"MENN eru komnir í heilan hring, þetta er sú sama niðurstaða og Alþingi markaði stefnu um með setningu laga um hlutafélagabanka. Þeir aðilar sem hafa verið að ræða við stjórnvöld, meðal annars að þeirra fyrirlagi, hafa hreinlega verið hafðir að fíflum," sagði Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins,
Sighvatur Björgvinsson Komnir í heilan hring

"MENN eru komnir í heilan hring, þetta er sú sama niðurstaða og Alþingi markaði stefnu um með setningu laga um hlutafélagabanka. Þeir aðilar sem hafa verið að ræða við stjórnvöld, meðal annars að þeirra fyrirlagi, hafa hreinlega verið hafðir að fíflum," sagði Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, þegar viðbragða hans við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um sölu eignarhluta í ríkisbönkunum var leitað.

Sighvatur kvaðst þarna vera að vísa til sænska SE-bankans. "Mér er vel kunnugt um að það var vegna ábendinga héðan af Íslandi, úr ekki mikilli fjarlægð frá viðskiptaráðherra, sem SE-bankinn fór að leita eftir þessum viðræðum," sagði hann en vildi ekki nánar tjá sig um hvaðan það frumkvæði hefði komið.

"Síðan hefja þeir viðræður og í kjölfarið er opnað á það að fleiri geti komið að málunum," sagði Sighvatur. "Íslandsbankamenn gefa sig fram og sparisjóðamenn gefa sig fram og halda sig vera í alvöruviðræðum. Svo er tilkynnt fyrirvaralaust í dag að öllum viðræðum sé hætt. Hvaða álit halda forystumenn stjórnarflokkanna að þeir fjármögnunaraðilar sem hafa verið að ræða við þá í fullri alvöru hafi á þeim núna? Hvað er að marka þessa menn? Þetta er hið aumasta klúður."

Helmingaskiptaflokkarnir náðu ekki samkomulagi

Efnislega um niðurstöðuna ítrekaði Sighvatur að þetta væri sú sama niðurstaða og Alþingi hefði markað stefnu um að öðru leyti en því að í stað þess að selja 49% hlut í FBA eigi nú að selja bankann allan. "Þeim hefði verið nær að halda sig við það í stað þess að tilkynna að ríkisstjórnin hefði gjörbreytt afstöðu sinni eins og þeir gerðu í upphafi þegar þeir rökstuddu það í löngu máli hvers vegna ríkisstjórnin hefði ákveðið að breyta afstöðu sinni. Nú breyta þeir afstöðu sinni til baka og hvers vegna? Vegna þess að annar helmingaskiptaflokkanna vildi selja innlendum fjárfestum, sem honum þóknaðist, ríkiseign. Hinn helmingaskiptaflokkanna vildi selja erlendum aðila, sem hann hafði valið, ríkiseigur. Svo komu þeir sér ekki saman um hvort sjónarmiðið ætti að verða ofan á og þá er bara hætt við allt saman. Þetta er eins svæsið dæmi um helmingaskiptapólitík þessara flokka og hugsast getur. Menn eru ekki að gefa þeim aðilum sem hafa áhuga á að kaupa kost á að kaupa, láta þá bjóða í þannig að sá hlýtur sem hæst vill borga heldur eru þeir valdir úr fyrirfram."

Varðandi ákvörðun um þá stefnubreytingu að selja allan Fjárfestingabanka atvinnulífsins en ekki einungis 49% hlut í bankanum sagði Sighvatur að það væri ekki langt síðan viðskptaráðherra hélt því fram og færði að því mörg rök að nauðsynlegt væri að stofna þennan nýja ríkisbanka. "Nú allt í einu er búið að breyta því og nú þarf að selja hann sem allra fyrst. Hvað stendur það lengi? Hver er skýringin á því að það sem var gjörsamlega ónauðsynlegt og jafnvel af hinu slæma fyrir nokkrum mánuðum er allt í einu orðið nauðsynlegt núna? Þetta er eins mikill hringlandaháttur og hægt er að hugsa sér og verður ekki til að auka álit og hróður íslenskra stjórnvalda hvorki á innlendum vettvangi né hjá erlendum viðskiptaaðilum."