Bjarni Tryggvason æfir fyrir aðra geimferð "ÉG HLAKKA til að takast á við verkefnið en geri tæpast ráð fyrir að næsta ferð mín út í geiminn verði fyrr en eftir 4-5 ár. Það er lítill tími miðað við að ég þurfti að bíða í 14 ár eftir þeirri fyrstu," sagði Bjarni Tryggvason geimfari í samtali við Morgunblaðið.
Bjarni

Tryggvason

æfir fyrir

aðra

geimferð

"ÉG HLAKKA til að takast á við verkefnið en geri tæpast ráð fyrir að næsta ferð mín út í geiminn verði fyrr en eftir 4-5 ár. Það er lítill tími miðað við að ég þurfti að bíða í 14 ár eftir þeirri fyrstu," sagði Bjarni Tryggvason geimfari í samtali við Morgunblaðið.

Bandaríska geimferðastofnunin (NASA) hefur valið Bjarna til æfinga fyrir frekari geimferðir og kann hann að verða meðal fyrstu geimfara, sem sendir verða til starfa í hinni nýju alþjóðlegu geimstöð, sem ætlunin er að hefja smíði á úti í geimnum á árinu. Bjarni hefur verið útnefndur til að vinna að stjórnstörfum í geimferjum og geimstöðinni en í geimferð sinni í fyrra vann hann eingöngu að vísindastörfum. "Ég mun eftir sem áður stunda einhver vísindastörf en fæ þó fyrst og fremst það hlutverk að stjórna ferju og einstökum kerfum hennar. Þjálfunin er um það bil að hefjast og mun ég hennar vegna dvelja í Houston næstu árin. Framundan er nokkurra ára vist," sagði Bjarni. Ásamt Bjarna voru valdir til æfinganna 25 fulltrúar NASA og 5 frá geimferðastofnunum Brasilíu, Frakklands, Ítalíu og Þýskalands. Er þetta fyrsti geimfarahópurinn sem valinn er á þessu ári til leiðangra með bandarísku geimferjunum í framtíðinni og til að sinna verkefnum í geimstöðinni. Sendur til starfa í nýju geimstöðinni "Það eru mjög miklar líkur, jafnvel öruggt, að ég verði sendur upp í geimstöðina," sagði Bjarni en fyrstu einingum hennar verður skotið á loft frá Rússlandi í nóvember nk. og stendur samsetning hennar yfir næstu 4-5 árin. Bjarni Tryggvason var í áhöfn geimferjunnar Discovery í 11 daga leiðangri hennar á braut um jörðu í ágústmánuði í fyrra. Vann hann þá að tilraunum með tæki, sem hann hefur sjálfur hannað, svonefndan örþyngdar titringseinangrara, en því er ætlað að eyða titringi í rannsóknarbúnaði á braut um jörðu. Smíði og þróun tækisins og tækninnar sem það byggist á er forsenda ýmissa rannsóknarstarfa í geimstöðinni. BJARNI Tryggvason.