnig er hægt að telja hvít blóðkorn, rauð blóðkorn og blóðflögur. Til þess að manneskjan geti talist heilbrigð þurfa öll þessi atriði að vera í réttu magni og hlutföllum. Verði röskun á einhverjum þessara þátta, getur það bent til ákveðinna sjúkdóma. Starf meinatækna er að gera þessar rannsóknir og sífellt eru þróaðar nýjar, nákvæmari og áreiðanlegri aðferðir. Niðurstöður mælinganna eru notaðar til sjúkdómsgreiningar og einnig til að fylgjast með gangi sjúkdómsins eftir að meðferð er hafin. Þegar einstaklingur finnur til sjúkleika og vanlíðunar og leitar til læknis er hann gjarnan sendur í blóðprufu. Oftast er byrjað á að gera almenna blóðrannsókn. Í henni felst að talin eru hvít blóðkorn og greindar tegundir þeirra. Með því má t.d. sjá hvort um sýkingu sé að ræða og þá hvort hún sé af völdum baktería eða veira. Þetta skiptir miklu máli við lyfjagjafir því sýklalyf gagna ekki í veirusýkingum. Meinatæknar þurfa líka að geta greint í blóðinu óþroskuð hvít blóðkorn sem geta gefið til kynna mergsjúkdóma eins og hvítblæði en meinatæknar eru oft fyrstir til að greina slík tilfelli. Almenn blóðrannsókn veitir líka upplýsingar um magn hemóglóbíns (blóðrauða). Hemóglóbín er sameind sem flytur súrefni til vefja og koltvísýring út úr líkamanum. Magn hemóglóbíns er gefið upp í grömmum í lítra af blóði en var áður gefið upp í prósentum. 148 grömm af hemóglóbíni í einum lítra blóðs samsvara 100% samkvæmt eldri túlkun. Ef skortur er á hemóglóbíni er talað um blóðleysi. Margar orsakir geta verið fyrir blóðleysi og gefa niðurstöður úr almennu blóðrannsókninni ásamt greiningu blóðkorna í smásjá oft vísbendingar þar um. Rauðu blóðkornin eru einnig skoðuð í smásjá, metin stærð, lögun og þroski þeirra. Ýmis frávik frá því eðlilega geta gefið til kynna sjúkdóma. Lítil og föl rauð blóðkorn benda t.d. til blóðleysis af völdum járnskorts en of stór rauð blóðkorn til blóðleysis vegna skorts á B12 vítamíni eða fólinsýru. Ýmis afbrigði í lögun rauðra blóðkorna geta einnig gefið til kynna ákveðna sjúkdóma. Smásjáin er því veigamikið tæki í sjúkdómsgreiningu. Talning á blóðflögum telst einnig til almennrar blóðrannsóknar en hlutverk þeirra er að taka þátt í storknun blóðsins. Mikilvægt er að fjöldi þeirra sé eðlilegur því skortur á þeim getur leitt til blæðinga.

Meinatæknar hafa víðast hvar rafræna blóðmæla sér til aðstoðar til að gera þessa almennu rannsókn á blóði enda eru meinatæknar sérhæfðir til að vinna með slík tæki. Blóðmælingatæki verða sífellt fullkomnari, hraðvirkari og ódýrari. Allar heilsugæslustöðvar ættu því fljótlega að geta veitt þessa verðmætu þjónustu. Það yrði stórt skref til bættrar þjónustu við sjúklinginn og ætti að flýta réttri sjúkdómsgreiningu og meðferð.

Höfundar eru kennslumeinatæknar á Rannsóknastofu í blóðfræði, Landspítalanum.

Sigríður Claessen

Bergljót Halldórsdóttir