FRUMSÝNING á íslenskri útgáfu einleiksins "Ferðir Guðríðar" verður í Norðurlandahúsinu í Færeyjum á morgun, sunnudaginn 30. ágúst. Norræna húsið í Reykjavík sendir sýninguna til Þórshafnar sem afmælisgjöf í tilefni 15 ára afmælis Norðurlandahússins í Færeyjum. Höfundur og leikstjóri einleikjanna um Guðríði Þorbjarnardóttur er Brynja Benediktsdóttir.

"FERÐIR GUÐRÍÐAR"

Í FÆREYJUM

FRUMSÝNING á íslenskri útgáfu einleiksins "Ferðir Guðríðar" verður í Norðurlandahúsinu í Færeyjum á morgun, sunnudaginn 30. ágúst. Norræna húsið í Reykjavík sendir sýninguna til Þórshafnar sem afmælisgjöf í tilefni 15 ára afmælis Norðurlandahússins í Færeyjum.

Höfundur og leikstjóri einleikjanna um Guðríði Þorbjarnardóttur er Brynja Benediktsdóttir. Leikkona íslensku útgáfunnar er Ragnhildur Rúriksdóttir. Ingibjörg Þórisdóttir leikkona, aðstoðarmaður Brynju, verður með í Færeyjarför, en þær Ragnhildur eru báðar leiklistarmenntaðar í Bandaríkjunum.

Fimmtudaginn 3. september mun Ragnhildur svo leika fyrstu sýningu sína á Íslandi í Skemmtihúsinu, en sýningarnar verða einungis fjórar í september, þar sem enska útgáfan með Tristin Gribbin í hlutverki Guðríðar er boðin í leikferð til Kanada um miðjan mánuðinn. Enska útgáfan hefur verið á fjölunum í Skemmtihúsinu í sumar og verður aukasýning á henni laugardaginn 12. september áður en lagt verður af stað í Kanadaför.

Sviðsmynd er miðaldakort af löndunum sem Guðríður ferðaðist til málað af listakonunni Rebekku Rán Samper. Hljóðmynd og tónlist er eftir Margréti Örnólfsdóttur og tískuteiknarinn Filippía Elísdótir teiknaði búning Guðríðar.

Morgunblaðið/Þorkell RAGNHILDUR Rúriksdóttir, Brynja Benediktsdóttir og Tristin Gribbin, aftast stendur Ingibjörg Þórisdóttir.

RAGNHILDUR í hlutverki Guðríðar.