NÁMSKEIÐ í almennri skyndihjálp og sálrænni skyndihjálp eru haldin reglulega á vegum Rauðakrossdeilda um land allt og hægt er að setja upp skyndihjálparnámskeið fyrir vinnustaði sérsniðin að þeirra þörfum. Á ári hverju sækja 4.000­ 5.000 manns víða um land skyndihjálparnámskeiðin, að sögn Sigríðar Þormar, deildarstjóra innanlandsskrifstofu Rauða kross Íslands.
Rauði krossinn Sjálfboðastörf, slys

á börnum og starfslok

Skyndihjálp, sjálfboðastarf, móttaka þyrlu á slysstað, starfslok og barnfóstrustörf er meðal þess sem hægt er að fræðast um á námskeiðum Rauða kross Íslands.

NÁMSKEIÐ í almennri skyndihjálp og sálrænni skyndihjálp eru haldin reglulega á vegum Rauðakrossdeilda um land allt og hægt er að setja upp skyndihjálparnámskeið fyrir vinnustaði sérsniðin að þeirra þörfum. Á ári hverju sækja 4.000­ 5.000 manns víða um land skyndihjálparnámskeiðin, að sögn Sigríðar Þormar, deildarstjóra innanlandsskrifstofu Rauða kross Íslands.

Eftir áramót verða einnig haldin námskeið fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp og eru þau ætluð fólki í heilbrigðisstéttum og félögum í björgunarsveitum. Leiðbeinendanámskeið í sálrænni skyndihjálp eru aftur einungis ætluð fagfólki, svo sem sálfræðingum, læknum, hjúkrunarfræðingum og prestum.

Þyrlumóttaka og barnagæsla

Þá er boðið upp á ýmis styttri námskeið, svo sem í móttöku þyrlu á slysstað, fyrir þá sem stunda óbyggðaferðir, sportsiglingar eða dvelja á stöðum þar sem ekki er hægt að koma sjúkrabílum að ef slys ber að höndum. Á námskeiði um slys á börnum er vakin athygli á þeim slysum sem algengast er að börn lendi í, hvaða skyndihjálp skuli veita og hvernig hugsanlega megi koma í veg fyrir slík slys. Á vorin gefst 11­14 ára unglingum svo kostur á barnfóstrunámskeiðum en þar er m.a. fjallað um æskilega eiginleika barnfóstru, þroska barna, leikfangaval, næringu og aðhlynningu, slys í heimahúsum og veikindi. Fyrir fólk 60 ára og eldra er boðið upp á svokallað starfslokanámskeið, þar sem rætt er um þær félagslegu breytingar sem óhjákvæmilega fylgja starfslokum flestra, húsnæðismál, trygginga- og fjármál, ábyrgð á eigin heilsu og fleira.

Sjálfboðaliðar í símaþjónustu

Þeir sem hafa hug á að gerast sjálfboðaliðar í ungmennastarfi Rauða krossins og eru á aldrinum 13­25 ára geta sótt grunnnámskeið fyrir nýja sjálfboðaliða í Sjálfboðamiðstöð Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, en því er ætlað að veita góða innsýn í starf Rauða krossins og hin ýmsu sjálfboðastörf á hans vegum. Einnig verða námskeið fyrir þá sem vilja starfa sem sjálfboðaliðar símaþjónustu Vinalínunnar eða Fjölskyldulínu Geðhjálpar og RKÍ, og þá sem hyggjast gerast heimsóknavinir fanga.

Allar nánari upplýsingar um námskeiðin eru veittar á aðalskrifstofu Rauða kross Íslands og hjá deildum Rauða krossins um land allt.