MINNSTU munaði að stórslys yrði þegar mæðgur á leið frá Patreksfirði til Akraness misstu bíl sinn út af veginum skammt frá Skálanesi í Barðastrandarsýslu síðdegis í gær. Kona, sem bílnum ók, reyndi að forðast að aka á lamb sem hljóp fyrir bílinn og missti hann við það út í lausamöl.
Litlu munaði að bíll með mæðgum hrapaði 30­40 m í fjallshlíð Bíllinn hékk í grjóti utan í hlíðinni

MINNSTU munaði að stórslys yrði þegar mæðgur á leið frá Patreksfirði til Akraness misstu bíl sinn út af veginum skammt frá Skálanesi í Barðastrandarsýslu síðdegis í gær.

Kona, sem bílnum ók, reyndi að forðast að aka á lamb sem hljóp fyrir bílinn og missti hann við það út í lausamöl. Bíllinn fór út af veginum í brattri hlíðinni og rann niður um þrjá metra þar til hægra framhjól hans stöðvaðist á stórum steini. Ingibjörg Guðmundsdóttir, sem kom að slysstaðnum, segir að 30­40 metra fall sé þarna niður og taldi hún víst að illa hefði farið hefði bíllinn ekki stöðvast á steininum.

Mæðgurnar sátu kyrrar í bílnum í á aðra klukkustund meðan þær biðu eftir aðstoð. Vegfarendur, sem sáu hvers kyns var, leituðu aðstoðar veghefilsstjóra, sem var við vinnu sína á þessum slóðum. Komið var böndum á bílinn og þau fest í veghefilinn og að því búnu skriðu mæðgurnar ómeiddar en skelkaðar út úr bílnum og upp hlíðina. Vegheflinum og tveimur dráttarvélum tókst síðan að draga bílinn aftur upp á veginn.

Þorðu ekki að hreyfa sig í bílnum

"Mæðgurnar voru nýkomnar út úr bílnum þegar við komum að," segir Ingibjörg. "Það var í raun ógnvænlegt að sjá hvernig bíllinn hékk utan í hlíðinni og 30­40 metrum neðar var stórgrýti sem bíllinn hefði lent á. Það er ekki spurning að þarna hefði getað orðið stórslys ef ekki dauðaslys. Mæðgurnar þorðu ekki að hreyfa sig út úr bílnum fyrr en komið hafði verið böndum á hann og veghefilinn," sagði Ingibjörg.

Bíll mæðgnanna reyndist í ökuhæfu ástandi og héldu þær áfram leið sinni til Akraness að hildarleiknum loknum.

Morgunblaðið/Ingibjörg Guðmundsdóttir

AÐSTÆÐUR voru hrikalegar þar sem bílinn hafði skorðast utan við veginn. Vegfarendur komu böndum á bílinn.