Það sem skrifað hefur verið um menningarnótt í Reykjavík bendir til þess að kynleg blanda hafi verið þar á ferðinni og ber vissulega að lofa fjölbreytni. Ljóðalestur eða flutningur út um alla borg, hús, götur og hólma, mun hafa verið með ýmsu sniði. Sumt var háalvarlegt, annað gamanmál af ýmsu tagi.
Kynleg blanda

"Lesarar og skáld eru vitanlega í eins konar keppni um athygli, sérstaklega gagnvart öðrum og heimtufrekari miðlum. Til þess að laða að áheyrendur þarf nú orðið að bjóða upp á eitthvað krassandi."

Það sem skrifað hefur verið um menningarnótt í Reykjavík bendir til þess að kynleg blanda hafi verið þar á ferðinni og ber vissulega að lofa fjölbreytni. Ljóðalestur eða flutningur út um alla borg, hús, götur og hólma, mun hafa verið með ýmsu sniði. Sumt var háalvarlegt, annað gamanmál af ýmsu tagi. Blaðamanni Morgunblaðsins, Geir Svanssyni, þykir nóg um "fyndnina" í skáldskapnum þótt hann kvarti ekki beinlínis yfir henni. Hann skrifar: "Ljóðið er sannarlega ekki dautt ef dæma má af aðsókninni í Iðnó. Það var troðið út úr dyrum, sérstaklega seinni hlutann, og komust færri að en vildu. Það var hins vegar áberandi hvað hefðin lék stórt hlutverk og lítið um nýstárlegan skáldskap. Ung skáld fá og þau þeirra sem stigu á stokk virðast leggja mest upp úr orðhnyttni og orðaleikjum en margt gott inni á milli."

Lesarar og skáld eru vitanlega í eins konar keppni um athygli, sérstaklega gagnvart öðrum og heimtufrekari miðlum, en jafnvel innbyrðis. Til þess að laða að áheyrendur þarf nú orðið að bjóða upp á eitthvað krassandi. Ljóðalestur með venjulega laginu virðist ekki lengur henta.

Aftur á móti virðist um einhvers konar afturhvarf til fortíðar að ræða því að forn ljóð og gömul hljóma jafnt og ný. Kveðnar eru rímur og ljóð þjóðskálda flutt. Glíma er endurvakin og margt fleira mætti nefna.

Vonandi er þetta allt dæmi um grósku, pott sem enn kraumar í og úr getur komið bragðmikil súpa. Taka má þó undir með blaðamanni sem efast um að mikið gerist við að fylgja forskriftum um "allsherjar afturhvarf í rímaðan og þrælbundinn kveðskap".

Dagur ljóðsins var eitt sinn haldinn hátíðlegur á Íslandi, en náði ekki að festa rætur. Aftur á móti er hann orðinn árviss á Englandi. Þar nefnist hann National Poetry Day og er bundinn við 8. október, en ljóðaveisla stendur áfram í heila viku.

Bókablað Times (TLS) sagði frá væntanlegri dagskrá nýlega. Ljóð verða lesin, verðlaun afhent, loftbelgir flytja með sér ljóð og margt annað verður gert til tilbreytingar. Lárviðarskáldið Ted Hughes flytur ljóð í Þjóðleikhúsinu ásamt "lárviðarskáldi fólksins" Andrew Motion (sem ort hefur minningarljóð um Díönu), Glyn Maxwell (hann hefur skrifað óvenjulega bók um Íslandsför), Matthew Sweeney og John Agard.

Blaðið heldur upptalningunni áfram og er þá fátt eitt nefnt: Hinir óstöðvand skipuleggjendur, Poetry Society og Forward- útgáfan, pakka þriggja hæða húsi í Portsmouth inn í umbúðir með ljóðum; hnattlaga ljóðafesti er framlag skólabarna í Kirklees; ljóðaflutningur setur svip á Lancaster; vatnsheld ljóðaspjöld fljóta í sundlaug í Bristol; ljóð verða á gangstéttum aðalgatna og kráarveggjum og ljóð afhendast fólki í stórmörkuðum og á torgum. Alls staðar verða ljóð og ljóðabækur til sölu. Fangar og sjúklingar fá aftur á móti ókeypis eintök af The Forward Book of Poetry.

Faber and Faber gaf síðast út ritið Poetry Indroduction 1993, en þar birtust ljóð eftir skáld sem eru orðin mjög kunn nú, meðal þeirra Paul Muldoon, Craig Raine, Tom Paulin og Douglas Dunn. Nýtt rit er í bígerð og kemur fyrsta tölublað út 8. október, First Pressings heitir það og mun koma árlega. Í Poetry Indroduction voru kynnt fimm til sex skáld, en nú eiga skáldin að vera tuttugu og þrjú og hafa ljóð flestra þeirra ekki verið prentuð í bókum áður. Ljóðin skilgreinir útgáfustjórinn, Brackstone, með þeim hætti að þau séu skemmtileg, alvarleg, metnaðarfull, hnitmiðuð, útleitin, óskammfeilin, indæl og hugmyndarík eða eitthvað á þá leið.

Ekki veit ég hvaða lærdóma má draga af þessu, en það hlýtur að vera vandasamt að koma til móts við allar þessar kröfur í senn.

Sum skáld hafa komist á metsölulista á Englandi, ekki síst lárviðarskáldið Ted Hughes. Bók hans, Birthday Letters sem er að mestu um hjónaband hans og skáldkonunnar Sylvíu Plath hefur verið ofarlega á listum og einnig þýðing hans á rómverska skáldinu Óvid: Tales from Ovid. Nóbelsskáldið Seamus Heaney getur heldur ekki kvartað yfir dræmri sölu bóka sinna.

Bent hefur verið á hér heima að þrátt fyrir mikinn áhuga fólks á samkomum með ljóðaflutningi seljist ljóðabækur illa, bækur þekktra skálda jafnvel í smáu upplagi. Þetta er umhugsunarvert.

Glæðist sala ljóðabóka eftir viðburði eins og menningarnótt í Reykjavík er það af hinu góða. Sá grunur vaknar hins vegar að þau skáld sem minnst heyrist í verði undir. Nýjung var á menningarnótt að mæla vinsældir skálda eftir klappi og er það út af fyrir sig sniðugt þótt það sé ekki trygging fyrir því að bestu ljóðin fái mest klapp. Kannski þau fyndnustu, þau sem með ísmeygilegustum hætti geta fengið fólk til að hlæja, að minnsta kosti brosa? Svo getur farið að "alvarleg" ljóð verði með þessum hætti gerð brottræk og galgopar hrósi sigri. Það skal tekið fram að ég hef ekki vinningshafann, Harald Jónsson, í huga, hef lesið eftir hann athyglisverðan skáldskap af tilraunatagi.

"Bröltið" á menningarnótt, það sem hefur eingöngu á sér svipmót fjöldamenningar, er mjög ólíklegt til að miðla skáldskap, en vera má að hér sé fundin rétt aðferð í eitt skipti fyrir öll til að koma ljóðinu út til fólksins.

VIÐHORF Eftir Jóhann Hjálmarsson