Á FYRSTU sex mánuðum líðandi árs fjölgaði fólki á höfuðborgarsvæðinu um 723, að því er segir í Kópavogspóstinum. Þar af fjölgaði Kópavogsbúum um 528, þ.e. 75% aukningarinnar. Átta um hverja eina
»Flestir velja Kópavog

Á FYRSTU sex mánuðum líðandi árs fjölgaði fólki á höfuðborgarsvæðinu um 723, að því er segir í Kópavogspóstinum. Þar af fjölgaði Kópavogsbúum um 528, þ.e. 75% aukningarinnar.

Átta um hverja eina

ÚR Kópavogspóstinum:

"Vinsældir Kópavogs fara stöðugt vaxandi ef marka má mannfjöldatölur fyrstu sex mánuði ársins. Alls fluttu 723 til höfuðborgarsvæðisins, en af þeim voru 528 sem völdu Kópavog eða nær 75%. Þessar tölur segja meira er mörg orð. Auk þess má nefna að auglýstar voru lóðir undir ríflega 200 íbúðir í Lindahverfinu á dögunum og alls bárust liðlega 1.600 umsóknir, eða 8 um hverja íbúð. Íbúar Kópavogs munu að öllu óbreyttu verða ríflega 21.000 talsins í lok ársins og er Kópavogur annað stærsta sveitarfélags landsins á eftir Reykjavík ..."

Risastórt verzlunarhús

"SIGURÐUR Geirdal bæjarstjóri segir í samtali við Kópavogspóstinn að uppbyggingin undanfarin ár hafi verið mun meiri en bjartsýnustu menn hefðu þorað að vona. Ekki einvörðungu í íbúðabyggingu heldur væri uppbygging atvinnuhúsnæðis á fljúgandi ferð. Nægir þar að nefna verzlunar- og þjónustumiðstöðina við Smáratorg, uppbygginguna við Dalveginn og síðan Hlíðarsmárann þar sem húsin rísa hvert af öðru. Þá eru framkvæmdir við nýju "Kringluna" Smáralind hafnar, er þar muna rísa verzlunar- og skrifstofuhús sem er talsvert stærra en Kringlan sem við þekkjum í Reykjavík ..."

Vel á haldið

"INNAN 2-3ja ára verða risnir liðlega 100.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði í Smárahvammslandinu og áætlanir gera ráð fyrir að allt að 2.000 manns muni starfa hjá fyrirtækjum sem þar verða staðsett. Full ástæða er til að hrósa bæjaryfirvöldum í Kópavogi fyrir hversu vel hefur verið staðið að allri uppbyggingu, ólíkt því sem var hér á árum áður. Götur fullbyggðar, byggðir leikskólar og skólar til að anna þörfinni og göngustígar og útivistarsvæði hafa verið gerð mjög smekklega ..."