Þór Íslandsmeistari í 3. flokki kvenna í knattspyrnu Glæsilegur árangur í sumar STELPURNAR í 3. flokki Þórs urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu, eftir frækilegan sigur á Val í vikunni, í leik sem bauð bæði upp á framlengingu og vítaspyrnukeppni.
Þór Íslandsmeistari í 3. flokki kvenna í knattspyrnu Glæsilegur árangur í sumar

STELPURNAR í 3. flokki Þórs urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu, eftir frækilegan sigur á Val í vikunni, í leik sem bauð bæði upp á framlengingu og vítaspyrnukeppni. Staðan var 1:1 að loknum venjulegum leiktíma og þar sem hvorugu liði tókst að bæta við marki í framlengingu var gripið til vítaspyrnukeppni, þar sem Þórsstelpur höfðu betur.

Þórsliðið hefur staðið sig hreint frábærlega í sumar og fyrir skömmu tryggði liðið sér Íslandsmeistaratitilinn í keppni 7 manna liða og þá fór liðið með sigur af hólmi á alþjóðlegu móti á Akranesi fyrr í sumar. Liðið vann alla sína leiki á keppnistímabilinu, utan einn sem lauk með jafntefli.

Kristín Gísladóttir fyrirliði var að vonum ánægð með afraksturinn í sumar og sagði þennan árangur að þakka góðum þjálfara og samstilltum leikmannahópi. Hún sagði að úrslitaleikurinn við Val hafi verið orðinn ansi langur og farinn að taka á taugarnar. "Ég var hrædd um að við héldum þetta ekki út í framlengingunni, þar sem Valsstelpurnar hafa spilað miklu fleiri leiki í sumar en við. En við stóðumst álagið og sigruðum í spennandi vítaspyrnukeppni."

Kristín sagði að flestar stelpurnar í liðinu færu upp í 2. flokk að ári og hún vissi ekki annað að allar ætluðu að halda áfram. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þessum snjöllu knattspyrnustúlkum í framtíðinni.

ÍSLANDSMEISTARAR Þórs í 3. flokki kvenna í knattspyrnu ásamt þjálfara sínum. Efri röð f.v., Soffía Björnsdóttir, Íris Egilsdóttir, Inga Dís Sigurðardóttir, Guðrún Viðarsdóttir, Hrefna Dagbjartsdóttir, Eva Sigurjónsdóttir, Áslaug Baldvinsdóttir og Jónas Sigursteinsson, þjálfari. Fremri röð f.v. Hulda Frímannsdóttir, Elsa Hlín Einarsdóttir, Kristín Gísladóttir fyrirliði, Tinna Gunnarsdóttir, Ásta Árnadóttir og Alma Þorsteinsdóttir. Á myndina vantar Svölu Rúnarsdóttur, Evu Dögg Ólafsdóttur og Þórdísi Óladóttur.