968. þáttur ÞOLMYND heitir þolmynd vegna þess að þá er verið að greina frá því, hvað einhverjir mega þola (af öðrum). Dæmi: Mennirnir þoldu miklar barsmíðar. Og við gætum sagt til frekari upplýsinga að þeir hefðu þolað barsmíðar af böðlum. Einfalt er að mynda þolmynd, ef umsögn setningarinnar stýrir þolfalli.
ÍSLENSKT MÁL

Umsjónarmaður Gísli Jónsson

968. þáttur

ÞOLMYND heitir þolmynd vegna þess að þá er verið að greina frá því, hvað einhverjir mega þola (af öðrum). Dæmi: Mennirnir þoldu miklar barsmíðar. Og við gætum sagt til frekari upplýsinga að þeir hefðu þolað barsmíðar af böðlum. Einfalt er að mynda þolmynd, ef umsögn setningarinnar stýrir þolfalli. Við snúum þá germyndarsetningu við: Jón sló Helga verður þá: Helgi var sleginn (af Jóni). Augljóst er hvað germyndin er þarna smekklegri en þolmyndin.

Ekki stýra allar sagnir sama falli. Það sem áður sagði, átti við þær sem stýra þolfalli (rægilegu falli, lat. accusativus). Nú skulum við taka nýtt dæmi: Mér var boðin staða. Ef við ætlum að nota umsnúning eins og í fyrra dæminu, fer allt á fjúk. ?Staða var boðin (af mér), og verður hér tóm vitleysa.

Okkur er sem betur fer stundum boðið eitt og annað gott. Og þá eigum við að segja: Mér var boðið (boðin, boðinn) o.s.frv. Í nokkuð góðri fréttagrein mátti lesa að hópurinn "hefði verið boðinn í mat". Ekki var það árennilegt. Ef ég væri "boðinn í mat", yrði ég hræddur, en teldi þó lífi mínu borgið, með því að fáa langaði í mig.

Orðið miðmynd segir svo sem ekki neitt. Ég geri ráð fyrir að heitið sé tilkomið vegna þess að hún hafi á bókum verið sett á milli (+????miðli) germyndar og þolmyndar. En miðmyndin er skemmtileg, ekki síst vegna þess að hún hefur þrenns konar merkingu. En lítum (ekki kíkjum) fyrst á hvernig hún myndast. Það gerist eða gerðist með því að setja afturbeygilega fornafnið (pronomen reflexivum) aftan á germyndina. Þetta fornafn var sik , nú sig . Dæmi: Hann klæddi sik hann klæddisk hann klæddist. Þarna kom þá merking nr. 1. Miðmyndin táknar gjarna það sem menn gera við sjálfa sig. Þá er það merking tvö: gagnvirk merking, um það sem menn gera hvor við annan, illt eða gott: Þeir börðust; þau kysstust. Og svo kemur það skrýtnasta. Miðmyndin kann að hafa þolmyndarmerkingu: líkið fannst ekki fyrr en snjóa leysti. Dalurinn byggðist (=var byggður) seint.

Minutissima

Regnið er flott.

Regnið er vott.

Regnið er hlýtt,

hvorki ótt né títt.

Regnið er gott.

(Ingilín úr Eyju.)

Björn Ingólfsson á Grenivík, orðhagur til muna og ekki síður hagorður, er að vonum ekki ánægður með enskuslettuna rafting , þó svo að þetta sé skylt íslenska orðinu raftur .

Rafting er haft um þá vinsælu íþrótt að fara á gúmíkænum niður straumharðar ár, þar sem verða miklar flúðir. Þess vegna leggur Björn til að við tökum upp hvorugkynsorðið flúður um þessa athöfn (beygist eins og múður og klúður ) og þar með sögnina að flúðra . Geta menn nú gamnað sér við að fara í flúður eða flúðra niður ána.

Tillaga Björns fær góðan stuðning og ekki síst sú vakandi viðleitni að taka ekki að þarflausu upp erlend orð í stað þess að reyna á þanþol móðurmálsins. Það þol er býsna mikið.

Þá ræddum við Björn Ingólfsson ofurlítið um sjaldgæft kvenmannsnafn, og nú gríp ég niður í Árbók Þingeyinga 1994:

"Ekki átti næsta nafn langlífi að fagna, sem kannski er eðlilegt. Óvída eða Ovída , jafnvel Óvídá , hét ein stúlka á Íslandi 1845, þingeysk: Óvída Jónasdóttir 11 ára í Hvammi í Höfðahverfi. Móðir hennar hét Eliná . Nafnið, hvernig sem það hefur verið sagt og skrifað í Höfðahverfi, er talið komið úr latínu, leitt af karlheitinu Ovidius , en Publius Ovidius Naso var frægur rómverskur rithöfundur. Ekki er ljóst eftir hvaða leiðum kvenheitið hefur borist til Íslands. Ovidius er líklega leitt af ovis ­ sauðkind.

Í skrá sinni um nöfn á Íslandi 1855 hefur Sigurður Hansen vantalið um eina. Þá voru tvær í Þingeyjarsýslu og ein í Barðastrandarsýslu. Ein fæddist enn í Þingeyjarsýslu 1870, en engin virðist hafa verið til 1910 né síðan, enda liggur nafnið flatt við útúrsnúningnum "Óvíða"."

Þetta er reyndar ekki svo mikill útúrsnúningur, því að prestar og mannteljarar bókuðu nafnið stundum svo.

Þjóðólfur þaðan kvað:

Herra Pílatus pældi í mörgu,

við prik gekk í hugþýfi körgu.

"Hvað er sannleikur?" sagð'ann

og sjálfan Krist lagð'ann

í því langtímaspursmáli lörgu.

Ekki fellur tré við fyrsta högg. Enn og aftur verður að geta þess að eignarfall kvenkynsorða, sem enda á - ing í nefnifalli, endar á ingar (ekki ?ingu). Hlutabréf hækkuðu í kjölfar birtingar fréttanna, ekki í "kjölfar birtingu".

Sic transit

Þeir eru að skapa um skólana

og skafa og grafa innan hólana,

allar hugsjónir misstar,

og hálfkommúnistar

mæla hrósorð um Xavier Solana.

(Öngull í Vík.)

Auk þess fær Sigvaldi Júlíusson vænt prik fyrir að segja: "Klukkan er þriðjung gengin í eitt."