SKIPTAR skoðanir eru um fjárlög sem Mogens Lykketoft fjármálaráðherra Danmerkur kynnti í vikunni. Niðurskurður upp á tæpa fimm milljarða danskra króna þykir heldur fátæklegur miðað við að mikil gróska er í dönsku efnahagslífi. Lykketoft bendir á móti á að sparnaðurinn sé í raun meiri, þar sem fleiri vinni en áður og það muni spara bótagreiðslur.
Skiptar skoðanir um fjárlagafrumvarp Mogens Lykketofts Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. SKIPTAR skoðanir eru um fjárlög sem Mogens Lykketoft fjármálaráðherra Danmerkur kynnti í vikunni. Niðurskurður upp á tæpa fimm milljarða danskra króna þykir heldur fátæklegur miðað við að mikil gróska er í dönsku efnahagslífi. Lykketoft bendir á móti á að sparnaðurinn sé í raun meiri, þar sem fleiri vinni en áður og það muni spara bótagreiðslur. Það veldur hins vegar áhyggjum á hægrivængnum að ekki er dregið úr umsvifum hins opinbera og að tekjuafgangur ríkissjóðs er aðeins áætlaður tæpir tveir milljarðar danskra króna á næsta ári, miðað við 27 milljarða í ár, sem reyndar má þakka sölu ríkisfyrirtækja. Ástæða þess að ekki þurfti að skera niður nú eru efnahagsráðstafanir stjórnarinnar frá því í byrjun sumars. Þar sem stjórnin er minnihlutastjórn þarf hún að leita stuðnings annarra flokka til að koma málum í gegnum þingið. Það er mat manna að fjárlagafrumvarpið nú falli betur að smekk hægri- en vinstrimanna og að stjórninni muni því veitast auðvelt að fá stuðning hægriflokkanna. Liður í því samstarfi verður væntanlega lækkun fyrirtækjaskatta úr 34 prósentum í 32. En Venstre hefur látið í ljós að meira þurfi að spara og því gæti stuðningur þaðan þrýst á stjórnina um frekari niðurskurð. Af sparnaði má nefna lægri styrki á orku- og matvælasviðinu, hagræðingu í skólakerfinu og sparnað ráðuneyta, en auk þess er gert ráð fyrir sparnaði bótagreiðsla þar sem fleiri eru í vinnu. Lykketoft leggur áherslu á að það sé í sjálfu sér ekkert afrek að skera niður. Erfiðara sé að gæta þess að hvorki verði stöðnun né að uppsveiflan leiði til verðbólgu. Einnig sé skortur á vinnuafli fyrirsjáanlegur og því þurfi að tryggja að fólk hafi lengri viðdvöl á vinnumarkaðnum en áður, en hætti ekki fyrir eftirlaunaaldur. Einnig skipti höfuðmáli að gera rekstur opinbera geirans hagkvæmari og skilvirkari, svo hann ræni ekki fólki frá einkageiranum.