FÆREYINGAR hafa nú eignast fyrstu móðurmálsorðabókina og geta nú fengið upplýsingar um tæplega 66.000 orð á eigin tungu. Jafnframt er tölvuforritið sem færeyski forritarinn hefur búið til vegna orðabókarinnar svo víðtækt að Íslendingar hafa nú fengið aðgang að því og hyggjast nýta það við gerð þriðju Íslensku orðabókarinnar.
FYRSTA FÆREYSKA ORÐABÓKIN

Tórshavn. Morgunblaðið.

FÆREYINGAR hafa nú eignast fyrstu móðurmálsorðabókina og geta nú fengið upplýsingar um tæplega 66.000 orð á eigin tungu. Jafnframt er tölvuforritið sem færeyski forritarinn hefur búið til vegna orðabókarinnar svo víðtækt að Íslendingar hafa nú fengið aðgang að því og hyggjast nýta það við gerð þriðju Íslensku orðabókarinnar.

Unnið hefur verið að færeysku orðabókinni frá því í lok níunda áratugar. Í forystu fyrir því starfi hefur verið málvísindamaðurinn Johan Hendrik Winther Poulsen hjá Háskóla Færeyja.

Hin um það bil 66.000 orð í færeysku móðurmálsorðabókinni eru m. a. sótt í hið umfangsmikla orðasafn Christians Matras, prófessors í færeysku sem nú er látinn. Ennfremur hefur Johan Hendrik Winther Poulsen að íslenskri fyrirmynd auglýst eftir orðum í færeyska útvarpinu þar sem hann hefur leitað til fólks í því skyni að fá vitneskju um sjaldgæf orð.

"Bókin hefur það í för með sér að Færeyingar geta nú leitað til eigin máls í staðinn fyrir að fræðast um það í erlendum bókum. Einnig eru í bókinni samheitaorð sem geta haft þau áhrif að gera færeyskuna fjölbreyttari", segir Johan Hendrik Winther Poulsen og bætir við að í bókinni séu 230 teikningar eftir Bárð Jákupsson, forstöðumann Listasafns Færeyja.

Með útgáfu færeysku orðabókarinnar eru það aðeins tvær Norðurlandaþjóðir, Grænlendingar og Samar, sem ekki eiga orðabók yfir móðurmál sín.