NÚTÍMASJÚKDÓMAR eins og hjartabilun, veirusýkingar og krabbamein eru meðal dánarmeina fornmanna að því er fram kemur í bók Sigurðar Samúelssonar, prófessors og fyrrverandi yfirlæknis við lyflækningadeild Landspítalans, en hún kemur út hjá Háskólaútgáfunni í næsta mánuði.
Ný bók um dánarmein fornmanna eftir Sigurð Samúelsson prófessor væntanleg

Sýklar og veirur jafngamlar landnámsmönnum

NÚTÍMASJÚKDÓMAR eins og hjartabilun, veirusýkingar og krabbamein eru meðal dánarmeina fornmanna að því er fram kemur í bók Sigurðar Samúelssonar, prófessors og fyrrverandi yfirlæknis við lyflækningadeild Landspítalans, en hún kemur út hjá Háskólaútgáfunni í næsta mánuði.

Bókin, sem fengið hefur nafnið Sjúkdómar og dánarmein íslenskra fornmanna, er afrakstur 35 ára rannsókna Sigurðar á dauðsföllum í íslensku fornsögunum og segir hann að niðurstöðurnar hafi komið sér á óvart. Aðalmunurinn á sjúkdómum sem hrjái nútímasamfélag og það sem var á þeim tíma séu ýmsar landfarsóttir sem nú sé komin lækning við, flestir aðrir sjúkdómar hafi verið hér frá landnámi.

Þekktu hlutverk hjartans

Bókin er alls um 250 síður og skiptist hún í 21 kafla þar sem fjallað er um mismunandi sjúkdómsflokka. Einn af meginköflunum fjallar um blóðrásar- og æðakölkunarsjúkdóma og telur Sigurður að fornmönnum hafi verið vel ljóst hlutverk hjarta og blóðrásar löngu áður en breski læknirinn Harvey hafi staðfest það árið 1628. Sem dæmi um þetta nefnir hann lýsingar Snorra Sturlusonar í Eddu þar sem segir, "að jafnt sé til blóðs í höndum og fótum," en þar hafi Snorri sýnt grunnþekkingu á virkni hjartans og tilgangi þess. Þá telur hann að færa megi rök að því að þá þekkingu sem þeir bjuggu yfir hafi þeir öðlast í bardögum þar sem til dæmis opin sár sem ná til slagæða hafi gefið þeim hugmynd um hlutverk æðakerfisins.

Dýr myndi Hafliði allur

Auk þess að rannsaka sjúkdóma og dánarmein athugaði Sigurður ýmsa áverka vegna óhappa eða vopnaskaks og í einu tilfelli kannaði hann núvirði sektarfjár sem greitt var í kjölfar áverka sem hlutust af viðskiptum höfðingjanna Þorgils Oddssonar og Hafliða Mássonar á Alþingi árið 1120. Tildrög málsins voru þau að Þorgils hjó til Hafliða þannig að af tók löngutöng, auk þess sem fremsti köggull baugfingurs og litlafingurs fóru af. Fyrir þetta greiddi Þorgils Hafliða bætur sem og gaf gjafir sem eru að mati Sigurðar um 30 milljónir króna að núvirði. Til viðmiðunar bendir hann á í bók sinni að með núgildandi mati Tryggingastofnunar yrði örorkan metin til 15% eða sem eingreiðsla upp á 300.000 þúsund krónur.

Fjölmargir sjaldgæfir sjúkdómar

Einkenni sem tengjast fremur sjaldgæfum sjúkdómum var einnig að finna í fornsögunum. Þar má nefna heila- og mænusigg eða MS sem og mænu- og heilahrörnun og einnig heilakveisukast (mígreni) sem lýst er hjá Guðmundi biskupi góða Arasyni og samkvæmt heimildum er sagt að móðir hans hafi verið haldin sama kvilla. Þá fann Sigurður fimm tilfelli sem flokka má til nýrnasteinakasts, auk nokkurra dæma um innvortis blæðingar og garnastíflu. Krabbamein var einnig þekkt á þessum tíma og telur Sigurður að höfðingi á Vestfjörðum sem sótti veislu á Reykhólum árið 1119 hafi verið með einkenni magakrabba.

Síðasti kafli bókarinnar fjallar um Guðmund góða biskup en lítið hefur verið skrifað um læknisstörf hans. Þar kemur fram að þau hafi byggst eingöngu á andlegum lækningum auk þess sem hann naut góðs af vinskap sínum við Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri (Hrafnseyri) sem talið er að hafi verið fyrsti lærði læknir landsins.

Sigurður vill taka fram að sjúkdómsgreiningarnar hafi oft verið vafa undirorpnar og komi þar helst til frásagnarstíll í fornritunum sem oft sé knappur og afskorinn. Því hafi hann leitað til starfsbræðra sinna í ýmsum sérgreinum sem og kennara við læknadeild Háskólans sér til fulltingis og kann hann þeim bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Morgunblaðið/Þorkell SIGURÐUR Samúelsson prófessor.