Sveinn Eiríksson Náinn vinur og nágranni er genginn yfir móðuna miklu. Vissulega óvænt af því ég skynjaði Svein aldrei sem gamlan mann. Þótt líkaminn eltist var sálin ung og hugsjónirnar líka. Hann fylgdist náið með því sem var að gerast í sveitinni og sagði mér umbúðalaust hvað honum fannst betur mega fara.

Þegar kallið kom vorum við nýbúnir að hittast hjá hárskeranum og þá sem oftar hvarflaði það að mér að honum væri öðrum þræði jafn mikilvægt að gefa mér góð ráð og að hár hans væri snyrt í þessum reglubundnu ferðum. Þar bar á góma hreppsins (ekki landsins) gagn og nauðsynjar, en frá því að ég man fyrst eftir að ég færi að leggja hlustir við orðum þessa hollvinar hefur landsmálapólitík aldrei borið á góma. Þetta finnst mér lýsa Sveini vel. Hann fylgdi því eftir af lífi og sál sem honum var annt um en lét önnur málefni öðrum eftir þótt hann t.d. fylgdist vel með allri þjóðmálaumræðu.

Allt frá æskudögum helgaði Sveinn félagsmálum allar stundir sem gáfust frá amstri hins daglega lífs. Hann var einn af stofnendum ungmennafélagsins og sat í stjórn þess fyrr en varði. Síðan rak hvað annað alla hans starfsævi. Í hreppsnefnd sat hann í 36 ár, formaður fjárræktarfélags í 42 ár, í stjórn búnaðarfélags um árabil, fjallkóngur var hann í tíu ár auk annarra fjölmargra trúnaðarstarfa. Allt þetta sem upp er talið er sjálfsagt ekki einsdæmi í dreifbýli þessa lands. Í öllu félagsstarfi sem Sveinn tók sér fyrir hendur var hann mikill og farsæll leiðtogi hvort sem hann gegndi formennsku eða öðrum trúnaðarstörfum og eins var þáttur hans ómetanlegur sem óbreytts félagsmanns, til dæmis í ungmennafélaginu á árum áður bæði í hollráðum og ekki síður í allri leikstarfsemi svo eitthvað sé nefnt.

Sveinn var hafsjór af fróðleik um sveitina okkar. Ritaði hann margar greinar um afréttinn sem hann unni mjög og er vonandi eitthvað til óbirt frá hans hendi. Ógleymanleg verður mér síðasta ferð okkar saman um Gnúpverjaafrétt. Þá fékk ég hann með mér til trausts og halds þegar hópur manna á vegum hálendisnefndarinnar fór í skoðunarferð inn Hrunamannaafrétt inn fyrir Kerlingarfjöll og fram Gnúpverjaafrétt. Við oddvitar höfðum af því áhyggjur að hvorki birta né þrek myndi endast okkur, enda kominn september og við komnir að miðjum aldri og Sveinn yfir áttrætt. Í stuttu máli fór eins og við bjuggumst við um daginn og þrekið ­ allra nema Sveins. Hann hafði sig lítið í frammi inn Hrunamannaafrétt en um leið og komið var austur fyrir Kerlingarfjöll birti yfir mínum manni. Hann yngdist upp og sagði okkur sögur gamlar og nýjar af smalaferðum um afréttinn. Í þeim öllum var tilgreint veður, staður og stund og hverjir voru á fjalli það árið. Við höfðum ekki ástæðu til að vantreysta þeim heimildum.

Gnúpverjar eiga þessum manni mikið að þakka. Líklega meira en flestum öðrum. Hann stóð ekki alltaf í fylkingarbrjósti enda sóttist hann ekki eftir metorðum. En alltaf ef á reyndi var hann traustur bakhjarl, vitur, ráðagóður og ósérhlífinn. Slíkir menn eru ekki á hverju strái.

Ég votta ástvinum hans og öllum vandamönnum mína dýpstu samúð. Huggun harmi gegn er minningin um góðan dreng.

Bjarni Einarsson, Hæli, oddviti Gnúpverja.