UPPGREFTRI á sjö kistum, sem vísindamenn vona að geymi leifar af veirunni er olli spænsku veikinni árið 1918, er lokið. Karsty Duncan, sem stjórnaði hópi vísindamanna er stóð að uppgreftrinum, sagði í samtali við Morgunblaðið að hún væri vongóð um að uppgröfturinn skilaði árangri.
Lokið við uppgröft á Svalbarða

Longyearbyen. Morgunblaðið.

UPPGREFTRI á sjö kistum, sem vísindamenn vona að geymi leifar af veirunni er olli spænsku veikinni árið 1918, er lokið. Karsty Duncan, sem stjórnaði hópi vísindamanna er stóð að uppgreftrinum, sagði í samtali við Morgunblaðið að hún væri vongóð um að uppgröfturinn skilaði árangri.

Duncan sagði að vísindamennirnir hefðu ákveðið að hætta uppgreftrinum í gær og væri nú unnið að því að ganga frá gröfunum á ný. Hún sagðist óánægð með að fréttaflutningur hefði byggst á því að vísindamennirnir væru miður sín þar sem ólíklegt virtist að nothæf sýni fyndust vegna þess að kisturnar væru ekki í sífrera líkt og vonir stóðu til. Hún sagðist þvert á móti ánægð með árangurinn og að þau hefðu fundið nothæf vefsýni í öllum kistunum.

Nú yrðu sýnin rannsökuð á rannsóknarstofum um allan heim og kæmi ekki í ljós fyrr en eftir marga mánuði hvort veiruna væri að finna í þeim og hvort hún væri lifandi og nothæf.

Yfirmeinafræðingur leiðangursins, George Smith, sagði það hafa verið ætlun vísindamannanna að grafa áfram en í gær hefðu grafirnar byrjað að hrynja saman. Því hefði verið tekin ákvörðun um að hætta uppgreftrinum.