Spurning: A: Af hverju stafar skortur í líkamanum á B-12 vítamíni? B: Hvað er það í B-12 vítamíni sem gerir það að verkum að það er bannað að selja það á Íslandi en hægt er að kaupa það í matvörubúðum í Bandaríkjunum? Getur verið hættulegt að taka það dags daglega? Svar: Skortur á B-12 vítamíni er sjaldgæfur og stafar sjaldnast af of litlu magni
Hvað gerir B-12 vítamín?

MAGNÚS JÓHANNSSON LÆKNIR SVARAR SPURNINGUM LESENDA

Spurning: A: Af hverju stafar skortur í líkamanum á B-12 vítamíni? B: Hvað er það í B-12 vítamíni sem gerir það að verkum að það er bannað að selja það á Íslandi en hægt er að kaupa það í matvörubúðum í Bandaríkjunum? Getur verið hættulegt að taka það dags daglega?

Svar: Skortur á B-12 vítamíni er sjaldgæfur og stafar sjaldnast af of litlu magni vítamínsins í fæðunni. Þeir sem borða eingöngu jurtafæði en engar afurðir af dýrum geta þó fengið of lítið af B-12 vítamíni vegna þess að það er aðallega að finna í afurðum dýra. Þeir sem lifa eingöngu á jurtafæði eða eru með mikla sérvisku í mataræði ættu að taka B-12 vítamín til að fyrirbyggja skort. Svipað gildir um áfengissjúklinga. Við fáum B-12 vítamín aðallega úr lifur, kjöti, eggjum, mjólk og mjólkurafurðum og fólk sem borðar holla og fjölbreytta fæðu fær meira en nóg af þessu vítamíni. Algengasta orsök fyrir skorti á B-12 vítamíni er ekki að of lítið sé af því í fæðunni heldur að líkaminn geti ekki nýtt það. Til að líkaminn geti nýtt B-12 vítamín á eðlilegan hátt þarf ýmislegt að koma til. Slímhúð magans þarf að starfa eðlilega og framleiða bæði magasýru og sérstakt prótein sem kallast innri þáttur B-12 vítamíns (intrinsic factor), briskirtill og þarmar þurfa einnig að vera í lagi. Nýting B-12 vítamíns úr fæðunni gerist á þann hátt að það binst við innri þáttinn og samtengd berast efnin út í blóðið. Ef innri þáttinn vantar getur líkaminn ekki nýtt B-12 vítamín úr fæðunni og svipað gerist oft ef magaslímhúðin getur ekki framleitt sýru. Þetta tvennt, sýruleysi og skortur á innri þætti, fara oft saman og hættan á slíku eykst með aldrinum. Þeir sem eru í mestri hættu að fá B-12 vítamínskort eru aldraðir, þeir sem hafa gengist undir stórar skurðaðgerðir á meltingarfærum, eru haldnir áfengissýki eða neyta eingöngu jurtafæðu. B-12 vítamín safnast fyrir í lifrinni og þar er verulegur forði sem getur enst mánuðum eða jafnvel árum saman. Talið er að lágmarksdagsþörf líkamans fyrir B-12 vítamín sé um 1 mg (míkrógramm, einn milljónasti úr grammi) en yfirleitt er mælt með að dagleg neysla sé 2-5 mg. Skortur á B-12 vítamíni hefur einkum skaðleg áhrif á rauð blóðkorn og taugar. Við skort fær sjúklingurinn sérstaka tegund blóðleysis (anemia perniciosa) og síðar fara að koma taugaskemmdir í úttaugakerfi, með m.a. dofa í höndum og fótum og miðtaugakerfi með minnisleysi og ýmsum öðrum geðrænum einkennum. Við gjöf á B-12 vítamíni (oftast er því sprautað reglulega í vöðva) lagast blóðleysið tiltölulega fljótt en taugaskemmdir ekki nema að litlu leyti. Þess vegna er mikilvægt að greina skort á B-12 vítamíni og hefja meðferð áður en taugakerfið fer að skemmast. Blóðleysi þarf alltaf að rannsaka vandlega til að finna orsakir þess. Skort er hægt að greina með mælingum á magni B-12 vítamíns í blóði og venjulega eru gerðar ýmsar aðrar rannsóknir til að staðfesta greininguna. Þeir sem greinast með skort á B-12 vítamíni þurfa meðferð það sem eftir er ævinnar, gefa þarf vítamínið í vöðva á 3 mánaða fresti en hugsanlega oftar í byrjun. B-12 vítamín hefur haft orð á sér fyrir að geta bætt heilsu fólks á ýmsan hátt en engar sannanir eru fyrir slíku. Í flestum fjölvítamíntöflum og hylkjum er nokkurt magn af B-12 vítamíni sem ásamt hollri og fjölbreyttri fæðu inniheldur meira en nóg af þessu vítamíni. Menn hafa óttast að mikil almenn neysla þessa vítamíns og vítamínsins fólínsýru gæti tafið fyrir greiningu alvarlegs skorts á B-12 vítamíni og aukið hættu á taugaskemmdum og þess vegna hefur verið tregða á að leyfa sölu lyfja sem innihalda eingöngu þessi vítamín. Sennilega er þessi ótti ástæðulaus, inntaka þessara vítamína veldur ekki eiturverkunum svo vitað sé og í sumum löndum hafa yfirvöld þess vegna verið að slaka á hömlum gegn sölu. Ekkert bendir til að dagleg neysla B-12 vítamíns geti verið skaðleg en ekki verður heldur séð að neysla umfram það sem er að finna í hollum mat og fjölvítamínum bæti heilsuna. Lesendur Morgunblaðsins geta spurt lækninn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 5691100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok, Fax: 5691222.