Friðrik Sólmundsson "Hann Frissi er farinn." Þessi einfalda en samt svo flókna setning hljómaði stöðugt í eyrum mér. Frissi var einstaklega ljúfur og góður maður, góðlátlega stríðinn og með sitt torráðna glettnisbros. Átta ára gamall var ég sumarlangt á Stöðvarfirði. Ég þóttist nú maður með mönnum og sterkur eftir því. Frissi tók þá upp járnkarl, rak hann í jörðina og átti ég að ná honum upp. Járnkarlinn var enn fastur þegar ég fór suður um haustið og sagði Frissi að hann yrði þar áfram, þar til ég næði honum upp. Hann minnti mig oft á járnkarlinn í gegnum árin og spurði glettnislega hvort ég ætlaði ekki að koma austur að losa hann. Frissi var ekki ólíkur járnkarlinum. Hann var sterkur og traustur og lét ekki smámuni raska ró sinni.

Ég kveð góðan vin og frænda með söknuði og sendi Sollu og fjölskyldu samúðarkveðjur.

Ellert Már Jónsson.