HJÁ Matreiðsluskólanum okkar og Mími-Tómstundaskólanum er nú í fyrsta sinn í boði námskeið sem ber yfirskriftina Matur og kynlíf. Að sögn Gissurar Guðmundssonar, skólastjóra Matreiðsluskólans okkar, munu þátttakendur á námskeiðinu m.a. læra að leggja á borð á rómantískan hátt með tilheyrandi kertum og blómum, auk þess sem fjallað verður um þýðingu þess hvernig matnum er raðað á diskana.
Matur og kynlíf Kynörvandi krydd, kerti og rómantík

Kóríander, engifer, rósmarín, hvítlaukur og fennikel. Viagra? Hinn mesti óþarfi!

HJÁ Matreiðsluskólanum okkar og Mími-Tómstundaskólanum er nú í fyrsta sinn í boði námskeið sem ber yfirskriftina Matur og kynlíf.

Að sögn Gissurar Guðmundssonar, skólastjóra Matreiðsluskólans okkar, munu þátttakendur á námskeiðinu m.a. læra að leggja á borð á rómantískan hátt með tilheyrandi kertum og blómum, auk þess sem fjallað verður um þýðingu þess hvernig matnum er raðað á diskana.

Fennikel gott fyrir frjósemina

"Þá verður farið yfir allar þær kryddtegundir sem eiga að hafa örvandi áhrif, en það er staðreynd að ýmis krydd örva kyngetuna," segir hann og nefnir sem dæmi kóríander, engifer og rósmarín. "Hvítlaukurinn er talinn örvandi fyrir karlmenn og fennikel á að vera sérlega jákvætt fyrir frjósemina hjá konum. Við þurfum ekkert viagra hér," segir Gissur.

Frá reisnarlyfinu viagra berst talið að ostrum, en þær hafa frá alda öðli verið notaðar gegn kyndeyfð. Þær innihalda bæði joð og sink, en það virkar styrkjandi á blöðruhálskirtilinn. Skortur á sinki getur aftur á móti truflað kynorkuna.

Ástarmeðal hafsins

Fyrsta námskeiðið um mat og kynlíf, sem er tveggja kvölda, verður haldið í október, í húsnæði Matreiðsluskólans okkar í Bæjarhrauni 16 í Hafnarfirði. Leiðbeinendur á námskeiðinu verða tveir, karl og kona. Hver þau eru vill Gissur ekki gefa upp að svo stöddu og er leyndardómsfullur á svip þegar á hann er gengið.

Aftur á móti þarf ekki að ganga ýkja lengi á eftir Gissuri til þess að fá hann til að gefa eina örvandi mataruppskrift. Hún er ættuð úr norskri kokkabók kenndri við erótík og er uppistaðan ostrur, besta ástarmeðal hafsins, eins og það er orðað.OSTRUR Í RÚMIÐ

Til þess að opna ostruna skal halda henni fast, snúa breiðari endanum niður og nota lítinn hníf með breiðu blaði, sem þrýst er inn á milli skeljanna þannig að ostran opni sig. Hnífsblaðið er látið renna niður að vöðvanum sem opnar og lokar ostrunni og svo er skorið á. Þá heyrist hljóð sem líkist helst lostafullu andvarpi og ostran opnast.

Ostrurnar eru bornar fram hráar, einungis örlítið saltaðar, með sítrónubátum, ristuðu brauði og þurru kampavíni eða ísköldu sódavatni.

OSTRUR þykja eggjandi fæða.