"MIG langaði til að fara út sem skiptinemi en ég hikaði vegna tilhugsunar um að geta ekki sinnt hestunum mínum," segir Sunna Reynisdóttir nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð. "Ég sótti svo loks um og var kominn til Argentínu í febrúar í fyrra. Ég kom aftur heim núna í janúar." segir hún.
Skiptinemi Ætla aftur í heimsókn

Sunna var skiptinemi á friðuðu svæði í Argentínu. Gestir falla í stafi yfir fegurðinni sem þar ber fyrir augu.

"MIG langaði til að fara út sem skiptinemi en ég hikaði vegna tilhugsunar um að geta ekki sinnt hestunum mínum," segir Sunna Reynisdóttir nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

"Ég sótti svo loks um og var kominn til Argentínu í febrúar í fyrra. Ég kom aftur heim núna í janúar." segir hún.

Sunna var í hálfgerðri paradís í Argentínu eða í San Martin de los Andes, sem sagður er einn fallegasti staðurinn í landinu. Hann er á 40 breiddargráðu og er mikill ferðamanna- og skíðabær. Íbúar eru ekki nema 20 þúsund. Bærinn liggur við vatn og þar liggur fólk í sólbaði, syndir og veiðir. Svæðið er einnig verndaður þjóðgarður og er í Andesfjöllum. "Eftir stúdentspróf fer ég örugglega þangað aftur í heimsókn," segir Sunna.

"Til Argentínu fá 116 skiptinemar hvaðanæva úr heiminum að koma árlega og er manni skipaður sérstakur innlendur trúnaðarmaður," segir hún. "Ég skildi ekki orð í spænsku en hún var tiltölulega fljót að koma. Ég var fyrst í skóla í nokkrar vikur og horfði bara á en skildi ekkert." Sunna segist hafa þurft að ganga í hræðilegum skólabúningi og margir hafi starað á hana ljóshærða í honum og þótt hún undarleg. Hún segir að fáir hafi kannast við landið Ísland þótt einstaka maður hafi vitað að það væri eyja í Norður- Atlantshafi.

"Ég bjó hjá fjölskyldu og var sem einn af meðlimum hennar. Mér var tekið mjög vel og eignaðist ég mjög marga vini."

Næturlífið í San Martin de los Andes er ekki ólíkt hinu íslenska nema hvað fólk drekkur sig ekki ölvað. Fólk fer út að dansa og í spilavítin þótt það spili ekki.

Varð sjálfstæð

Sunna segir að dvölin í Argentínu hafi verið mjög gefandi og hún hafi breytt sér. "Ég varð sjálfstæðari og ég held líka jákvæðari og bjartsýnni en áður. Ég kynnist öðru lífi, annarri menningu, tungumáli, fólki og annarri matargerð svo dæmi sé tekið."

Sunnu fannst verst hvað árið var fljótt að líða.



SUNNA með "systkinum" sínum Juana, Gregorio og Camila.



SAN Martin de los Andes er með fegurstu stöðum Argentínu.