TRÉSMIÐURINN Gunnar Sigurðsson hefur gegnt mikilvægu hlutverki í marki Eyjamanna og hefur fundið sérstaklega fyrir því síðustu daga. "Að undanförnu hefur varla verið rætt um annað hér í Eyjum en úrslitaleikinn," sagði hann við Morgunblaðið.


Í tréverkinu í

starfi og leik

"Markmaðurinn í erfiðustu stöðunni á vellinum"

TRÉSMIÐURINN Gunnar Sigurðsson hefur gegnt mikilvægu hlutverki í marki Eyjamanna og hefur fundið sérstaklega fyrir því síðustu daga. "Að undanförnu hefur varla verið rætt um annað hér í Eyjum en úrslitaleikinn," sagði hann við Morgunblaðið. "Maður hittir ekki svo fólk á förnum vegi að ekki sé talað um komandi viðburð og í sannleika sagt "stressar" þessi umræða mig mun meira en ég geri sjálfur því ég hef nóg að gera í vinnunni og hugsa ekki um annað á meðan."

Gunnar sagði að ekki væri rétt að dæma Eyjaliðið út frá síðasta leik. "Ef við stöndum okkur ekki betur þá töpum við leiknum en það er bara ekki á dagskrá. Vissulega er Leiftur með geysigott lið sem rúllaði yfir okkur síðast en við eigum harma að hefna, erum með stærri og sterkari hóp og betra lið. Frá tapleiknum við Leiftur hefur okkur gengið vel í vörninni, miðjan verið góð og sóknin líka þar til í leiknum við Val."

En hvað um markvörðinn?

"Já, það mæðir mest á markmanninum og leikurinn verður erfiður fyrir mig. Ekkert má koma upp á eins og sást í fyrra, þegar ein lítil mistök kostuðu sitt. Hins vegar var mér ekki kennt um; allir sem einn stóðu á bak við mig og ef eitthvað var, var sagt að framherjarnir hefðu átt að vera búnir að gera út um leikinn. En hinu er ekki að leyna að í mínum huga er markmaðurinn í erfiðustu stöðunni á vellinum. Menn þurfa svo sannarlega að vera klikkaðir til að fara í þessa stöðu því menn eru almennt ekki tilbúnir að fara með andlitið í boltann eða vilja fá hann í andlitið."

Það er létt yfir markmanninum og hann segir að andinn í hópnum hafi aldrei verið betri. "Við erum að fara í úrslitaleik og sama verður upp á teningnum og í öðrum leikjum; ef við spilum okkar leik hef ég engar áhyggjur. Hins vegar gerum við okkur grein fyrir að Leiftur er með mjög sterkt lið. Markmaðurinn er mjög góður og norðanmenn eru með rosalega góða einstaklinga sem getað unnið leiki upp á eigin spýtur. En við ætlum ekki að láta þá komast upp með að gera það sem þeir vilja. Ég hef séð myndir af heimkomu Eyjamanna með bikarinn og ég ætla rétt að vona að ég eigi eftir að upplifa það sama og fyrri meistarar ­ að koma með bikarinn siglandi með Herjólfi heim til Eyja og sjá mannfjöldann taka á móti okkur, að sjá Básaskersbryggjuna fulla af fólki."

Morgunblaðið/Sigfús Gunnar Guðmundsson GUNNAR Sigurðsson, markvörður ÍBV, að störfum upp á þaki á húsi Ísfélagsins í Eyjum.