LÍBÝUSTJÓRN skoraði í gær á brezk, bandarísk og hollenzk stjórnvöld að hefja samningaviðræður um lagalega framkvæmd réttarhalda, sem áformað er að fari fram í Hollandi yfir tveimur Líbýumönnum, sem grunaðir eru um að hafa staðið að Lockerbie-sprengitilræðinu fyrir áratug.
Öryggisráðið afgreiðir Lockerbie-áætlun

Líbýustjórn vill

frekari viðræður

New York, Túnisborg. Reuters.

LÍBÝUSTJÓRN skoraði í gær á brezk, bandarísk og hollenzk stjórnvöld að hefja samningaviðræður um lagalega framkvæmd réttarhalda, sem áformað er að fari fram í Hollandi yfir tveimur Líbýumönnum, sem grunaðir eru um að hafa staðið að Lockerbie-sprengitilræðinu fyrir áratug.

Líbýska utanríkisráðuneytið gaf út harðorða yfirlýsingu, þar sem skoðun líbýskra stjórnvalda er lýst á samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um málið, en á fimmtudag samþykkti ráðið einróma tillögu Breta og Bandaríkjamanna um framkvæmd réttarhaldanna, sem deilt hefur verið um árum saman. Sagðist Líbýustjórn ekki vera bundin af samkomulagi Breta, Bandaríkjamanna og Hollendinga, sem fylgir samþykkt öryggisráðsins.

En sendiherra Líbýu hjá SÞ samþykkti tillögu Breta og Bandaríkjamanna, sem eftir samþykkt öryggisráðsins hefur hlotið gildi alþjóðlegrar lagasetningar. Bandaríkjastjórn hefur sagt að ekki komi til greina að semja um það samkomulag sem þegar hefur verið gert um réttarhöldin.

Ályktað um refsiaðgerðir

Við afgreiðslu samþykktarinnar í ráðinu var líka sagt, að refsiaðgerðir sem hafa verið í gildi gegn Líbýu frá því 1992 vegna þess að þarlend stjórnvöld neituðu að framselja sakborningana tvo, yrðu felldar úr gildi um leið og þeir verða framseldir til að mæta fyrir rétti skipuðum skozkum dómurum í Haag, eins og kveðið er á um í samkomulaginu.

Haustið 1988 sprekk sprengja í Boeing 747-farþegaþotu PanAm- flugfélagsins, sem var á leið frá London til New York, þegar hún var yfir bænum Lockerbie í Skotlandi. 270 manns létu lífið, 259 um borð í þotunni og 11 á jörðu niðri.