MJÖG er misjafnt eftir bæjarfélögum hversu hátt hlutfall barna er látið nota öryggisbúnað í bíl eða allt frá 27% upp í 96% samkvæmt könnun sem Umferðarráð gerði snemma á árinu. Sautján af hundraði barna í bílum að meðaltali eru ekki bundin í bílstóla.
Notkun öryggisbúnaðar fyrir börn í bílum könnuð

Fleiri börn í örygg-

isbeltum en áður

MJÖG er misjafnt eftir bæjarfélögum hversu hátt hlutfall barna er látið nota öryggisbúnað í bíl eða allt frá 27% upp í 96% samkvæmt könnun sem Umferðarráð gerði snemma á árinu. Sautján af hundraði barna í bílum að meðaltali eru ekki bundin í bílstóla.

Tölurnar eru úr könnun í febrúar í ár en á tveimur síðustu árum voru að meðaltali 28% og 32% barna ekki bundin í bílstóla. Könnunin náði til 2.736 barna á 31 stað á landinu og hefur verið gerð þrisvar. Margrét Sæmundsdóttir og María Finnsdóttir hjá Umferðarráði kynntu þessar niðurstöur á norræna slysaþinginu sem lýkur í Reykjavík í dag. Könnunin var unnin með aðstoð félaga í Slysavarnafélagi Íslands og leikskólakennaranemum.

Kannað var hvernig börn á aldrinum tveggja til sex ára sátu í bílum þar sem komið var með þau í leikskóla á 31 stað á landinu, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu og stórum og litlum bæjum úti um landið. Sams konar könnun fór einnig fram árin 1996 og 1997. Fyrra árið notuðu 72% barna í bílum öryggisbúnað en 28% voru laus og síðara árið var 68% barna bundið en 32% laust. Margrét Sæmundsdóttir segir sjaldnast vanta öryggisbúnað fyrir börn í bíla, langoftast sé um það að ræða að búnaðurinn sé ekki notaður. "Stundum sitja börnin laus í bílnum við hlið barnastólsins," sagði Margrét við blaðamann Morgunblaðsins.

Best ástand á Akureyri

Mjög er misjafnt eftir stöðum hvernig háttað er öryggismálum barna í bílum. Segir Margrét að á minnstu stöðunum sé víða meiri tilhneiging til að leyfa börnum að vera lausum í bíl. Nefndi hún tölur um að allt niður í aðeins 27% barna væru sett í bílstóla eða spennt í belti. Samkvæmt könnuninni í ár var ástandið best á Akureyri. Þar notuðu 96% barna öryggisbúnað, á Egilsstöðum 94%, í Kópavogi 92% og 90% í Reykjavík. Mjög margar byggðir lágu á bilinu 75% til 85% og í allmörgum var hlutfall barna sem notaði öryggisbúnað 40 til 50%.

Þá vöktu þær Margrét og María athygli á að oft hættir fólki til að leyfa börnum að fara of snemma úr bílstól og sitja í bílsæti með venjulegt bílbelti. Eitt dauðsfall barns er rakið til þess að það sat spennt í venjulegt bílbelti en með axlarólina fyrir aftan bak. Við högg kastaðist barnið því fram og lést af völdum áverka á kvið. Einnig væri brýnt að leyfa ekki börnum að vera lausum í húsbílum. Þær sögðu að við framkvæmd könnunarinnar hefði verið rætt við alla viðkomandi og hún því gefið gott tækifæri til að hvetja fólk til að nota öryggisbúnað fyrir börn.

Bílstjórinn er ábyrgur

Árin 1987 til 1997 létust alls 27 börn frá 0­14 ára í umferðarslysum. Á þessu tímabili létust 18 börn á aldrinum 0­6 ára og var helmingur þeirra í bílum. Margrét sagði það alvarlega við þessar kannanir að ennþá skyldu um 17% barna að meðaltali vera í bíl án þess að nota öryggisbúnað. Róa þyrfti að því öllum árum að hvetja bílstjóra til að nota þennan búnað. Benti hún á þá skyldubílstjóra að sjá til þess að farþegar hans undir 15 ára aldri notuðu belti eða öryggisbúnað í bíl.