TÆKNIVAL hf. tapaði 36,6 milljónum kr. á fyrri helmingi ársins en hagnaður sama tímabils á síðasta ári nam 10,6 milljónum kr. Í gær var tilkynnt um fyrirhugaðan samruna Tæknivals hf. og Digital á Íslandi undir nafni Tæknivals.
Liðlega 36 milljóna króna tap hjá Tæknivali hf. á fyrri helmingi yfirstandandi rekstrarárs Digital sameinast

Tæknivali hf.

TÆKNIVAL hf. tapaði 36,6 milljónum kr. á fyrri helmingi ársins en hagnaður sama tímabils á síðasta ári nam 10,6 milljónum kr. Í gær var tilkynnt um fyrirhugaðan samruna Tæknivals hf. og Digital á Íslandi undir nafni Tæknivals.

Meginskýringin á lakari afkomu Tæknivals er að sögn stjórnenda félagsins sú að víðtæk endurskipulagning félagsins og fjárfesting í þekkingu hefur skilað sér seinna en reiknað var með. "Fyrirtækið hefur vaxið mjög hratt á undanförnum árum. Það skipulag sem í gildi var gekk ekki lengur og því var farið í endurskipulagningu sem lauk í sumar. Við erum farnir að sjá árangur af henni," segir Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Tæknivals. Hann segir kostnaður sé að lækka og sala að aukast. Velta Tæknivals hf. nam 1,4 milljarði kr. á fyrstu sex mánuðum ársins og er það 13,5% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Rúnar segir að endurskoðuð rekstraráætlun geri ráð fyrir að hagnaður verði af rekstri Tæknivals á árinu í heild.

Samruni um áramót

Gengið hefur verið frá samningi milli Tæknivals hf. og Digital á Íslandi ehf. um að fyrirtækin sameinist undir nafni Tæknivals hf. Rekstur fyrirtækjanna verður óbreyttur fram til áramóta en stefnt er að því að Digital verði síðan sjálfstæð þjónustu- og sölueining innan Tæknivals.

Digital á Íslandi hefur verið í eigu fyrirtækis í eigu fjölskyldu Werners Rasmunsson apótekara og er Karl Wernersson framkvæmdastjóri. Í fréttatilkynningu kemur fram að fyrirtækið hefur sterka stöðu hér á landi meðal stórra og meðalstórra fyrirtækja og eru nokkur af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins meðal viðskiptavina þess. "Tæknival og Digital munu styrkja hvort annað með auknu framboði af tölvum, stýrikerfum, netkerfum og öðrum búnaði svo og sérhæfðri þekkingu starfsmanna," segir í fréttatilkynningu.

Velta Tæknivals er áætluð 3 milljarðar kr. í ár en ársvelta Digital á Íslandi er um 400 milljónir kr. Velta sameinaðs fyrirtækis verður því um 3,4 milljarðar kr.

Þess má geta að fyrr á árinu sameinuðust Compaq Computer Corporation og Digital Equipment Corporation í Bandaríkjunum eftir kaup Compaq á Digital. Tæknival er með umboðið hér á landi fyrir Compaq.