Three Lions, fótboltaleikur fyrir PlayStation frá Take 2 og Z-Axis. FÓTBOLTALEIKURINN Three Lions var gefinn út nýlega af leikjafyrirtækjunum Take 2 og Z-Axis, Three Lions er leikur þar sem aðeins er hægt að velja landslið landa en ekki innandeildar lið.
Frábær landsliðsleikur LEIKUR Three Lions, fótboltaleikur fyrir PlayStation frá Take 2 og Z-Axis. FÓTBOLTALEIKURINN Three Lions var gefinn út nýlega af leikjafyrirtækjunum Take 2 og Z-Axis, Three Lions er leikur þar sem aðeins er hægt að velja landslið landa en ekki innandeildar lið. Eins og í flestum nýjum fótboltaleikjum eru raunveruleg nöfn leikmanna ekki gefin upp, Ronaldo er til dæmis Lorando, Leonardo er Da Vinci og svo framvegis. Fljótt lærist manni þó að þekkja leikmenn liðanna eftir útliti eða með því að ráða úr nöfnunum. Three Lions er með framúrskarandi gervigreindarkerfi og eflaust með því besta sem sést hefur í fótboltaleik. Leikmenn andstæðingsins eru aldrei fyrirsjáanlegir eins og ætti að vera í fótboltaleikjum. Það er ekki mjög skemmtilegt að vita að ef maður hleypur alltaf einhverja ákveðna leið þá skorar maður alltaf pottþétt eins hægt er í næstum öllum FIFA-leikjunum. Upplausn leiksins er með afbrigðum góð og þótt þú veljir myndavélasjónarhornið sem er alveg upp við boltann þá sést enginn galli á leikmönnum né umhverfi, sem er skemmtileg tilbreyting frá FIFA. Þemað í leiknum er greinilega heimsmeistarakeppnin frá því fyrr í sumar og er því spurning hvort ekki hefði átt að gefa leikinn út fyrr í sumar, í byrjun hvers leiks sjást liðin jafnvel stilla sér upp í myndatöku. Ef leikur endar á jafntefli er hægt að velja um hvort þú viljir framlengingu, bráðabana eða vítaspyrnukeppni. Þetta er reyndar aðeins hægt í tveggja manna leikjum. Þegar allt er talið er Three Lions líklega besti leikjatölvufótboltaleikur ársins. Ingvi M. Árnason