Ruud Gullit, nýráðinn knattspyrnustjóri Newcastle til næstu tveggja ára með val um að halda áfram þriðja árið, sagði í gær að félagið væri metnaðargjarnt og framtíðin á svæðinu björt. "Kevin Keegan og Kenny Dalglish gerðu góða hluti hér og ég ætla að reyna að halda verkum þeirra áfram ­ og bæta einhverju við.
Gullit blæs til STOFNANDI:: STEG \: \:

Ruud Gullitblæs til sóknar

Ruud Gullit, nýráðinn knattspyrnustjóri Newcastle til næstu tveggja ára með val um að halda áfram þriðja árið, sagði í gær að félagið væri metnaðargjarnt og framtíðin á svæðinu björt. "Kevin Keegan og Kenny Dalglish gerðu góða hluti hér og ég ætla að reyna að halda verkum þeirra áfram ­ og bæta einhverju við."

Gullit sagðist vilja að liðið léki skemmtilega knattspyrnu með árangur í huga og vísaði á bug staðhæfingum þess efnis að hann ætlaði að byggja á erlendum stjörnum. "Ég gaf ungum mönnum tækifæri hjá Chelsea og ég vil hafa sama hátt á hjá Newcastle."

Greint var frá ráðningu Hollendingsins í fyrradag og hann sat fyrir svörum um 3.000 fréttamanna á St. James' Park í gær. Hann sagði að stuðningsmennirnir ættu skilið að eiga sigursælt lið og að því yrði stefnt, skref fyrir skref.

Newcastle tekur á móti Liverpool á morgun og sagðist Gullit ætla að fylgjast með leiknum ofan úr stúku. "Helsta vandamál mitt er að ég var ekki með liðið á undirbúningstímabilinu og því verð ég að byrja á því að sjá hvað mennirnir geta, sjá hvað ég er með í höndunum. Aðalatriðið er að hafa gaman af hlutunum og ég hugsa aðeins um líðandi dag eða viku en ekki mánuð eða lengra fram í tímann."