FOSSAR og fjöll, álfar og tröll, atvinnuhættir og umhverfismál, ævintýri og þjóðsögur. Fljótt á litið virðist sem framantalin atriði séu sitt úr hverri áttinni en á þeim öllum og fleirum til eiga allir góðir leiðsögumenn að kunna skil og geta miðlað á lifandi og skemmtilegan hátt til ferðamanna, erlendra jafnt sem innlendra, sem leggja Ísland undir fót.
SVÆÐISLEIÐSÖGN Draugasögur í þokunni

Á haustdögum hefjast námskeið í svæðisleiðsögn á Norðurlandi eystra og á Austurlandi. Margrét Sveinbjörnsdóttir komst að því við eftirgrennslan að í Austfjarðaþokunni og víðar er gott að kunna að segja draugasögur.

FOSSAR og fjöll, álfar og tröll, atvinnuhættir og umhverfismál, ævintýri og þjóðsögur. Fljótt á litið virðist sem framantalin atriði séu sitt úr hverri áttinni en á þeim öllum og fleirum til eiga allir góðir leiðsögumenn að kunna skil og geta miðlað á lifandi og skemmtilegan hátt til ferðamanna, erlendra jafnt sem innlendra, sem leggja Ísland undir fót. Auk almenns leiðsögunáms, sem boðið er upp á á ári hverju í Leiðsöguskóla Íslands, sem er til húsa í Menntaskólanum í Kópavogi, er öðru hvoru í boði nám fyrir svæðisleiðsögumenn í hinum ýmsu landshlutum, þar sem lögð er sérstök áhersla á sérkenni hvers landshluta fyrir sig, hvort heldur er í náttúrufari eða menningu.

Námskeið í svæðisleiðsögn eru haldin samkvæmt námsskrá menntamálaráðuneytis í samráði við Leiðsöguskóla Íslands. Kennarar, t.d. í raungreinum og tungumálum, eru oftast fengnir frá hinum ýmsu skólum á hverju svæði, auk þess sem fólk sem er starfandi í ferðaþjónustu á svæðinu miðlar af sinni reynslu. Námið er bæði verklegt og bóklegt og tekur alls 192 kennslustundir. Vettvangsferðir eru hluti af náminu. Heimavinna er allmikil og þurfa nemendur að viða að sér efni úr ýmsum áttum.

Leiðsögumaðurinn er bæði kennari og skemmtikraftur

"Námsgreinarnar eru þær sömu og í Leiðsöguskólanum í Kópavogi, nema hvað farið er mun meira frá hinu almenna til hins sértæka. Ef við tökum jarðfræðina sem dæmi, þá er fyrst kennd almenn jarðfræði Íslands, en síðan er t.d. farið sérstaklega í gegnum jarðfræði Mývatnssvæðisins, Kelduhverfis og Húsavíkur. Það sama á við um gróðurfar, dýralíf, landbúnað o.s.frv. Stór þáttur í þessu er svo byggðasaga svæðisins. Það er auðvitað eins í þessu námi og hinu almenna að mikil áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér að segja skemmtilega frá og hafi eyrun opin fyrir því að ná í sagnir af litríkum karakterum. Leiðsögumaðurinn er jú bæði kennari og skemmtikraftur. Ef það er þoka og ekkert sést út um gluggann, þá verður bara að fara í draugasögurnar," segir Björn Sigurjónsson, ábyrgðarmaður svæðisleiðsögumannanámsins á Norðurlandi eystra.

Flókin fyrirbæri skýrð

svo allir skilji

Auk þessa segir Björn leiðsögutækni mikilvægan hluta af náminu, því oft þurfi leiðsögumaðurinn að útskýra mjög flókin fyrirbæri, svo sem jarðfræði Ásbyrgis og Jökulsárgljúfra, á einfaldan og hnitmiðaðan hátt svo allir skilji. "Þetta snýst í raun um það að upplifa umhverfið og túlka það fyrir gestum ­ og það er mjög þakklátt og skemmtilegt starf," segir hann.

"Svæðisbundið vandamál sem við eigum við að glíma hér er hversu langt er milli staða. Við erum að reyna að leysa það vandamál með því að kenna bara um helgar," segir Björn. Þannig munu nemendur í svæðisleiðsögn á Norðurlandi eystra sitja á skólabekk sex helgar fyrir áramót og sex eftir áramót og vinna auk þess allmikið heima þess á milli. Ráðgert er að kennsla hefjist í lok september nk. og henni ljúki í apríllok. Sem dæmi um vegalengdirnar nefnir hann að nemandi sem býr á Þórshöfn og ætlar að sækja tíma vestur á Húsavík þurfi að aka 440 km fram og til baka, sem geti orðið býsna mikið ferðalag þegar kominn er vetur, myrkur og ófærð. "Í því sambandi horfum við reyndar miklum löngunaraugum til fjarfundabúnaðar Byggðastofnunar, sem hægt er að nota til kennslu og er alger bylting," segir hann.

Sérhæfing í gönguleiðsögn

á Austurlandi

Fyrsta svæðisleiðsögumannanámskeiðið var haldið á Austurlandi fyrir fimm árum og tóku þá 28 manns þátt í því. Nú þótti kominn tími til að halda annað námskeið, að sögn Karenar Erlu Erlingsdóttur, ábyrgðarmanns námsins á Austurlandi. Námskeiðið verður haldið í samvinnu allra þriggja framhaldsskólanna á svæðinu, þ.e. Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu á Höfn, Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað og Menntaskólans á Egilsstöðum, og verður kennt til skiptis á þessum stöðum. Auk þess er ætlunin að nota fjarfundabúnað sem nýlega var settur upp í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Aðspurð um helstu sérkenni Austurlands, sem ættu að geta fallið vel að ferðaþjónustunni, nefnir Karen t.d. mikinn fjölbreytileika gönguleiða, nálægð jökla, stærsta skóg landsins og sögusvið Hrafnkels sögu Freysgoða. Þá nefnir hún að skipakomum fari fjölgandi og með þeim sér í lagi þýskumælandi ferðamönnum. Gosið undir Vatnajökli haustið 1996 og hamfaraflóðið í kjölfarið dragi einnig að sér mikla athygli og áhuga ferðamanna.

"Hér erum við á gömlu bergi sem er mjög gott til gönguferða. Við ætlum að sérhæfa okkur í gönguleiðsögn, því það er okkar markaður. Firðirnir hafa líka mikið aðdráttarafl og það stendur til að gera meira í því að byggja upp gönguleiðir milli fjarða og ekki einskorða sig við hálendið," segir Karen ennfremur.

Morgunblaðið/Golli VERÐANDI svæðisleiðsögumenn á Norðurlandi eystra ættu að námi loknu að geta útskýrt flókin fyrirbæri á borð við jarðfræði Ásbyrgis á skýran hátt svo allir skilji.