ÍBLÖNDUHLÍÐ í Skagafirði bar so til, að presturinn til Miklabæjar síra Oddur Gíslason embættaði á sinni annexíu Silfrastöðum þann ... sunnudag e(ftir) trinitatis og reið þaðan eftir messu heimleiðis, kom að Víðivöllum, dvaldi þar stund um kveldið.
OG HEFUR SÍÐAN EKKI

SÉZT EÐUR FUNDIZT

Þjóðleikhúsið frumsýnir í október nýtt leikrit eftir Ragnar Arnalds sem fjallar um séra Odd Gíslason á Miklabæ í Blönduhlíð og ráðskonu hans Solveigu. Er saga þeirra kunn úr þjóðsögunum. Af þessu tilefni fór leikhópurinn og aðrir aðstandendur sýningarinnar í vettvangsleiðangur norður í Skagafjörð í vikunni. ORRI PÁLL ORMARSSON blaðamaður og GOLLI ljósmyndari slógust með í för.

ÍBLÖNDUHLÍÐ í Skagafirði bar so til, að presturinn til Miklabæjar síra Oddur Gíslason embættaði á sinni annexíu Silfrastöðum þann ... sunnudag e(ftir) trinitatis og reið þaðan eftir messu heimleiðis, kom að Víðivöllum, dvaldi þar stund um kveldið. Fylgdi sýslumaður hönum lítið hreyfðum af víni á hest og bauð fylgd, hverri prestur synjaði vegna so stutts vegar. Reið hann á stað og hefur síðan ekki sézt eður fundizt. En hestur hans með reiðtygjum stóð morgninum eftir óskemmdur á hlaðinu á Miklabæ. Strax upp á ferskan gjörning var prests leitað, fyrst af 50, síðan af 100 manns, og fóru þeir jafnnær heim aftur og fundu ei líkur til prests. Gjörðust ýmislegar meiningar um þennan merkilega tilburð. Mundi flestra meining falla þangað, að ráðskona prests, sem nokkrum árum áður varð óð og fyrirfór sér, mundi hafa ollað hans hvarfi fyrir það hann neitaði henni kirkjugarðsgreftran, hverrar hún mjög so óskað hafði."

Þannig greinir Jón sýslumaður Sveinsson á Eskifirði frá hvarfi séra Odds Gíslasonar haustið 1786 í Viðauka Íslands árbókar. Eru til margar frásagnir af atburði þessum og þótt blærinn sé mismunandi er í þeim sameiginlegur kjarni. Ekki er afturgöngunnar, Solveigar, þó alls staðar getið. Ýmis munnmæli hafa síðan blandast saman við söguna og smám saman sveigt atburðarásina undir lögmál þjóðsögunnar. Sækir hún afl sitt til þeirrar ógnar, sem dulúð atvikanna skóp og þeirrar mögnuðu trúar, sem fólk hafði á afturgöngu Miklabæjar-Solveigar. Með dauða sínum gekkst hún því illa á vald, fordæmd sál að mati samtíðarinnar.

Séra Oddur var ókvæntur er hann tók við Miklabæ vorið 1768 en Solveig réð innan stokks. Árið 1777 var hnappheldan lögð á klerk ­ gekk hann að eiga Guðrúnu Jónsdóttur frá Goðdölum. Vék Solveig þá úr húsmóðurhlutverkinu en varð um kyrrt á Miklabæ. Tók hún fásinni mikið, samkvæmt sögnum, enda talið að hún hafi haft mikla ást á Oddi. 11. apríl 1778 svipti Solveig sig lífi með því að skera sig á háls. Hafði hún þá ítrekað reynt að fyrirfara sér, meðal annars með því að drekkja sér í pytt einum í Gegni ­ heitir hann síðan Solkupyttur. Hermir fjöldi sagna að Solveig hafi gengið aftur og sótt að Oddi þegar hann var einn á ferð. Segja sumir það hafa stafað af því að klerkur endurgalt ekki ást hennar en aðrir vegna þess að hann kom í veg fyrir að hún yrði lögð í vígða mold. Hið sanna veit enginn!

Leiðangur um söguslóðir

Við þessa sögu glímir Ragnar Arnalds rithöfundur og alþingismaður í leikriti sínu sem frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu í október í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar. Af því tilefni fór höfundur ásamt leikhópnum og öðrum aðstandendum sýningarinnar í leiðangur um slóðir Odds og Solveigar í vikunni.

Lagt er upp frá Varmahlíð, þar sem Ragnar er búsettur, í blíðskaparveðri og haldið sem leið liggur yfir Héraðsvötn að Miklabæ, þar sem Agnar Halldór Gunnarsson bóndi og eiginmaður séra Döllu Þórðardóttur sóknarprests tekur á móti mannskapnum á hlaðinu. Prestur slæst síðar í hópinn.

Ragnar og Agnar reifa ýmsar getgátur um hvarf séra Odds en auðheyrt er á hópnum að flestir eru á því að afturganga Solveigar hafi tortímt guðsmanninum með því að draga hann ofan í Solkupytt. Leikskáldið veltir vöngum en tekur ekki afstöðu í umræðunni. Fróðlegt verður því að sjá hvernig það leiðir málið til lykta í leiknum.

Frá hlaðinu á Miklabæ sjást Víðivellir án vandkvæða. Sætir þetta furðu hjá leikhópnum. "Þetta er þá ekki lengra," heyrist sagt. Nei, það er nefnilega ekki lengra á milli bæjanna en stekkjarvegur, sem svo var kallaður. Hvernig gat maðurinn þá horfið á þessari stuttu leið?

Í kirkjugarðinum á Miklabæ sýnir Agnar bóndi hópnum hvar líklegt sé að jarðneskar leifar Solveigar hafi legið áður en þær voru grafnar upp og lagðar í vígða mold í Glaumbæ. Legstæðið er í kirkjugarðinum miðjum nú en var utan hans á sínum tíma, eins og siður var ef fólk féll fyrir eigin hendi. Vigdís Gunnarsdóttir, sem leika mun Solveigu í sýningunni, bregður á leik með því að leggjast í grasið þar sem ráðskonubeinin voru grafin úr jörð.

Því næst er við hæfi að halda niður að Solkupytt. Þjóðleikhúsmenn vilja ólmir ganga og teygja skankana enda nýkomnir á bíl að sunnan. Agnar leiðsögumaður fellst á það. "Þetta er svona tíu mínútna labb," segir hann og sveitin arkar af stað.

Ekki byrjar það þó vel. Sigurður Skúlason leikari vippar sér að vísu fimlega yfir fyrstu rafmagnsgirðinguna en lendir beint ofan í kúadellu. Oj, bara! "Siggi, hvað ertu búinn að næla þér í þarna?" spyr Gretar Reynisson leikmyndahönnuður skömmu síðar. "Kúadellu," svarar Sigurður að bragði. "Ég tek hana með mér suður." Gaman verður að sjá hvort Gretar finnur dellunni rými á sviðinu!

"Tíu mínúturnar" verða fimmtán og svo tuttugu en þá hætta menn að telja enda eiga þeir fullt í fangi með að fóta sig í forinni meðfram síkinu Gegni, þessum gamla farvegi Héraðsvatna. Tíminn er líka svo afstæður í sveitinni! "Æ, þar fóru skórnir," segir Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir leikkona mæðulega eftir að hafa veðjað á vitlausa leið. "Voru hætt komin!" gellur í stöllu hennar, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, þegar hún hoppar af einni þúfunni yfir á aðra og sér fyrir sér væntanlega yfirskrift ferðasögunnar í Morgunblaðinu. Starfsbróðir þeirra, Hjalti Rögnvaldsson, hefur aftur á móti gaman af öllu saman og segir nýja íþróttagrein hafa litið dagsins ljós ­ leikarahopp. Blaðamaður gerir ráð fyrir að hart verði barist um hlutverk Skippýjar rati hún einhvern tíma á fjalir Þjóðleikhússins.

Þarna er einn!

Leiðin liggur fram hjá fjölda pytta og alltaf er svar Agnars bónda á sömu leið: "Við erum alveg að koma!" Ljósmyndari Morgunblaðsins og Þröstur Leó Gunnarsson, sem fara mun með hlutverk Odds í leikritinu, láta sér fátt um finnast og hefja óformlega rannsókn á fiskgengd í Gegni. Tekur sá síðarnefndi hlutverkið alvarlega, eins og hans er von og vísa, og hleypir á skeið meðfram bakkanum. "Þarna er einn," hrópar hann. Sigurður Skúlason kemur auga á annan en Gretar leikmyndahönnuður verður ekki var, þótt hann sé allur af vilja gerður.

Þá birtist hann loksins ­ Solkupyttur. Djúpur er hann! Loftbólur stíga bersýnilega upp á yfirborðið og vekja grunnsemdir. "Oddur minn, heyrðirðu til mín?" spyr Vigdís Gunnarsdóttir. Ekkert svar!

Því næst tylla menn sér á bakkann, hvíla lúin bein og draga djúpt andann. Sagan verður áþreifanleg. "Hérna gerðist þetta þá," heyrist sagt en Ragnar leikskáld gerist á ný talsmaður efans: "Það vitum við ekki fyrir víst!" Mikið er myndað á þessum sögufræga stað, sem von er, og hefur ljósmyndari Morgunblaðsins vart undan að taka við myndavélum af öllum stærðum og gerðum.

Agnar bóndi velur auðveldari leið til baka og senn er sveitin komin í bílana. Agnar og séra Dalla eru kvödd með virktum og óska þau hópnum góðs gengis.

Næsti áningarstaður er Silfrastaðir, þar sem séra Oddur söng sína síðustu messu. Þar er gerður stuttur stans enda farið að rigna og kirkjan sem klerkur predikaði í löngu horfin af sjónarsviðinu. Nýja kirkjan, sem reyndar er orðin 102 ára gömul, vekur þó umtalsverða hrifningu. En ekki fyrir stærð. "Ég get mér þess til að hér hafi sjaldan verið fjölmennt í messu," segir Pálmi Gestsson leikari sem nánast getur teygt sig enda á milli. "Jæja, þá ríðum við heim til Hóla," segir Þórhallur leikstjóri og smalar sínu fólki inn í bíl.

Á Hólum í Hjaltadal bjó séra Oddur um tíma en faðir hans, Gísli Magnússon, var þar biskup. Lét hann reisa Hóladómkirkju og er hún eina mannvirkið, sem verður á vegi ferðalanga, sem séra Oddur hefur komið í um sína daga. Þykir fullvíst að hann hafi predikað í kirkjunni.

Jón Bjarnason skólastjóri tekur á móti mannskapnum á Hólum og býður í kaffi í matsal. Segir hann sögu staðarins í stuttu máli og margs er að spyrja. "Hvaða stíll er það, að hafa kirkjuturninn úti á hlaði," leikur Pálma Gestssyni forvitni á að vita. Fær hann þau svör að hann hafi verið reistur sem minnismerki um Jón Arason árið 1950, á 400 ára dánarafmæli biskups. Að öðru leyti kemur bygging kirkjunnar ekki við þessa sögu.

Það er kominn gestur!

Í miðri tölu rýkur Jón skólastjóri skyndilega upp til handa og fóta og biður leikhúsmenn að hafa sig afsakaðan. "Það er kominn gestur!" Gestur þessi reynist vera sjálfur forsætisráðherrann, Davíð Oddsson, sem kominn er að Hólum ásamt kanadísku fyrirmenni. Ákveður hópurinn að troða þeim ekki um tær og heldur áleiðis niður í kirkju. Á leiðinni er kveðju kastað á forsætisráðherra og þeir Ragnar leikskáld taka tal saman enda vinnufélagar á hinu háa alþingi. Enginn heyrir hvað þeim fer á milli en Lilja Guðrún gerir því skóna að Davíð sé að biðja um hlutverk í leikritinu. Sá er þá fylginn sér ­ kominn alla leið norður í Hjaltadal til að sauma að höfundi!

Í kirkjunni tekur Jón skólastjóri upp þráðinn og í máli hans kemur meðal annars fram að ákaflega lítið hafi breyst þar frá dögum Odds. Er hann spurður spjörunum úr og berst talið að drykkjusiðum þeirra feðga, Odds og Gísla, enda getgátur um að sá fyrrnefndi hafi verið við öl þegar hann fór frá Víðivöllum kvöldið örlagaríka. Segir Ragnar að heimildum beri saman um að Gísli hafi að minnsta kosti verið veikur fyrir víni. Þykir Jóni skólastjóra það heldur vægt að orði kveðið: "Það má eiginlega segja að hann hafi verið drykkjusjúkur!" Mikið var drukkið á Hólum í þá daga og segir sagan að Gísli biskup hafi þurft að skenkja verkamönnunum, sem reistu kirkjuna, vel af víni ­ bara til að koma þeim að verki.

Frá Hólum liggur leiðin í Glaumbæ á Langholti, þar sem Solveig hvílir. Þar er einnig grafinn Gísli, sonur séra Odds og Guðrúnar. Í sumum heimildum er þess getið að Gísli þessi, þá barn að aldri, hafi verið sendur af stað er móðir hans taldi séra Odd vera að knýja dyra hina afdrifaríku nótt. Snáðinn var aftur á móti myrkfælinn og sneri við. "Það var eins gott að hann fór ekki til dyra," segir Ólafía Hrönn, nýbúin að heyra að Gísli muni vera ættfaðir þúsund Skagfirðinga.

Leiði Solveigar er látlaust en yfir því dulúð, sem erfitt er að lýsa með orðum. Fer vel á því enda mun þessi huldukona, örlög hennar og afdif, halda áfram að valda Skagfirðingum og Íslendingum öllum heilabrotum um ókomna tíð!

Nauðsynleg ferð

Ragnar Arnalds er ánægður að degi loknum. Segir að nauðsynlegt hafi verið að fá leikendur og aðstandendur sýningarinnar norður. Sjálfur þekkir hann söguslóðir eins og lófann á sér enda verið búsettur í Varmahlíð í áratugi. "Leikrit er auðvitað aldrei sagnfræði og nauðsynlegt fyrir höfunda að lyfta sér upp yfir sagnfræðilegar staðreyndir. Eigi að síður er þýðingarmikið að fólk skynji hinar sögulegu kringumstæður og vonandi á hópurinn eftir að búa að þessari heimsókn meðan á æfingum stendur."

Þórhallur Sigurðsson er að sama skapi sáttur við afrakstur dagsins. "Við komumst yfir allt sem við ætluðum okkur í þessari ferð. Það er alltaf gott að hafa raunveruleikann í sér, þó nauðsynlegt sé líka að komast frá honum, og þess vegna kusum við að gera þetta svona snemma á æfingaferlinu [á öðrum æfingadegi]. Hafa ber í huga að leikrit eru hvorki sagnfræði né túlkun á þjóðháttum og þess vegna er þetta fyrst og fremst til gamans gert ­ og þetta var svo sannarlega skemmtilegur dagur."

Aðalleikendurnir, Vigdís Gunnarsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson, eru á einu máli um að heimsóknin hafi verið vel heppnuð. Gaman hafi verið að skoða umhverfið sem var vettvangur þeirra atburða sem frá er greint í verkinu. Vigdís skoðaði sig reyndar um á þessum slóðum fyrr í sumar en Þröstur leó kveðst alltaf hafa "brunað hérna í gegn". "Fyrst umhverfið er til staðar væri fáranlegt að hafa ekki fært sér það í nyt," segir Vigdís. Afraksturinn kemur í ljós í Þjóðleikhúsinu innan fárra vikna.

Morgunblaðið/Golli VIGDÍS Gunnarsdóttir, sem leika mun Solveigu í leikritinu, bregður á leik í kirkjugarðinum á Miklabæ og leggst í grasið, þar sem talið er að jarðneskar leifar ráðskonunnar hafi verið grafnar úr jörð. Voru þær fluttar í kirkjugarðinn í Glaumbæ. Í bakgrunni mundar Gretar Reynisson leikmyndahönnuður myndavélina.

LEIKSKÁLDIÐ, Ragnar Arnalds, spjallar við Þjóðleikhúsmenn á hlaðinu á Miklabæ. Aðrir á myndinni eru leikararnir Þröstur Leó Gunnarsson, Sigurður Skúlason, Vigdís Gunnarsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson og Hjalti Rögnvaldsson, Þórhallur Sigurðsson leikstjóri, Gretar Reynisson leikmyndahönnuður og Pálmi Gestsson leikari.

HUGLEIÐING við Solkupytt. Týndi séra Oddur lífi þarna?

ÞRÖSTUR Leó, sem fara mun með hlutverk séra Odds, í Hóladómkirkju, þar sem fullvíst þykir að klerkur hafi predikað um sína daga hjá föður sínum , Gísla biskupi Magnússyni. Að baki Þresti eru Sigurður Skúlason, Pálmi Gestsson, Hjalti Rögnvaldsson og Ásdís Þórhallsdóttir aðstoðarleikstjóri.

HÉR HVÍLIR Solveig frá Miklabæ. Látlaus en dulúðugur legstaður í Glaumbæjarkirkjugarði. Ekki þótti við hæfi að jarðsetja Solveigu í kirkjugarðinum á Miklabæ.