6. ágúst 1998 | Minningargreinar | 376 orð

Bert Lindström

Í dag er til grafar borinn frá Djurökirkju utan við Stokkhólm Bert Lindström fyrrverandi aðalbankastjóri Norræna

Bert Lindström Í dag er til grafar borinn frá Djurökirkju utan við Stokkhólm Bert Lindström fyrrverandi aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans í Helsingfors. Bert Lindström var fæddur i Stokkhólmi,og var 76 ára þegar hann lést. Að loknu prófi frá Viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi 1944 réðist hann til hagrannsóknarstofnunar heildsölusamtakanna í Svíþjóð. Þar varð hann forstöðumaður árið 1946. Hann stundaði síðan nám í Bandaríkjunum og Frakklandi og sinnti rannsóknarverkefnum fyrir ýmis sænsk fyrirtæki áður en hann lauk ekon.lic.-prófi 1951. Að því loknu hóf hann störf hjá skógariðnaðar- og pappírsfyrirtækinu SCA, þar sem hann varð aðstoðarframkvæmdastjóri. Frá SCA réðist hann til Grängesbergsfyrirtækisins, en þar var hann framkvæmdastjóri 1959-1963, þaðan lá leiðin í stöðu forstjóra sænsku málmframleiðslusamsteypunnar Lamco, sem hafði framleiðslu í Líberíu. Árið 1964 var hann ráðinn bankastjóri Götabanken. Því starfi gegndi hann til ársins 1971, er hann varð forstjóri stórblaðsins Dagens Nyheter. Þaðan lá leiðin 1972 til Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann var aðstoðarforstjóri Þróunaraðstoðar SÞ í New York í fjögur ár. Þegar Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) hóf starfsemi sína árið 1976 varð Bert fyrsti aðalbankastjóri bankans. Það var NIB mikið lán að fá í upphafi til forystu mann eins og Bert Lindström með óvenju fjölbreytta og árangursríka starfsreynslu á sviði iðnaðar, viðskipta, bankastarfsemi og þróunarstarfs. Þessi víðtæka reynsla nýttist honum vel á vegum NIB. Sá sem þetta skrifar átti því láni að fagna að kynnast Bert vel. Fyrst sem stjórnarmaður í NIB frá upphafi og síðar voru kynnin endurnýjuð, þegar ég tók við starfi sem aðalbankastjóri NIB vorið 1994. Með okkur tókst gott samstarf og vinátta. Á tíu ára starfstíma Berts hjá NIB var grunnurinn lagður að eflingu bankans. Það að bankinn nýtur viðurkenningar sem eitt ljósasta dæmið um árangursríka norræna samvinnu og nýtur jafnt trausts atvinnulífs og fjármálastofnana á Norðurlöndum sem á alþjóðvettvangi, er ekki síst Bert Lindström að þakka. Hann hafði góða hæfileika til þess að laða menn til samstarfs og var óþreytandi að kynna NIB og efla tengsl hans við norræn fyrirtæki, heima og erlendis. Bert Lindström sýndi íslenskum málefnum alla tíð mikinn áhuga og stuðlaði að lánveitingum NIB til mikilvægra verkefna á Íslandi. Hann var sæmdur stórriddarakrossi íslensku fálkaorðunnar árið 1986. Ég minnist hans með söknuði og þakklæti. Eftir lifir minningin um vitran mann og góðgjarnan og góðan vin. Ég sendi fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Jón Sigurðsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.