Ólafur Thors var sá stjórnmálaforingi íslenskur sem mest afgerandi áhrif hafði á framvindu landhelgismálanna á sinni tíð. Árið 1946 réð Ólafur Hans G. Andersen til starfa í utanríkisráðuneytinu, en hann var þá nýkominn heim frá framhaldsnámi í þjóðarrétti, og fól honum að vinna að undirbúningi frumvarpsins að landgrunnslögunum 1948.


Lausn landhelgisdeilunnar 1961

Ólafur Thors var sá stjórnmálaforingi íslenskur sem mest afgerandi áhrif hafði á framvindu landhelgismálanna á sinni tíð. Árið 1946 réð Ólafur Hans G. Andersen til starfa í utanríkisráðuneytinu, en hann var þá nýkominn heim frá framhaldsnámi í þjóðarrétti, og fól honum að vinna að undirbúningi frumvarpsins að landgrunnslögunum 1948. Ólafur gaf út reglugerðina 1950 um verndun fiskimiða fyrir Norðurlandi og síðan reglugerð um útfærsluna 1952, en þá stækkaði landhelgin um 75%. Ólafur átti stærstan þátt í afnámi löndunarbannsins í Bretlandi 1956 sem hlotist hafði af útfærslunni 1952. Ólafur hafði að lokum forystu um að gengið var til samninga við Breta 1961 sem tryggðu Íslendingum 12 sjómílna landhelgi. Í ævisögu Ólafs eftir Matthías Johannessen segir ítarlega frá öllum þessum afskiptum Ólafs.

Hér fer á eftir frásögn bókarinnar af lausn landhelgisdeilunnar 1961. Þessi frásögn Matthíasar geymir í hnotskurn allar hliðar landhelgismálsins eins og þær birtust í hinum ýmsum "þorskastríðum": Átökin á miðunum við Breta, hina erfiðu aðstöðu Breta heimafyrir, alþjóðlega hlið baráttunnar, mikilvægi einkaviðræðna íslenskra ráðamanna við breska forsætisráðherra, þýðingu málsins fyrir framtíð Íslands, hinn mikla hita sem var í stjórnmálabaráttunni hér heima, æsinguna og taugaveiklunina sem greip um sig meðal þjóðarinnar, og kynt var undir af ýmsum hvötum, og nauðsyn þess að hófsemdarmenn hefðu sig í frammi svo málavextir væru ekki affluttir.

Vegna plássleysis hef ég orðið að stytta frásögnina allnokkuð og skal þeim sem vilja fyllri frásögn vísað á bls. 317-328 í Ólafs sögu.

Jakob F. Ásgeirsson

ÞEGAR Viðreisnarstjórnin settist að völdum, lagði Ólafur Thors áherzlu á, að deilan við Breta um 12 mílna fiskveiðilögsöguna magnaðist ekki. Vonir stóðu til, að málið yrði til lykta leitt á Genfarráðstefnunni 1960, en það varð ekki. Bretar höfðu kvatt flota sinn í burt af Íslandsmiðum um sinn fyrir Genfarráðstefnuna, ef það mætti verða til að greiða fyrir lausn. Og eftir ráðstefnuna gáfu íslenzk stjórnvöld brezkum togaramönnum upp sakir. Í fyrstu viku maí dró til tíðinda út af Vestfjörðum og Hvalbak við suðausturströndina, þegar brezkir togarar reyndu að toga fyrir innan 12 mílna mörkin, en skipherrarnir á brezku herskipunum þremur lásu upp boðskap frá flotamálaráðuneytinu, og segir Morgunblaðið í stórri forsíðufrétt, að skipherrann á freigátunni Palliser, sem var út af Vestfjörðum, hafi komizt svo að orði, að brezka flotamálaráðuneytið hafi komið til móts við íslenzku ríkisstjórnina og banni öllum brezkum togurum að veiða innan 12 mílna markanna, þar sem íslenzk stjórnvöld hafi sýnt þeim "þá vinsemd að gefa þeim upp allar sakir og leyfa þeim að nýju að sigla innan landhelginnar og leita hafnar eða vars ...". Jafnframt hafi skipherrann ströng fyrirmæli um "að kæra hvern þann ykkar, sem brýtur fyrirmæli stjórnarinnar". Togaramenn brugðust hinir verstu við þessum tíðindum og hótuðu verkfalli og löndunarbanni, ef þeir fengju ekki a.m.k. að veiða upp að 6 mílum og stóð Dennis Welch, formaður félags yfirmanna í Grimsby, fyrir þessum mótmælum. Samþykkt yfirmanna kom togaraeigendum á óvart og J.R. Cobley, varaforseti samtaka brezkra togaraeigenda, fordæmdi aðgerðir yfirmanna á togurum í Grimsby, og 12. maí lýsti hann yfir því, að togaraeigendur hefðu ákveðið að láta togara sína ekki veiða innan 12 mílnanna næstu þrjá mánuði. Þeir vildu með þessu reyna að koma í veg fyrir árekstra á Íslandsmiðum, en mundu endurskoða afstöðu sína að þremur mánuðum liðnum. Cobley skýrði frá þessari ákvörðun eftir fund með John Hare, fiskimálaráðherra Breta. Miklar umræður urðu um þessi tíðindi og harðar deilur í brezka þinginu um ákvörðun stjórnarinnar. En nú máttu brezkir togarar sigla innan 12 mílnanna með búlkuð veiðarfæri, leita vars og setja veika menn á land í íslenzkum höfnum.

Nú urðu nokkur þáttaskil í þorskastríðinu við Breta. Hver atburðurinn rak annan, hik kom á togaramenn, og Bretar fengu nýtt áhyggjuefni, því að Halvard Lange, utanríkisráðherra Norðmanna, lýsti yfir því í norska Stórþinginu 13. maí, að Norðmenn hygðust færa fiskveiðilögsögu sína út í 12 sjómílur, þar eð hafréttarráðstefnan í Genf hafi farið út um þúfur. Lange sagði, að ekki væri verjandi að draga útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Noreg eins og hann komst að orði. Heima í Bretlandi voru yfirmenn á togurunum nú jafnvel reknir fyrir að fara inn fyrir 12 mílurnar. ...

Nýir árekstrar urðu þó á miðunum sumarið 1960 og það svo alvarlegir, að litlu munaði, að stórslys hlytust af.

Bjarni Benediktsson segir í æviágripi sínu um Ólaf Thors, að ákveðið hafi verið "innan ríkisstjórnarinnar að gera úrslitatilraun um að koma sáttum á og leitast í því skyni fyrir um fund forsætisráðherra beggja þjóða, þeirra Harolds Macmillans og Ólafs Thors". Þessi fundur varð í september 1960, þegar Macmillan hélt vestur um haf og áttu þeir Ólafur langt samtal á Keflavíkurflugvelli sunnudaginn 25. september. "Vann Ólafur þar Macmillan til skilnings á nauðsyn okkar, þótt enn væri eftir að semja um einstök atriði. Með þessu samtali var grundvöllur lagður að lausn málsins og þar með að einum stærsta stjórnmálasigri Íslendinga." ...

Macmillan var á leið á fund Sameinuðu þjóðanna með fríðu föruneyti. Meðal þeirra, sem voru í ferðinni með honum, var Mason, sem hafði með íslenzkt málefni að gera í brezka utanríkisráðuneytinu. Hann varð eftir á Íslandi, fór til Bretlands daginn eftir, en kom aftur til landsins næsta föstudag með brezku samninganefndinni, sem átti að hefja viðræður við Íslendinga.

Forsætisráðherrarnir sátu einir að snæðingi og ræddust við í lítilli stofu syðst í Keflavíkurhótelinu, sem kölluð er "svítan". Að tæpum tveimur klukkustundum liðnum, gengu þeir út að flugvélinni ásamt fylgdarliði Macmillans. Áður en hann fór af landi brott, ávarpaði hann blaðamennina og sagði:

"Mér þykir vænt um að hafa getað komið hér við á leið minni til New York og hitt Ólaf Thors, forsætisráðherra Íslands. Ég er þakklátur honum fyrir framúrskarandi gestrisni. Við áttum saman einkar gagnlegar viðræður um samskipti okkar og vandamál. Íslendingar eru gamlir vinir Breta og nú bandamenn, og ég vona, að þær viðræður, sem við höfum átt í dag, stuðli að því að ráða fram úr helztu vandamálum í sambúð landa okkar. Við óskum hvor öðrum góðs. Við erum vinir, og við viljum vera vinir framvegis, og ég hygg, að það, sem við höfum getað sagt hvor öðrum í dag, muni stuðla að því, að sú langa vinátta haldist." ...

Því má bæta við, að Macmillan kvaddi Ólaf Thors með þessum orðum á Keflavíkurflugvelli: "When I think of this matter I will remember your face [Þegar ég hugsa um landhelgisdeiluna, sé ég yður fyrir mér]."

Ólafur Thors fór að heimsókn Macmillans lokinni með blaðamennina upp á loft í flugvallarhótelinu og sagði þá á fundi með þeim:

"Mér var mikil ánægja að hitta forsætisráðherra Breta, Mr. Macmillan, þann mikilsverða mann, sem eins og allir vita er einn helzti forystumaður vestrænna velda og sá sem margir mæna til sem sáttasemjara milli austurs og vesturs. Hann skýrði fyrir mér sjónarmið sín í sumum flóknustu vandamálum veraldarinnar, auk þess ræddum við að sjálfsögðu deilumál þjóða okkar út af landhelginni. Enginn mun vænta þess, að svo örðug deila verði leyst í stuttum viðræðum. Hitt vita allir, að persónuleg viðkynning og vinsamlegar, einlægar viðræður greiða alltaf götu sáttanna. Ég fagna því að hafa fengið tækifæri til þess að hitta forsætisráðherra Breta og skýra íslenzk sjónarmið fyrir honum, en get að sjálfsögðu að svo stöddu ekkert sagt um sáttahorfur í málinu."...

Ólafur Thors sagði við fréttamann Morgunblaðsins, höfund þessa rits, að Macmillan hefði sagt, að hann væri Skoti og hann héldi, að það væri "ákaflega margt sameiginlegt með Skotum og Íslendingum". Ólafur Thors kvaðst hafa sagt Macmillan, að Íslendingar væru komnir af Norðmönnum og Írum. Macmillan sagði: "Já, Írum, þá skil ég ykkur betur."

Í þingræðu, sem Ólafur Thors flutti eftir að samið hafði verið við Breta, minntist hann á samtöl þeirra Macmillans og komst þá m.a. svo að orði:

"Í haust, þegar forsætisráðherra Breta, hr. Macmillan, samkvæmt ósk íslenzku ríkisstjórnarinnar, kom við á Íslandi á leið sinni til New York, átti ég við hann nokkurra stunda viðtal. Við ræddumst við einir og af fullri hreinskilni. Ein af þeim myndum, sem forsætisráðherrann þá brá upp fyrir mér, var af brezku togaramönnunum. Hann sagði eitthvað á þá leið, að þeir væru kjarni enska sjóliðsins, sem ætti hvað veigamesta þáttinn í því, að Bretar og bandamenn þeirra unnu báðar heimsstyrjaldirnar. Þessir menn væru því hans og margra annarra uppáhald, sem brezka þjóðin og raunar allur hinn frjálsi heimur stæði í þakkarskuld við. Öll skerðing á afrakstrinum af starfi þeirra ylli því brezkum stjórnarvöldum miklum sársauka." Þá hafi Macmillan rökstutt það sjónarmið, að meðan Bretar viðurkenndu ekki 12 mílna fiskveiðilögsöguna bæri stjórn hans skylda til að koma í veg fyrir, að brezkir togarar væru teknir í landhelgi og skipstjórum refsað. "Frá brezku sjónarmiði hefðu þeir ekki brotið af sér og Íslendingar gætu ekki með sanngirni krafizt þess, að Bretar beygðu sig fyrir einhliða ákvörðunum um, að Íslendingar helguðu sér úthafið sem einkaeign og vildu ekki svo mikið sem ræða málið við Breta. Ég vona, að ég brjóti ekki þagnarheit, þótt ég nú að leikslokum greini frá þessum hluta af okkar löngu viðræðum. Mín gagnrök skipta Íslendinga minna. Þau eru öll kunn. En mesta áherzlu lagði ég á þetta:

Ég tel aðgerðir Íslendinga reistar á lögum og rétti. Að minnsta kosti kann ég engin lög og engar reglur, sem banna 12 mílna fiskveiðilandhelgi. En hvað sem því líður, hvort heldur mannanna lög eru með okkur eða móti, þá eru guðs lög með okkur, þ.e.a.s. helgur réttur lítillar, dugmikillar menningarþjóðar til þess að lifa frjáls og öðrum óháð í landi sínu. Og þennan rétt má enginn skerða, meðan við höfum dug og áræði til þess að berjast við vetrarmyrkur, storma og stórsjói og sækja í greipar Ægis þá fjármuni, sem 180 þúsund sálir þurfa til að lifa menningarlífi í stóru landi!"

Íslenzka ríkið sé tilraun minnstu þjóðar veraldar til að lifa menningarlífi á borð við stórþjóðirnar. Einstök tilraun í veraldarsögunni ­ "tilraun, sem mundi heppnast, ef við kynnum fótum okkar forráð og ef ekki yrði framið innbrot í fjárhirzlu okkar, þ.e.a.s. fiskveiðilandhelgina". Allir Íslendingar vissu, að deilan stæði um landauðn eða landhelgi ­ vígorð, sem Ólafur Thors hafði áður notað. Hann kvaðst ekki mundu rekja frekar viðræður við forsætisráðherra Breta. En þó vildi hann minna á mikilvægt starf annarra íslenzkra ráðherra, sakaruppgjöf dómsmálaráðherra að aflokinni Genfarráðstefnunni og viðræður á vegum NATO, t.a.m. þegar Guðmundur Í. Guðmundsson, utanríkisráðherra, ræddi málið við utanríkisráðherra Breta, Sir Alec Douglas- Home, rétt fyrir áramótin, en þeir Guðmundur hittust á NATO-fundi í París í desembermánuði. Þetta hefði átt "ómetanlegan þátt í þeirri prýðilegu lausn, sem nú hefur náðst". Enginn vafi er á því, að allar þessar viðræður hafa haft mikil áhrif í þá átt að leysa fiskveiðideiluna milli Íslendinga og Breta og ekki sízt átti Atlantshafsbandalagið verulegan hlut að þeirri lausn, eins og fram kemur í ævisögu Spaaks, framkvæmdastjóra þess og víða annars staðar. ...

Samtal Ólafs Thors og Macmillans varð örlagaríkara fyrir stjórnmálaþróun á Íslandi en slík samtöl eru oftast nær, a.m.k. leiddi það til þess, að lausn fékkst á fiskveiðideilu Breta og Íslendinga og samningur þess efnis var lagður fyrir sameinað þing 27. febrúar 1961 sem fylgiskjal með tillögu til þingsályktunar um lausn fiskveiðideilunnar, en þar var farið fram á heimild Alþingis til að ganga frá málinu á grundvelli samkomulagsins. Landhelgissamningurinn við Breta var svo undirritaður 11. marz 1961, en áður höfðu farið fram á Alþingi miklar og heitar umræður um hann, enda var samningurinn áhorfsmál að margra dómi og mikið um hann deilt bæði í blöðum og manna á meðal. ...

Þegar samkomulagið hafði verið gert..., datt engum Breta í hug, að minnast á, að Íslendingar hefðu gert við þá "nauðungarsamning", hvað þá að Bretar hefðu farið með sigur af hólmi. Síður en svo. Fyrrnefndur Dennis Welch sagði, að samkomulagið væri óaðgengilegt fyrir Breta, og þingmaður Grimsby, íhaldsmaðurinn Cyril Osborne, sagði á fundi með togaramönnum, að lausn deilunnar væri mikið áfall fyrir togaraútgerð í Grimsby. Þingmaðurinn gerði ráð fyrir, að togaramenn í Bretlandi misstu þriðjung tekna sinna vegna samkomulagsins, enda hefur komið á daginn, að togaraútgerð í Grimsby er gjaldþrotafyrirtæki. Yfirleitt sáu Bretar enga skímu framundan, þegar lausn landhelgisdeilunnar var til umræðu.

Þrátt fyrir þetta var því haldið fram, að samningurinn við Breta hafi verið "nauðungarsamningur". Í umræðum á Alþingi um samninginn var því jafnvel lýst yfir, að í honum fælist ekki viðurkenning Breta á 12 sjómílna fiskveiðilögsögu Íslands. Málinu var þá skotið til lagadeildar Háskóla Íslands, og staðfesti hún, að í samningnum fælist viðurkenning Breta á 12 sjómílna fiskveiðilögsögu.

Hvorki Ólafur Thors né Bjarni Benediktsson voru þeirrar gerðar, að þeir létu kúga sig til undanlátssemi, hvað þá að þeir gerðu nauðungarsamninga við aðrar þjóðir. Þeir voru báðir of fastir fyrir og stórir í sniðum til að láta erlenda eða innlenda aðila kúga sig til undirgefni. Báðir voru sannfærðir um, að samningurinn 1961 væri mikill sigur fyrir málstað Íslendinga, og er það aðalinntak útvarpsræðu Bjarna Benediktssonar, sem hann flutti á Alþingi í marz 1961: "Samkomulag er staðfesting á sigri okkar. Gæfa okkar undir því komin, að Ísland haldi áfram að vera réttarríki," segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu. ...

Stöðugt bárust íslenzkum fjölmiðlum fréttir um viðbrögð brezkra togaramanna og allar neikvæðar. Tíminn afgreiddi þessar fregnir með þögninni, en Þjóðviljinn sagði m.a.: "Bretar hlakka yfir samkomulaginu." Fyrirsagnirnar í Morgunblaðinu gefa þó betri mynd af viðbrögðum í Bretlandi: "Svik, segja brezkir togaramenn um samkomulagið." "Uppgjöf, segja Bretar." "Svik við brezka fiskimenn, segja togaramenn í Grimsby," sem héldu því jafnvel fram, að brezka stjórnin væri verri en sú íslenzka! Haraldur J. Hamar, sem þá var fréttaritari Morgunblaðsins í Grimsby, skrifar frétt undir fyrirsögninni, "Afskaplegur hiti í togaramönnum. Telja hneisu, hvernig brezka stjórnin hefur látið Íslendinga fara með sig," og segir að óánægjan beinist einkum að brezku stjórninni fyrir það að ganga að "afarkostum" Íslendinga. "Segja togaramenn það beina hneisu, hvernig stjórnin hafi látið Íslendinga fara með sig"(!).

Og Emil Björnsson, fréttamaður Ríkisútvarpsins í Englandi, segir í fréttaauka, að Bretar gagnrýni sína eigin stjórn fyrir, að "hún hafi beinlínis gefizt upp í þessu máli".

Morgunblaðið talar nú við fjölda íslenzkra sjómanna, sem allir fagna samkomulaginu og telja það mikinn sigur fyrir Íslendinga, og Landssamband íslenzkra útvegsmanna gerir ályktun samningnum til stuðnings og fagnar sérstaklega, að ríkisstjórn Breta skuldbindur sig "til að hlíta úrskurði alþjóðadómstóls um frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar."

Loks segir sú aldna kempa, Eiríkur Kristófersson, skipherra, sem hlaut virðingu allrar þjóðarinnar fyrir þolgæði og stefnufestu í þorskastríðinu, í samtali við Morgunblaðið:

"Meðan á samningum við Breta stóð var ég stundum spurður að því, hvernig mér líkaði "samningamakkið". Ég svaraði því alltaf til, að mér fyndist sjálfsagt að reyna að semja, ef samningar yrðu ekki mannskemmandi fyrir okkur. Nú hefur samkomulag náðst, og það er langt frá því, að það sé mannskemmandi, þvert á móti tel ég, að samkomulagið sé stórkostlegur ávinningur fyrir okkur og mikill sigur." Og ennfremur segir Eiríkur skipherra: "Mér finnst við hafa náð svo góðum samningum í þessari deilu, að ég hefði ekki látið mig að óreyndu dreyma um, að þeir yrðu jafnhagstæðir og raun ber vitni."

Eiríkur Kristófersson segir um gagnrýnina á samkomulagið, að hann telji, að hún verði dæmd eins og hrópin að Hannesi Hafstein í símamálinu. ...

Samningurinn við Breta var samþykktur á Alþingi 9. marz 1961 með 33 atkvæðum þingmanna stjórnarinnar gegn 27 atkvæðum stjórnarandstöðunnar og formlega gengið frá samkomulaginu 11. marz 1961. ...

Thor Thors sendir Ólafi, bróður sínum, heillaskeyti vegna lausnar landhelgisdeilunnar. Ólafur svarar um hæl í bréfi 21. marz og segir, að deilan hafi leystst betur en hann hefði þorað að vona. "Veiztu það, að ég hefi meiri trú á þjóð okkar eftir en áður. Það er gaman að upplifa það, að enda þótt búið sé að æra menn og einskis látið ófreistað að ganga á lagið og jafnvel þótt í einu mesta tilfinningamáli sé, þá lætur þjóðin ekki villa sér sýn. Hún lítur á þá lausn, sem fékkst, og fagnar."