VALDÍS Jónsdóttir talmeinafræðingur kynnti niðurstöður úr rannsókn á raddheilsu kennara á Norðurlandi eystra, á haustþingi Bandalags kennara á Norðurlandi eystra, Félags skólastjóra á Norðurlandi eystra og Skólaþjónustu Eyþings í Menntaskólanum á Akureyri í gær.
Könnun á raddheilsu kennara kynnt á haustþingi kennara og skólastjórnenda

Rödd kennara getur haft

áhrif á námsárangur

VALDÍS Jónsdóttir talmeinafræðingur kynnti niðurstöður úr rannsókn á raddheilsu kennara á Norðurlandi eystra, á haustþingi Bandalags kennara á Norðurlandi eystra, Félags skólastjóra á Norðurlandi eystra og Skólaþjónustu Eyþings í Menntaskólanum á Akureyri í gær. Valdís sagði í samtali við Morgunblaðið að ástandið væri alls ekki gott og að nauðsynlegt væri að breyta hugsunarhætti þeirra sem vinna með röddina.

"Röddin er atvinnutæki kennara og þannig getur rödd kennarans beinlínis haft áhrif á námsárangur og aga nemenda ekki síður en greindarfar eða þjóðfélagslegar aðstæður. Öllum sem hafa komið nálægt rannsóknum á kennararaddböndum hefur komið saman um að helsti orsakavaldur að slæmri raddheilsu kennara sé þekkingarleysi hans á rödd og raddbeitingu. Kennarinn þarf að læra á röddina, kunna á hana og sinna um hana. Hann má ekki taka röddinni sem sjálfsögðum hlut sem slitni við notkun."

Könnunin er frá árunum 1992 og 1994 og tók 331 kennari í 32 skólum á Norðurlandi eystra þátt í henni. Þar kemur fram að einn þriðji hluti kennara virtist ekki ánægður með gæði eigin raddar og auk þess töldu 9% hópsins sig vera komin með rödd sem ekki dygði þeim til kennslu. Þá benti hlustun og tíðnisgreining til að um þriðjungur kennara væri kominn með einkenni misbeitingar á rödd.

Röddin undir vinnu- verndarlöggjöfina

Valdís sagði að röddin myndaðist fyrir samverkan vöðva og lofts og að vissulega mætti koma í veg fyrir slit á þessum vöðvum eins og öðrum í líkamanum. "Það er sama hversu vel menntaður eða fær kennarinn er ef nemendur heyra ekki eða þola ekki röddina í kennaranum sínum þá er ekki hægt að búast við góðum námsárangri."

Valdís sagði að röddin þyrfti að komast undir vinnuverndarlöggjöfina og ef fólk missti röddina gæti það sótt skaðabætur - fordæmi væri fyrir slíku m.a. í Bretlandi. Íþróttakennarar þurfa oft að vinna við erfiðar aðstæður og í könnuninni kom í ljós ástand þeirra var miklu verra en skólastjóra. Einnig kom fram að starfsaldur íþróttakennara er 15 ár en skólastjóra 23 ár.

Fram að þessu hefur lítið sem ekkert verið hugsað um hvernig hægt sé að láta rödd kennarans ná sem best til nemenda. Valdís bendir á að hvorki hafi komið til raddstyrking, fræðsla um rödd né vel úthugsaður hljómburður né mögnunarkerfi. Nútíma tækni geri það hins vegar mögulegt með tilvist þráðlausra hljóðkerfa. Inniloft er einnig áhrifavaldur en Valdís sagði að erfitt væri að bæta inniloft, m.a. vegna staðsetningar og veðurskilyrða. Þá væri undarleg pólitík í gangi með húsgögn í skólum, sem væru út af fyrir sig stór valdur að óþarfa hávaða.

Magnarakerfi hjálpar

Tilraun hefur verið gerð með notkun magnarakerfis í Menntaskólanum á Akureyri og grunnskólunum á Dalvík og Siglufirði. Í samantekt Valdísar varðandi þá tilraun kemur m.a. fram að athygli hafi vakið hversu margir nemendur vilji að kennarar noti magnara. Það var samdóma álit nemenda að ekki þurfi eins að einbeita sér að því að hlusta og þeir heyri betur í kennaranum þrátt fyrir skvaldur í bekknum. Kennurum finnst á hinn bóginn mun léttara að tala og að eftirtekt nemenda sé miklu betri.

Valdís segir niðurstöður þessarar tilraunar með magnarakerfi fyrir kennara sýna ótvírætt fram á að skólayfirvöld myndu gera rétt í því að fjárfesta í hljóðmögnunarkerfum þannig að þau væru fyrir hendi í hverjum einasta skóla. Og kennarar með raddörðugleika fengu þau sjálfsögðu mannréttindi að fá bætta vinnuaðstöðu.

Morgunblaðið/Ólafur H. Oddsson VALDÍS Jónsdóttir, talmeinafræðingur t.v., með Kristínu Sigfúsdóttur, sem notað hefur þráðlaust magnarakerfi með góðum árangri við kennslu í Menntaskólanum á Akureyri.