SJÁVARÚTVEGSSKÓLI Sameinuðu þjóðanna var settur formlega í gær. Nemendur skólans, sem allir eru frá Afríku, segjast ætla að taka virkan þátt í þróun fiskveiða í heimalöndum sínum á næstu árum og segjast sannfærðir að hér á landi geti þeir lært mikið í þeim efnum.
Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna var settur í gær "Íslendingar verða að

miðla þekkingu sinni"

SJÁVARÚTVEGSSKÓLI Sameinuðu þjóðanna var settur formlega í gær. Nemendur skólans, sem allir eru frá Afríku, segjast ætla að taka virkan þátt í þróun fiskveiða í heimalöndum sínum á næstu árum og segjast sannfærðir að hér á landi geti þeir lært mikið í þeim efnum.

Sjávarútvegsskólinn er hluti af þróunaraðstoð Íslendinga og byggist m.a. á þeirri aðstoð sem Íslendingar hafa veitt í þróunarlöndunum á síðustu árum. Skólinn er hluti af reglulegri starfsemi Hafrannsóknastofnunnar og er rekin í nánu samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann á Akyreyri og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, auk þess sem fleiri stofnanir og fyrirtæki leggja hönd á plóginn.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði við setningu skólans í gær ánægjulegt að sjá Sjávarútvegsskólann verða að veruleika því mörg ár væru frá því að hugmynd um slíkan skóla hafi kviknað og undirbúningur staðið yfir um árabil. Hann sagði einnig ánægjulegt að geta veitt þróunarlöndum aðstoð við að þróa fiskveiðar og um leið efnahag sinn, og þannig bætt hag íbúa landanna. Ekki séu mörg ár síðan Ísland var í hópi þróunarlandanna en nú sé velmegun hér á landi með því mesta sem þekkist. Það hafi tekist með skynsamlegri nýtingu á auðlindum hafsins og því sé Íslendingum ljúft og skylt að miðla þekkingu sinni og reynslu til annarra þjóða.

Gæti einnig haft efnahagslegan ávinning

"Íslendingar hafa tekið þátt í uppbyggingu sjávarútvegs í nokkrum löndum Afríku, bæði kennslu og þjálfun, og reka meðal annars sjómannaskóla í Namibíu. Með því að koma á fót þjálfun og kennslu hérlendis er verið að styrkja tengslin milli þessara landa og Íslands. Ég held að það muni skipta miklu máli fyrir þessi lönd í framtíðinni en það mun einnig skipa máli fyrir okkur Íslendinga. Það er mikilvægt fyrir okkur geta miðlað af reynslu okkar og þekkingu og geta þannig hjálpað fólki sem er skemmra á veg komið í þessum málum. Af því getur einnig orðið efnahagslegur ávinningur fyrir Ísland í framtíðinni þó að það sé ekki tilgangurinn með þessari starfsemi," sagði Halldór.

Fyrst í stað munu aðeins sex nemendur sækja skólann en hugmyndin er að fjölga þeim á næstu árum og þá verði að staðaldri um 20 nemendur við skólann. Nemendurnir að þessu sinni eru allir frá Afríku; tveir frá Úganda, tveir frá Gambíu og tveir frá Mósambík. Þeir hafa flestir starfað innan sjávarútvegsgeirans í heimalöndum sínum og lokið háskólanámi af einhverju tagi.

Mikilvægi fiskveiða aukist

Meðal nemenda sjávarútvegsskólans er Robin D. Ibale, frá Úganda. Hann hefur starfað að fiskveiðistjórnun fyrir stjórnvöld í Úganda. Hann segir námið á Íslandi koma til með hjálpa sér við að skipuleggja og koma á fót sjálfbærri nýtingu mikilvægustu fiskistofnanna í heimalandi sínu og hann vonast til að geta miðlað þeirri þekkingu til samlanda sinna. "Útflutningur sjávarafurða frá Úganda hefur aukist umtalsvert á síðustu árum. Að því ég best veit er meira að segja fluttur fiskur frá Úganda til Íslands. Mikilvægi fiskveiða hefur því vaxið mikið og þær skapa nú mestar gjaldeyristekjur í Úganda, næst á eftir landbúnaði."

Verðum að nýta fiskistofnana á sjálfbæran hátt

Asberr N. Mendy er frá Gambíu og hefur starfað að sjávarútvegsmálum innan opinbera geirans þar í landi. Hann vonast einnig til að námið á Íslandi hjálpi til við að stuðla að betri nýtingu fiskistofnanna í Gambíu. " Ég vonast til þess að geta öðlast betri skilning á bæði fiskveiðistjórnun og fiskistofnunum sjálfum, því hvorttveggja er mikilvægt fyrir sjálfbæra nýtingu þeirra. Ég er því sannfærður um að námið muni koma mér og þjóð minni til góða. Landbúnaður hefur verið helsti atvinnuvegur Gambíu lengst af en síðasta áratuginn höfum við verið að þreifa fyrir okkur á öðrum sviðum. Þar á meðal er horft til fiskveiða en fiskistofnar okkar hafa til þessa einkum verið nýttir af erlendum aðilum. Umfang sjávarútvegsins hefur hins vegar aukist mikið innanlands síðustu ár."

Ísland kjörinn staður fyrir skólann

Nemendurnir hafa sótt fyrirlestra og heimsótt fyrirtæki þá viku sem skólinn hefur starfað. Robin og Asberr eru sammála um að eftir stutt kynni sín af Íslandi séu þeir sannfærðir um að hér geti þeir lært sitthvað um fiskveiðar og fiskveiðistjórnun. "Okkur skilst að Íslendingar byggi efnahag sinn nánast eingöngu á fiskveiðum og sérfræðingar þeirra í sjávarútvegsmálum eru meðal þeirra fremstu í heiminum. Við vonumst því til að geta horfið til starfa í heimalönum okkar eftir sex mánuði og renna styrkari stoðum undir efnahag þeirra."

Morgunblaðið/Arnaldur HALLDÓR Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ávarpar nemendur við setningu sjávarútvegsskólans í gær.

ROBIN D. Ibale frá Úganda.

ASBERR N. Mendy frá Gambíu.