MIKIL ólga hélt áfram á fjármálamörkuðum um allan heim í gær, í ljósi þess að ekkert benti til þess að sjá mætti fyrir endann á efnahagshruninu í Rússlandi. Kauphallarspekingar óttast að keðjuverkun í kjölfar hrunsins í Rússlandi geti jafnvel valdið allsherjarkreppu um allan heim.
Mikil ólga enn á fjármálamörkuðum heimsins í kjölfar öngþveitisins í Rússlandi

Kauphallarsérfræðingar

óttast heimskreppu

London. Reuters.

MIKIL ólga hélt áfram á fjármálamörkuðum um allan heim í gær, í ljósi þess að ekkert benti til þess að sjá mætti fyrir endann á efnahagshruninu í Rússlandi. Kauphallarspekingar óttast að keðjuverkun í kjölfar hrunsins í Rússlandi geti jafnvel valdið allsherjarkreppu um allan heim.

Gengi hlutabréfa hélt áfram niður á við í helztu kauphöllum, en svo virtist þó sem í Evrópu væri gengið í gær að ná jafnvægi eftir mikið fall á fimmtudag. Umræður voru á lofti um að lækka yrði vexti í Bandaríkjunum til að létta á þeim þrýstingi, sem nú er á fjármálamörkuðum alls staðar.

"Þetta er hættulegasta heimskreppuástandið frá því í olíukreppunum sem riðu yfir á áttunda áratugnum," sagði Roger Bootle, sérfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu HSBC Group í London. "Í fyrsta sinn á starfsferli mínum sýnist mér þurfa að taka möguleikann á dýfu í stíl við þær sem einkenndu fjórða áratuginn með í reikninginn af fullri alvöru," tjáði Bootle fréttamanni Reuters .

Rússland lykillinn

Leiðtogar heimsins eru svo áhyggjufullir yfir ástandinu í Rússlandi, þar sem efnahags- og stjórnmálaöngþveiti virðist versna með hverri klukkustund sem líður, að meðlimir samtaka sjö helztu iðnríkja heims (G7) hafa lagt hart að rússneskum stjórnvöldum að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum efnahagsumbótum; annars komi frekari fjárhagsaðstoð ekki til greina.

Dominique Strauss-Kahn, fjármálaráðherra Frakklands, upplýsti í gær að V-Evrópuríkin í G7 hefðu sameinast um áskorun sem færð var Viktor Tsjernómyrdín, starfandi forsætisráðherra Rússlands. Sagði Strauss-Kahn lausn vandans liggja hjá Rússum. Aðstoð G7-ríkjanna væri nauðsynleg, en forsenda þess að hún skilaði árangri væri að róttækri uppstokkun á rússeskum efnahagsmálum yrði hrint í framkvæmd. Þar skipti mestu að skattheimtan kæmist í lag.

En alþjóðlegir bankamenn telja að stjórnvöld í ríkjum heims muni fá lítið að gert, að minnsta kosti til skemmri tíma litið. Kauphallarspekingar ráðleggja fjárfestum að halda að sér höndum ef þeim virðast einhver viðskipti áhættusöm.

"Grípið aldrei fallandi hníf," ráðlagði svissneskur stórbanki viðskiptavinum sínum.

Óttast keðjuverkandi vítahring

Eftir að gengi hlutabréfa á Wall Street féll um meira en fjögur prósentustig á fimmtudag, höfðu fjárfestar áhyggjur af áframhaldandi sveiflum. Óttinn er mestur við að af stað fari vítahringur, þar sem þrýstingur á sölu á einum stað breiðist með keðjuverkandi hætti til annarra kauphalla.

En hlutabréfavísitala helztu kauphalla í Evrópu hélzt allstöðug í gær, þrátt fyrir allt. DAX-vísitalan þýzka féll fyrst eftir opnun um nær 5%, en náði sér síðan og var verðfallið á miðjum degi ekki meira en 1,3%. Sumir sérfræðingar segja enda, að þrátt fyrir þessar sveiflur sé vitað að hagsveiflan sé enn á leið upp á við á meginlandi Evrópu.

Brezka FTSE 100-vísitalan hafði aðeins lækkað um 0,3%. Öllu skarpari dýfu tók japanska Nikkei-vísitalan. Hún lækkaði um 3,5% í gær og hefur ekki verið lægri í 12 ár. En gengi jensins hélt. Hins vegar héldu veikari gjaldmiðlar áfram frjálsu falli. Pólska zlotyið féll allverulega. Gengi suður-afríska randsins hefur aldrei verið lægra, en seðlabanka landsins tókst að stöðva frekara fall gengisins með vaxtahækkun.

Hagvöxtur í heiminum minnkar

Hagfræðingar segja að nú sé mikið komið undir því hvaða stefnu viðskipti á bandaríska hlutabréfamarkaðnum taka. Ef þau taka nýjar dýfur myndi slíkt rýra almenningstraust á fyrirtækjunum. Þannig gæti ein helzta kjölfestan á heimsfjármálamarkaðnum molnað. Talið er að allt að 60% alls sparifjár bandarísks almennings sé bundið á hlutabréfamarkaðnum.

Það sem mun að minnsta kosti gerast, að mati sérfræðinga, er að meðalhagvöxtur í heiminum mun minnka enn frekar. "Botninn á hinni alþjóðlegu niðursveiflu er hvergi í sjónmáli," sagði Bruce Kasman, sem stýrir Evrópukauphallarýni hjá J.P. Morgan.