Í KVÖLD munu tveir breskir plötusnúðar leika "drum n' bass" danstónlist fyrir íslensk ungmenni á Bíóbarnum. Þeir Deep Blue og Rhodesy koma frá bresku plötuútgáfunni Partisan Records, sem hefur vakið mikla athygli frá stofnun hennar í febrúar. Partisan er starfrækt í tengslum við plötuútgáfuna One Little Indian sem gefur m.a. út tónlist Bjarkar. Eldar Ástþórsson og Arnþór S.
Breskir plötusnúðar á Bíóbarnum

TILRAUN

UM TÓNLIST

Í KVÖLD munu tveir breskir plötusnúðar leika "drum n' bass" danstónlist fyrir íslensk ungmenni á Bíóbarnum. Þeir Deep Blue og Rhodesy koma frá bresku plötuútgáfunni Partisan Records, sem hefur vakið mikla athygli frá stofnun hennar í febrúar. Partisan er starfrækt í tengslum við plötuútgáfuna One Little Indian sem gefur m.a. út tónlist Bjarkar.

Eldar Ástþórsson og Arnþór S. Sævarsson, stjórnendur útvarpsþáttarins "Skýjum ofar" á X-inu og Virkni, hafa verið duglegir að flytja inn erlenda listamenn og fá nú Rhodesy og Deep Blue til Íslands.

Blaðamaður sló á þráðinn til þeirra félaga, sem í raun heita Paul Rhodes og Sean O'Keeffe. Fyrst kom Sean í símann.

Tónlistarinnar vegna

­ Hvers vegna eruð þið að koma til íslands?

Sean: Við erum búnir að heyra svo margt um landið, og svo vinna nokkrir Íslendingar með okkur. Allir segja að það sé frábært á Íslandi og þar sem við erum á leiðinni til Bandaríkjanna að kynna Partisan þá ákváðum við að stoppa á leiðinni og líta á ykkur.

­ Hvers vegna varð Partisan strax virt útgáfufyrirtæki?

Sean: Við sem stöndum að fyrirtækinu höfum verið í tónlistargeiranum mjög lengi og langaði alltaf að vinna saman. Við eigum marga vini sem eru að gera góða tónlist, og þeir fá algert frjálsræði í sköpun sinni. Það skiptir sjálfsagt miklu að við erum ekki í tónlist í viðskiptalegum tilgangi heldur tónlistarinnar vegna og til að skemmta okkur.

­ Þið spilið aðallega "drum n' bass" danstónlist?

Sean: Já, mestmegnis, en við höfum eitthvað verið í hiphoppi og viljum gera sem flestar tilraunir.

­ Semjið þið báðir tónlist?

Sean: Já, við erum báðir í því að taka upp okkar lög í hljóðveri, og höfum gefið út plötur hvor í sínu lagi og saman undanfarin ár. Það sem við spilum fyrir Íslendinga verður sambland af okkar tónlist og annarra. Það skiptir ekki máli eftir hvern hún er ef hún er bara góð.

­ Hver eru tengsl Partisan við One Little Indian?

Sean: Þegar við hættum hjá plötuútgáfunni sem við vorum hjá, þá þekktum við þegar fólkið hjá One Little Indian og vissum að það var í geiranum tónlistarinnar vegna, og virtist rétta fólkið til að hjálpa okkur fjárhagslega við að koma Partisan á legg, og nú höfum við aðstöðu í sama húsi og það.

­ Þekkirðu þá Björk?

Sean: Já, ég hef hitt hana nokkrum sinnum. Ég hef líka farið á marga tónleika með henni og er mikill aðdáandi tónlistar hennar. Heyrðu, Paul situr hérna við hliðina á mér og langar líka að tala við þig.

­ Allt í lagi. Takk fyrir.

Sean: Það var ekkert, sjáumst á Íslandi. Bless.­ Jæja Paul, hlakkarðu til að koma til Íslands?

Paul: Já, svo sannarlega. Ég get ekki beðið.

­ Hvað ætlið þið að vera lengi?

Paul: Við verðum bara í tvo daga og förum til New York á mánudagsmorgun. Við erum samt bara að spila á laugardagskvöldið á Bíóbarnum.

­ Ertu búinn að ákveða hvað þú ætlar að spila?

Paul: Við Sean vorum að fara yfir þetta saman. Það er alltaf þannig að við tökum með okkur miklu fleiri diska en við þurfum á að halda, vegum og metum stemmninguna og veljum lögin í samræmi við hana og viðbrögð fólksins.

­ Verður það allt "drum n' bass" danstónlist?

Paul: Já, ég spila bara "drum n' bass" en Sean spilar fleiri tegundir og kannski dansvænni. Abba, eða eitthvað slíkt. Nei, nei, bara að grínast. Það er þó aldrei að vita hvað hann spilar eftir nokkur vodkaglös!AÐSTANDENDUR

Partisan, f.v.: Gavin Newman,

Paul Rhodes, Caroline Butler og Sean O'Keefe.

Höfundurinn skiptir ekki máli ef tónlistin er góð