FRÆÐSLUNETINU er ætlað að hlutast til um að boðið verði upp á nám á háskólastigi á Austurlandi og að efla símenntun og fullorðinsfræðslu í fjórðungnum," segir Óðinn Gunnar Óðinsson, "fræðslunetið mun m.a. vinna í nánu samstarfi við framhaldsskólana á Austurlandi, starfandi háskólastofnanir á Íslandi og aðrar námsstofnanir, atvinnulíf og fleiri aðila.
FRÆÐSLUNET Á AUSTURLANDI

Tengir menntun, atvinnulíf og byggð Óðinn Gunnar Óðinsson hefur verið ráðinn, tímabundið, starfsmaður háskólanefndar Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, en sú nefnd er að vinna að stofnun fræðslunets Austurlands.

FRÆÐSLUNETINU er ætlað að hlutast til um að boðið verði upp á nám á háskólastigi á Austurlandi og að efla símenntun og fullorðinsfræðslu í fjórðungnum," segir Óðinn Gunnar Óðinsson, "fræðslunetið mun m.a. vinna í nánu samstarfi við framhaldsskólana á Austurlandi, starfandi háskólastofnanir á Íslandi og aðrar námsstofnanir, atvinnulíf og fleiri aðila. Lögð verður áhersla á notkun fjarskiptabúnaðar við miðlun námsefnis. Í því skyni hefur m.a. verið komið fyrir gagnvirkum sjónvarpsbúnaði í framhaldsskólunum. Nemendur geta þannig í raun stundað nám við skóla staðsetta hvar sem er í heiminum. Það gefur þeim aukin tækifæri til menntunar og endurmenntunar án þess að flytjast búferlum."

Rekstrarfræði við HA

Strax í vetur verður í samvinnu fræðslunets Austurlands og nokkurra háskóla boðið upp á fjarnám. Á vegum Háskólans á Akureyri verður kennt þriðja ár í rekstrarfræði. Þá er í gangi ákveðið þróunarsamstarfsverkefni við Viðskiptaháskólann í Reykjavík, þar sem á annan tug nemenda mun stunda nám í forritun í vetur. Námskeið verða í boði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og kenndur verður áfangi í ferðamálafræðum á vegum Háskóla Íslands. Þá er og unnið að undirbúningi samstarfs við Kennaraháskóla Íslands.

Óðinn Gunnar segir að auk þess verði áfram í boði fullorðinsfræðsludeilda framhaldsskólanna ýmis námskeið, m.a. leiðsögunám. Á vegum Farskóla Austurlands verða einnig fjölmörg styttri og lengri námskeið, ma. fyrir sjúkraliða, íslenska fyrir útlendinga og námskeið fyrir starfsmenn í málmiðnaði.

Óðinn Gunnar telur fræðslunetið, sem miðstöð símenntunar og náms á háskólastigi í fjórðungnum, geta orðið mikilvægan hlekk til að tengja saman menntun, atvinnulíf og byggð á Austurlandi. Þessir þættir mynda órofa heild og verður að hugsa þannig ef vænta á jákvæðrar byggðaþróunar á Austurlandi í framtíðinni. Morgunblaðið/Anna Ingólfs ÓÐINN Gunnar Óðinsson, starfsmaður háskólanefndar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.