Friðrik og Blíða orðin tvítug TVÍBURAKETTIRNIR Friðrik og Blíða fögnuðu í gær tuttugu ára afmæli, sem hlýtur að teljast allgóður aldur fyrir ketti. Veislan var haldin á heimili Friðriks í Garðabænum en Blíða systir hans átti ekki heimangengt, þar sem hún dvelur vestur í Trostansfirði yfir sumarið.
Friðrik og Blíða

orðin tvítug

TVÍBURAKETTIRNIR Friðrik og Blíða fögnuðu í gær tuttugu ára afmæli, sem hlýtur að teljast allgóður aldur fyrir ketti. Veislan var haldin á heimili Friðriks í Garðabænum en Blíða systir hans átti ekki heimangengt, þar sem hún dvelur vestur í Trostansfirði yfir sumarið. Hún bað þó fyrir kveðjur suður, að sögn Auðar Matthíasdóttur, eiganda Friðriks, en þegar Morgunblaðið ræddi við hana í gær var hún í óða önn að undirbúa veisluna.

Aðspurð hvort margir kettir væru á gestalistanum sagði Auður svo ekki vera, af heilsufarsástæðum afmælisbarnsins. Hins vegar hafi hún m.a. boðið formanni Kattavinafélagsins, Sigríði Heiðberg, og Hervöru Þorvaldsdóttur, sem gaf henni kettina tvo á sínum tíma. "Friðrik er orðinn svolítið óstyrkur, blessaður," segir hún. Hann fer orðið ekki langt í senn, einungis ákveðna göngutúra og þykir ekki gott að fara of langt frá húsinu. "Hann er samt ótrúlega unglegur," segir kattamamman Auður, sem kveðst ekki taka mark á þeirri reiknireglu sem oft er notuð, að eitt ár hjá köttum samsvari sjö hjá mönnum. "Ég bara trúi því ekki, þá ætti hann að vera 140 ára," segir hún.

Ævilengd katta einstaklingsbundin eins og mannfólksins

Í sama streng tekur Jakobína Sigvaldadóttir dýralæknir, sem segir ævilengd katta afar einstaklingsbundna, rétt eins og hjá mannfólkinu. Hún segir nokkuð algengt að kettir nái 16­18 ára aldri og að hún viti um nokkur dæmi þess að þeir fari yfir tvítugt. Einum 24 ára hafi hún meira að segja frétt af. "Þetta fer bara eftir því hvað einstaklingurinn eldist vel," segir hún.

Um það leyti sem þau Friðrik og Blíða voru eins árs fluttu Auður og fjölskylda til Danmerkur. Þá var Blíða kettlingafull og var því skilin eftir heima á Íslandi um stundarsakir, í góðu yfirlæti hjá Hervöru. Þar var Blíða svo þangað til kettlingarnir voru komnir það vel á legg að hægt var að gefa þá og Hervör kom kettlingunum hennar tveimur fyrir á góðu heimili. "Síðan kom Blíða á eftir okkur út en átti þar ekki langa dvöl, því hún undi sér alls ekki í Danmörku." Á endanum varð það úr að foreldrar Auðar, þau Kristín Ingimundardóttir og Matthías Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, tóku Blíðu að sér. Hún dvelur nú löngum með húsbændum sínum í sumarbústað þeirra í Trostansfirði, þar sem hún stjórnar öllu, að sögn Auðar.

Hann alþýðlegur en

hún föst á sínu

Friðrik og Blíða eru þau eru mjög ólík systkin. "Hún er skapþyngri og ekki nálægt því eins mikið fyrir gælur, en mjög föst á sínu og kann alveg ofboðslega vel á sitt fólk. Hún veit alveg nákvæmlega hvað hún getur leyft sér við pabba og mömmu, hún vekur mömmu til dæmis aldrei á morgnana en hún hikar ekki við að vekja pabba ef eitthvað er. Friðrik hefur aftur á móti alltaf verið mjög alþýðlegur og fljótur að bjóða gesti velkomna. Hann situr gjarnan í selskapnum og kemur sér fyrir á milli fólks og hlustar," segir Auður.

Morgunblaðið/Þorkell AFMÆLISBARNIÐ Friðrik athugar hvort ekki sé allt í lagi með afmælistertuna áður en gestirnir taka til matar síns.SAMRÝMD systkini fá sér blund. Myndin er tekin af þeim Blíðu og Friðriki u.þ.b. fimm mánaða gömlum fyrir tæpum tveimur áratugum.