VIÐRÆÐUR við sænska SE bankann leiddu til þess að mun meiri áhugi og samkeppni kom upp á yfirborðið og komið hefur í ljós að bankarnir eru verðmætir, segir Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins. "Það hefur komið í ljós að þessar fjármálastofnanir eru verðmætar, ekki síst vegna þess að þar er hægt að koma á mikilli hagræðingu.
Halldór Ásgrímsson

Viðræður við SE bankann voru mjög áhugavekjandi

VIÐRÆÐUR við sænska SE bankann leiddu til þess að mun meiri áhugi og samkeppni kom upp á yfirborðið og komið hefur í ljós að bankarnir eru verðmætir, segir Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins.

"Það hefur komið í ljós að þessar fjármálastofnanir eru verðmætar, ekki síst vegna þess að þar er hægt að koma á mikilli hagræðingu. Hér er hins vegar um flókið mál að ræða sem tekur nokkurn tíma. Þetta er eðlilegt annað skref á þessu ferli en það hefur ekki orðið nein stefnubreyting heldur erum við í reynd að gera okkur grein fyrir því að við þurfum nokkurn tíma í málið," segir Halldór um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leita ekki eftir heimildum Alþingis á sölu á Landsbankanum og Búnaðarbanka á komandi löggjafarþingi.

Halldór segir að með EES- samningnum hafi íslenskur fjármagnsmarkaður verið opnaður og erlendar fjármálastofnanir hafi verið að koma inn á þann markað í litlum mæli og að þær muni koma inn í meira mæli. "Það er mín skoðun að sem mest af fjármálalífinu hér eigi að vera í höndum Íslendinga. En þó að ríkið selji innlendum aðilum þá er það engin trygging fyrir því að erlendir komi ekki hér að. Ef ríkið selur hluta Landsbankans eða Búnaðarbankans til innlends aðila þá getur hann selt erlendum aðila daginn eftir og þess vegna þurfum við að átta okkur á þessu umhverfi. Ég er þeirrar skoðunar að það geti skapað betri samkeppnisskilyrði að hér sé inni á markaðnum fjármálastofnun með mikla alþjóðlega reynslu og þekkingu og það geti stuðlað að verulegri lækkun á fjármagnskostnaði," segir Halldór.

Hann segist ekki útiloka það að farið verði að nýju í viðræður við SE-bankann að loknum kosningum en það sé þeirra aðila sem þá taka við landsstjórninni að taka ákvörðun um framhaldið og mikilvægt sé að ná pólitískri samstöðu um það.

"Það er okkar skylda að vinna að því að fjármagnskostnaður verði hér sem lægstur þannig að íslenskt atvinnulíf sé samkeppnisfært og fjármagnskostnaður almennings lækki. Það er jafnframt okkar skylda að ná sem hæstu verði fyrir eignir ríkisins. Mér er það alveg ljóst að ýmsir hafa haft hugmyndir um það að kaupa þessar eignir fyrir mjög lágt verð og það kemur ekki til greina," segir formaður Framsóknarflokksins.

Þegar Halldór er spurður að því hvort hann sjái fyrir sér að ríkið fái arð af eign sinni í bönkunum í framtíðinni, segir hann að það sé alveg ljóst að ef ríkið geti selt þessar eignir fyrir tugi milljarða þá verði hægt að nota þá fjármuni í að greiða niður erlendar skuldir. "Þar með mun fjármagnskostnaður ríkisins lækka verulega og þar með skapast svigrúm til þess að sinna viðfangsefnum á sviði félagsmála svo dæmi sé tekið eða lækka skatta. Þannig að það er enginn vafi á því að við erum að skapa grundvöll til þess að þessar eignir fari að skila miklum arði sem þær hafa því miður ekki gert fram að þessu. Hins vegar má segja að arðurinn liggi í verulegri eignamyndun sem hefur átt sér stað," segir Halldór Ásgrímsson.